16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (2236)

105. mál, verðlagsuppbót á laun starfsmanna í verzlunum og skrifstofum o. fl.

Skúli Guðmundsson:

Hv. flm. hefir heldur mælt í móti því, að umr. verði frestað, og vil ég þess vegna leyfa mér að segja um málið nokkur orð.

Ég verð að segja, að ég hefi ekki enn í umr. um þetta mál heyrt nein rök fyrir því færð, að það væri rétt af Alþ. að setja löggjöf um þetta efni. Ég sá ekki ástæðu til að blanda mér í þær umr., sem urðu um málið við 1. umr., þar sem ég gerði ráð fyrir, að þetta frv. yrði eitt af þeim, sem færi til n. og kæmi þaðan ekki aftur. Ég tel fráleitt að setja löggjöf um þetta efni. Ég bjóst satt að segja við, að hv. þm. Snæf. hefði flutt þetta frv. aðallega til þess að geta sagt verzlunarfólki hér í bænum frá því á eftir, að hann hafi viljað veita því launauppbót. Hinu gerði ég ekki ráð fyrir, að honum væri það alvara, að Alþ. ætti að setja um þetta löggjöf. Ég varð ekki lítið undrandi, þegar ég sá, að fjhn. mælti með því, að frv. yrði gert að l. Ég sé að vísu, að einn nm. hefir skrifað undir nál. með fyrirvara, hv. þm. V.-Ísf., en hann hefir ekki ennþá gert grein fyrir, í hverju fyrirvarinn er fólginn. Hann gerir það væntanlega síðar.

Það er að því vikið í grg. frv., að Alþ. hafi ákveðið að hækka kaupgjald ýmsra manna hér á landi með l. nm gengisskráningu o. fl. Sömuleiðis er að því vikið, að fyrir Alþ. liggi nú frv. um verðlagsuppbót á laun starfsmanna ríkisins. Síðan er talið í grg., að afleiðingin af þessu hvorutveggja eigi að vera samþykkt þessa frv., sem hér liggur fyrir. Nú held ég, að hv. þm. sé ljóst, að kaupgjaldsákvæðin að því er snertir sjómenn og verkamenn voru sett í gengislögin til þess að koma í veg fyrir, að sá hagnaður, sem framleiðendur hefðu af gengisbreytingunni, væri allur af þeim tekinn með ósanngjörnum kaupkröfum, og sömuleiðis til að koma í veg fyrir, að deilur um þetta yrðu til að stöðva framleiðsluna. Það var þessi nauðsyn. sem gerði það að verkum, að Alþ. fór inn á þá braut að ákveða kaupgjald þessara stétta með l. í hlutfalli við vaxandi dýrtíð. Og eins og ég vék að áðan í umr. um annað mál, þá var því yfir lýst af þeim flokkum, sem að gengislögunum stóðu, að þetta bæri ekki að skoða sem viðurkenningu á því, að þeir vildu yfirleitt fara inn á þá braut að ákveða kaupgjald með lögum. Þessu var yfir lýst. Hvað viðvíkur því frv., sem fyrir liggur um greiðslu verðlagsuppbótar á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana, þá er þar öðru máli að gegna en um þetta frv. Þar er ríkið annar aðilinn og þarf fyrir sitt leyti að taka ákvarðanir um kaupgjald þeirra, sem eru í þjónustu þess, og Alþ. á að hafa ákvörðunarrétt um kaupgjald þess fólks. Þótt sett séu l. um uppbætur til þessa fólks, leiðir ekki af því, að Alþ. eigi að fara að setja l. um kaupgjald, sem er rekstri ríkisins óviðkomandi. Ég hefi og eigi orðið þess var, að komið hafi fram almennar óskir um það, að Alþ. setti l. um þetta efni, né að þess hafi orðið vart, að ósamkomulag ætti sér almennt stað milli kaupsýslumanna og starfsmanna þeirra um lannagreiðslur. Það er vikið að því í grg. frv., að Verzlunarmannafélag Reykjavikur hafi komizt að samkomulagi um uppbætur á laun verzlunarfólks við nokkur félög kaupmanna hér í Reykjavík, en hinsvegar er það gefið í skyn, að einhverjir kaupsýslumenn muni ekki vilja greiða þessar uppbætur. En mér er sagt af fjhn.-mönnum, að engar skriflegar upplýsingar lægju fyrir n. í þessu máli né óskir um, að Alþ. setti slík lög.

Ég tel, að með samþykkt þessa frv. fari Alþ. inn á varhugaverða braut og því eigi að vísa þessu máli frá. Ég tel og vist, að verzlunarrekendur muni eins og áður komast að góðu samkomulagi við sitt starfsfólk. Ég vil enn leggja áherzlu á, að Alþ. fari ekki að setja l. um þessi mál. að nauðsynjalausu, enda er það mál, sem hér um ræðir, á engan hátt sambærilegt við þau kaupgjaldsákvæði, er Alþingi setti í sambandi við breytingu gengislaganna. Öllum er kunnugt, hvers vegna þau lagaákvæði voru sett. Færi Alþ. að hafa afskipti af launakjörum verzlunarfólks, gæti það dregið dilk á eftir sér. Væri þá ekkert eðlilegra en að farið væri að tína upp allar aðrar stéttir, sem ekki hefðu fengið kjarabætur, og næsta skrefið yrði það, að hv. þm. Snæf. eða einhver annar bæri fram frv. um dýrtíðaruppbót t. d. á laun vinnukvenna. (TT: Væri ekki betra, að þessi hv. þm. gerði það?;. Ég álit, að Alþ. eigi ekki að fara inn á þessa braut, enda hefir ekkert það komið fram í málinu, sem bendi til, að ósamkomulag sé um þessa hluti milli þeirra aðila, er hér eiga hlut að máli. Vil ég því leyfa mér að afhenda hæstv. forseta dagskrártill., svo hljóðandi:

„Þar sem ætla má, að yfirleitt verði fullt samkomulag um launagreiðslur milli atvinnurekenda og starfsmanna í verzlunum og skrifstofum, og engar almennar óskir hafa borizt til Alþingis frá þeim aðilum um að setja löggjöf um launabætur þessara starfsmanna, telur deildin eigi ástæðu til að afgreiða frv. um þetta efni, sem fyrir liggur, og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“