16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (2245)

105. mál, verðlagsuppbót á laun starfsmanna í verzlunum og skrifstofum o. fl.

*Jón Pálmason:

Því miður er ræða hæstv. viðskmrh. byggð að mestu leyti á útúrsnúningi. Hann sagði, að það, sem ég hefði mest við að athuga, sé, að kaupið væri lögfest í sambandi við gengisbreytinguna, en ég tók fram, að ég liti á þessar ráðstafanir sem neyðarúrræði til að komist út úr þeim vandræðum, sem hann og hans flokksbræður eru búnir að skapa í kaupgjalds- og launamálum landsins. Það er þess vegna ekki þetta atriði, sem er afhugavert í þessu sambandi, heldur þau afskipti, sem hann og hans meðstarfsmenn hafa haft undanfarið af hækkandi kaupgjaldi í landinu. Þessi kauphækkun er nú svo mikil, að framleiðslan er að sligast undir því. Það er rétt hjá hæstv. viðskmrh., að mér hafi þótt, með þessu frv-. og þeim breytingum, sem gerðar voru um áramótin, gengið lengra en hæfilegt var um hækkun á kaupgjaldi. Hann sagði ennfremur, að ég hefði „dottið út af línunni“ hvað þetta snertir. En þessi ummæli hæstv. ráðh. eru alger fjarstæða, því ég held áfram á þeirri sömu braut, sem Alþ. hefir farið að undanförnu og ríkisstj. hvað snertir starfsmenn ríkisins. Hæstv. viðskmrh. sagði, að allt öðru máli gegndi um verzlunarmenn en kaupafólk, þar sem það fengi frítt fæði og húsnæði og tæki ekki nema að litlu leyti þátt í dýrtíðinni. Þó er það svo, að ráðstafanir, sem gerðar hafa verið af því opinbera, hafa haft þau áhrif á kaup þessa fólks í sveitum landsins, að næstum ókleift er fyrir bændur að kaupa vinnu þess, og eingöngu er þetta að kenna framferði hæstv. viðskmrh. og hans samstarfsmanna í þessum málum að undanförnu.