16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (2237)

105. mál, verðlagsuppbót á laun starfsmanna í verzlunum og skrifstofum o. fl.

Thor Thors:

Þetta afturhaldssjónarmið, sem hv. þm. V.- Húnv. hafði fram að bera í þessu máli, kemur mér ekki á óvart. Hann hefir sín sjónarmið bæði á þessu og öðrum málum, en sem betur fer fá þau litlar undirtektir í hv. deild. Hv. þm. V.-Húnv. sér ekki ástæðu til, að Alþ. láti mál þetta til sín taka, þar sem ekki hafi borizt sérstakar óskir í því efni. Þetta frv. er flutt fyrir tilmæli Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, sem er langfjölmennasta og enda aðalfélag verzlunarfólks í Reykjavík. Í öðru lagi má geta þess, að samningar hafa ekki náðst við alla atvinnurekendur á þessu sviði um kjarabætur til handa starfsmönnum. Nú er því spurningin þessi: Er það vilji Alþ., að þetta fólk skipi sér í fylkingar og geri verkföll til þess að koma fram kröfum sinum, eða eiga þeir, sem hóflega fara í sakirnar, að vera afskiptir um kjarabætur? Það virðist svo, að í mál þetta hafi blandazt pólitískt sjónarmið, en fyrir alla þá. sem vilja stuðla að friði og sanngirni í þjóðfélaginu, er þetta augljóst nauðsynja- og sanngirnismál.

Hv. þm. V.-Húnv. sagði, að öðru máli væri að gegna um frv. það, er fyrir liggur um greiðslu verðlagsuppbótar á laun opinberra starfsmanna og embættismanna, en frv. það, sem hér er til umr. — Skv. 5. gr. gengisskráningarl. var ríkisstj. heimilað að veita með reglugerð dýrtíðaruppbót á laun þessara manna. Þetta hefir stjórnin ekki gert, og var hún í dag áfelld fyrir að bera fram sérstakt frv. til l. um þessar launabætur, enda var það á færi ríkisstj. að útkljá þetta með reglugerð.

Ég hygg, að það sé viðurkennt bæði með breytingunni á gengisskráningarlögunum, sem gerð var á síðasta þingi, og með frv. því, sem fyrir liggur um greiðslu verðlagsuppbótar á laun embættismanna og opinberra starfsmanna, að bæta beri kjör þess fólks, er þar á hlut að máli. Ég álít, að því fólki, sem bundið er við samskonar vinnu hjá einstökum stofnunum og einstaklingum, beri tvímælalaust sama leiðrétting sinna mála og þeim, sem eru í opinberri þjónustu, enda hljóta allir að viðurkenna, að dýrtiðin bitnar jafnt á þeim og öðrum, Hvaða sanngirni er þá í því að neita þessu fólki um launabætur? Hv. þm. V.-Húnv. segir, að verzlunarfólkið eigi sjálft að afla sér þeirra með frjálsum samningum við atvinnurekendur. Það skal viðurkennt, að þetta er hægt í mörgum tilfellum. En ætlar þá Alþ. að fara að verðlauna þá afturhaldsmenn meðal kaupsýslumanna, sem ekki vilja líta með sanngirni á réttmætar kröfur verzlunarfólksins, með því að hlífa þeim og neita verzlunarfólkinu um þann stuðning, sem því ber ekki síður en öðrum? Verzlunarmannastéttin hefir ekki fyrr almennt beðið um lögvernd, en þetta frv. byggist á því ástandi, er skapazt hefir vegna ófriðarins, og fer ekki fram á aðrar bætur til handa þessari stétt en öðrum launþegum eru veittar. Það er misskilningur, að hér sé með l. verið að ákveða kaupgjaldsgreiðslur; hér er aðeins verið að fara fram á sömu uppbætur vegna dýrtíðarinnar og aðrir hljóta, en það er eftir sem áður á valdi kaupsýslumanna og verzlunarmanna að semja um það, hver launakjörin verða í aðalatriðum.