16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (2242)

105. mál, verðlagsuppbót á laun starfsmanna í verzlunum og skrifstofum o. fl.

Thor Thors:

Hæstv. viðskmrh. lét í ræðu sinni koma fram sömu skoðun sem hv. þm. V.-Húnv. um það, að það væri alveg óverjandi fyrir Alþ. að ganga lengra í því að lögákveða kaupgjald heldur en gengið var með l. um gengisskráningu. Ég vil leyfa mér að benda hæstv. viðskmrh., á sama hátt sem ég hefi bent hv. þm. V.- Húnv., á það, að það nær engri átt, að með þessu frv. sé verið að ákveða almennt kaupgjald skrifstofu- og verzlunarfólks. Það er frjálst jafnt hér eftir sem hingað til að semja um kaupauka, þó að þetta frv. verði að l. Það, sem þetta frv. fer fram á, er aðeins það, að sama verðlagsuppbót vegna dýrtíðarinnar skuli hlotnast þessu fólki sem öðrum launþegum. Það er alveg frjálst eftir sem áður fyrir atvinnurekendur að ráða mann eða konu í sína þjónustu við verzlun eða í skrifstofu fyrir 75–100 kr. á mánuði. En það er bara ákveðið, að á þessi laun skuli koma sú verðlagsuppbót, sem Alþ. er búið að ákveða, að skuli hlotnast verkamönnum, sjómönnum, verksmiðjufólki og iðnaðarmönnum. Það fer yfirleitt mjög í taugarnar á hv. þm., ef minnzt er á há laun, en ég vil þó segja það, að margir iðnaðarmenn hafa tiltölulega há laun, en samt eiga þeir samkv. ákvörðun Alþ. að fá vissa verðlagsuppbót á sín laun. En í þessu frv. er farið fram á, að það fólk, sem vinnur við verzlunar- og skrifstofustörf, - og margt af því er mjög lágt launað - fái verðlagsuppbót. Það eru t. d. stúlkur í skrifstofum, sem ekki hafa hærri laun en 100–150 kr. á mánuði og jafnvel hv. þm. V.-Húnv. mun geta skilið, hvernig þeim muni ganga að lifa á svo lágum launum hér í Reykjavík.

Verzlunarmannafélagið telur, að ekkert sé upplýst um það, að þetta fólk myndi ekki ná samkomulagi og samningum við sína atvinnurekendur. Ég veit, að það hefir náð samningum við ýms félög atvinnurekenda á þessu sviði. Ég hefi ekki hugmynd um, hvort þessir samningar hafa náðst við kaupfélögin, en ettir því sem þessir menn, hv. þm. V.-Húnv. og hæstv. viðskmrh., gáfu í skyn, geri ég ráð fyrir, að verzlunarfólki muni ganga erfiðlega að fá réttlæting sinna mála þar. Spurningin er þetta: Á að verðlauna þá einstöku atvinnurekendur, sem vilja standa utan við þetta samkomulag, með því að leyfa þeim samkv. vilja Alþ. að níðast á sínu starfsfólki? Þetta er eina spurningin, sem máli skiptir í þessu sambandi, og ég vil, að hv. þm. geri sér þetta sjónarmið vel ljóst. Mér þykir það ákaflega sárt, að það sjónarmið skuli koma fram hér á þingi, að Alþ. beri að virða að vettugi kröfur alls þess starfsfólks, sem ekki er nægilega megnugt til þess að ógna Alþ. Það hefir komið fram í hverri ræðunni á fætur annari, að Alþ. beri alls ekki að skipta sér neitt af þessum málum fyrr en fólkið beinlinis réttir hnefann framan í það. Mér þykir ákaflega leitt að þurfa að vera sammála mörgu af því, sem hv. 5. þm. Reykv. (EOl) sagði. Ég vil vara Alþ. við því að ætla sér að gera þessi ummæli hans að sannmælum. Við, sem erum stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., berjumst fyrir því, að friður og sanngirni ráði í þjóðfélaginu, svo að allir geti sæmilega unað við sinn hag. Okkur berskylda til þess að sýna einnig þessu fólki sanngirni, svo að það komi ekki með hótanir eða illmæli í garð Alþ.

Ég skal geta þess, að ég gæti fellt mig við það, að brtt. hv. þm. V.-Ísf. yrðu teknar til greina um það, að fleiri starfsmenn kæmu undir þessi l. heldur en orðalag frv. ber beinlínis með sér nú. En ég vil bara svara því út af umhyggju hv. þm. V.-Húnv. fyrir vinnukonum, að þær hafa sín launakjör a. m. k. að nokkru leyti í fæði og húsnæði, er vitanlega verður dýrara fyrir húsráðendur eftir því sem dýrtíðin vex.

Hv. frsm. fjhn. er ekki viðstaddur nú. Ég hefði helzt viljað ná samkomulagi við hann, að þetta frv. mætti ganga til 3. umr. og fjhn. kæmi með sínar brtt. við 3. umr. þess. Ég veit ekki annað en að fjhn. ætli að flytja brtt. sínar við 3. umr. þessa frv. En ef það er ákveðinn vilji n., að umr. verði frestað, þá skal ég sem flm. frv. sætta mig við það, en ég tel eðlilegra, að það fengi að fara til 3. umr. hér í d.