05.04.1940
Neðri deild: 31. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í C-deild Alþingistíðinda. (2228)

105. mál, verðlagsuppbót á laun starfsmanna í verzlunum og skrifstofum o. fl.

Flm. (Thor Thors):

Hv. þm. Borgf. sagði, að frv. um verðlagsuppbót til starfsmanna ríkisins mundi taka breyt. Þetta má vel vera, en mér skilst það vera ágreiningslitið hér á þingi, að einhver launauppbót eigi að koma til þessara starfsmanna, og ég sætti mig fyllilega við það, að þetta frv. sæti sömu meðferð og frv. um verðlagsuppbót til starfsmanna ríkisins.

Hv. þm. Borgf. sagði, að afskipti ríkisvaldsins af launamálum stöfuðu af ótta við kaupdeilur. En það er ekki neinar kaupdeilur að óttast hjá starfsmönnum ríkisins. Þeim er bannað að gera verkföll. Frv. um uppbót til þeirra byggist á viðurkenningu á því, að dýrtíðin hafi aukizt svo mikið, að það verði að bæta mönnum upp kaupið. Sama sjónarmið nær vitanlega til þeirra starfsmanna, sem þetta frv., sem við erum nú að ræða um, nær til. verði hinsvegar þessum kröfum ekki sinnt, getur vel komið að því, sem virðist vera skilyrði fyrir stuðningi við þessi mál frá hendi hv. þm. Borgf., að þetta fólk leiti þá til þess ráðs að knýja fram sínar kröfur með verkföllum.

Ég tel eðlilegt, að frv. nái til landsins í heild, þar sem hér er um hlutfallslega uppbót að ræða. Það má vera, að það hafi ekki komið fram opinberlega kröfur frá þessu fólki, en það stafar af því, að þessi stétt hagar sínum kaupgjaldsmálum öðruvísi en aðrar stéttir og hún hefir ekki lagt það í vana sinn að halda þeim mjög á lofti, og allra sízt við Alþ.

Ég vænti þess því fyllilega, að hv. þm. sjái, að hér er aðeins um sanngirnismál að ræða, um að samræma kjör þessa starfsfólks þeim kjörum, sem Alþ. er að ákveða öðrum stéttum.