27.03.1940
Neðri deild: 23. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (2218)

81. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja

*Einar Olgeirsson:

Hv. 6. þm. Reykv. kom hér inn á það atriði, hve mikinn gróða togarafélögin hefðu haft af ísfiskssölunni í haust. Ég ætla að reikna út frá hans eigin uppástungu, hve mikill kostnaðurinn þurfi að vera við hverja ferð og hve mikill gróðinn myndi vera. Hann telur, að hver ferð til Bretlands með ísfisk muni kosta um 3000 sterlingspund fyrir hvern togara, en ég hefi reiknað með því, að hver ferð muni kosta 2400 sterlingspund. Ég skal samt reikna, hver útkoman verður samkv. þeim upplýsingum, sem hann hefir gefið. Í Alþýðublaðinu frá 13. marz var skýrt frá ísfiskssölu togaranna síðan í október 1939 og birtar nákvæmar tölur um söluna. Þar er sagt, að að meðaltali hafi togararnir selt í ferð fyrir 3528 sterlingspund. Ef það væri rétt, sem hv. 6. þm. Reykv. heldur fram um kostnaðinn, væri gróði þeirra aðeins rúm 500 sterlingspund að meðaltali. En þeir hafa farið 114 ferðir síðan um áramót, og samkv. þessum útreikningi hv. 6. þm. Reykv. yrði gróði þeirra þá alls 11/2 millj. kr. Fyrir nýárið var hinsvegar sala togaranna 62/3 millj. kr. a. m. k., en eftir nýárið munu þeir hafa selt fyrir a. m. k. 10 millj. kr. Ef maður áætlar álíka gróða af sölunni fyrir nýár sem eftir nýárið, ætti hann að samsvara 1 millj. kr. Frá stríðsbyrjun ætti gróði allra togaranna samkv. upplýsingum hv. 6. þm. Reykv. að vera þó a. m. k. 21/2 millj. kr. Ég sagði hér áðan, þegar ég talaði um þetta, að gróði togaraflotans af ísfiskssölunni væri áætlaður milli 3–6 millj. kr., en menn deildi nokkuð á um það, og lágmarkið eftir því, sem hv. 6. þm. Reykv. álitur, sem setti kostnaðinn við hverja ferð talsvert hærri en ég hélt rétt vera, er þó 21/2 millj. kr. ágóði.

Þá minntist hv. 6. þm. Reykv. á það, að Sósíalistafl. myndi ekki hafa gengið neitt gott til, er hann var á móti því, að togaraeigendur fengju skattfrelsi. Hann vildi álíta, að sá flokkur ynni að því að koma atvinnulífi landsmanna í rústir. Ég vildi óska þess, að þessi hv. þm. vildi reyna að færa rök fyrir sínu máli. Ef hann vildi athuga, hvaða flokkar stefndu að Því að leggja atvinnulífið í rústir, býst ég við, að hann myndi lenda á sinum eigin flokki. Við þetta tækifæri vil ég spyrja þennan hv. þm.: Hvaða flokkur var það, sem vildi koma upp nýrri síldarverksmiðju á Siglufirði og var búinn að útvega lán og undirbúa allt til þess að verksmiðjan gæti orðið tilbúin fyrir síldarvertíðina nú í sumar? Sósíalistafl. og Alþfl. ásamt Sjálfstfl. í bæjarstj. Siglufjarðar stóðu óskiptir um þetta mál, fulltrúi Framsfl. í bæjarstj. var einn á móti. Það var búið að gera allar ráðstafanir til þess, að 5000 mála síldarverksmiðja yrði reist, en hinsvegar strandaði þetta allt á hæstv. atvmrh., sem neitaði um leyfi fyrir því að byggja síldarverksmiðju hér á Íslandi. Þannig er nú farið að því að efla atvinnulífið af hálfu þessara þm. og þeirra stj., sem þeir styðja. Mér finnst það því koma úr hörðustu átt, þegar þessir menn, sem standa í vegi fyrir því, að gróðavænlegir atvinnumöguleikar og heillavænlegir að öllu leyti fyrir landslýð opnist, gripa til þess úrræðis að koma hér á Alþ. með dylgjur um það, að íslenzkir sósíalistar séu sérstaklega að reyna til þess að koma atvinnulífi landsmanna í rústir. Það mætti ennfremur, þegar rætt er sérstaklega um sjávarútveginn, beina þeirri spurningu til hv. 6. þm. Reykv., hverjir hefðu verið hagsmunir útgerðarinnar hvað þetta snertir, þar sem vitanlegt er, að fiskiflotinn muni verða gerður út á síldveiðar í sumar í stærri stíl en nokkru sinni fyrr, og verksmiðjur muni vanta, ef afli verður góður um síldveiðitímann. Ég býst við, að hér sé um nýtt sjónarmið að ræða, og út frá því ættu menn betur að geta séð, hvað því veldur, að atvinnulíf landsmanna liggur í rústum.

Annars ætla ég ekki að tala fleira um þetta; ég ætla nú að snúa máli mínu að innflutnings- og gjaldeyrisnefnd, sem ásamt hæstv. ríkisstj. stendur sérstaklega í vegi fyrir því, að hægt sé að auka við fiskiflotann, byggja nýja báta eða kaupa nýja báta frá útlöndum. Hún neitar um innflutningsleyfi fyrir þeim á sama tíma sem vitanlegt er, að okkur er nauðsyn á að framleiða sem mest til þess að greiða fyrir þær nauðsynjavörur, sem við þurfum að fá frá útlöndum. Það er svo langt frá því, að það sé að nokkru leyti Sósíalistafl., sem leggur hömlur á atvinnulífið í landinu, að það er alveg auðséð, að það eru þvert á móti núv. ríkisstj. og þeir flokkar, sem hana styðja, er hjálpa til þess að reyna að kyrkja atvinnulífið og hindra frekari framfarir í öllu því, er það snertir, en halda við þeirri spillingu, sem nú er. Með þessu reynir hæstv. ríkisstj. að tryggja völd þeirra peningamanna eða skuldakónga, sem ráða í landinu, og tryggja völd þeirra fyrirtækja, sem fyrir eru, með því að hindra, að nein samkeppni geti átt sér stað.

Ég býst alls ekki við, að hv. 6. þm. Reykv. vilji, þegar rætt er um atvinnulifið í landinu, fara að rifja upp, hver afstaða þjóðstjórnarflokkanna hefir verið í sambandi við fjárl., en þar hafa þessir flokkar sýnt það skýrt, að þeir vilja hindra allar framkvæmdir, hvort sem heldur er í landbúnaði eða sjávarútvegi. Það er anzi hart að heyra þessa menn bera okkur stj.andstæðingum það á brýn, að við viljum leggja atvinnulífið í rústir, sem sjálfir hafa verið að skera niður framlög og einmitt koma í veg fyrir haganleg verkefni á því sviði. Þannig hefir verið unnið að því að þrengja atvinnulífið.

Ég vildi bara með þessum orðum, sem ég nú hefi sagt, hrekja gersamlega það, sem hv. 6. þm. Reykv. var að halda fram. Það, sem sá hv. þm. sagði um Sósíalistafl., hefir ekki við nein rök að styðjast, en þessar sömu ásakanir heimtar núv. ríkisstj. og hennar pólitík því skarpari á hendur þessum flokki, til að bægja almenningi frá að íhuga, að það eru einmitt þjóðstjórnarflokkarnir, sem því miður eru nægilega sterkir til þess að geta lagt atvinnulífið í landinu í rústir, og þess vegna gera þeir það líka.