16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (2246)

105. mál, verðlagsuppbót á laun starfsmanna í verzlunum og skrifstofum o. fl.

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. þm. A.Húnv. segir nú, að hann hafi ekki átt við það í hinni fyrri ræðu, að nokkuð hafi verið athugavert við það, að setja lög um kaupgjald, þó að hann væri áður búinn að áfella mig og hv. þm. V. Húnv. fyrir að hafa staðið að slíkum framkvæmdum. Ég tel sjálfsagt, að hv. þm. hafi mismælt sig, og er það þá hér með úr sögunni, en þá er þarflaust að koma með harðar ádeilur í garð annara út af þessu. Hv. þm. vildi ekki kannast við að hafa dottið út af línunni í sambandi við þetta mál, heldur sagðist hann halda áfram á sömu braut og áður hefði verið farin um launagreiðslur, bæði í þeim l., sem sett hefðu verið, og framkvæmdum ríkisstjórnarinnar. Eru það ekki l. um kaupgjald, sem hv. þm. var að deila á, og var hann ekki líka að deila á stefnu ríkisstj. í þeim efnum? Ég segi, að hv. þm. hafi dottið út af línunni með því að fylgja stefnum, sem hann hefir eindregið verið á móti.

Hv. þm. talaði um, að það væri mér að kenna, hve bændur ættu erfitt með að borga kaupafólki. En ég vil taka fram, að þegar hv. þm. A.-Húnv. er búinn að setja samskonar lagaákvæði, sem hann er raunverulega skyldugur til að fylgja vegna afstöðu sinnar í kaupgjaldsmálunum, þá verða bændur landsins ekki betur settir um kaupafólk en undanfarið. Það hefir því greinilega komið í ljós stefnubreyting hjá hv. þm. í þessu efni. Ég get ekki stillt mig um að geta þess, að eftir afstöðu hv. þm. í þessu máli er hann skyldugur til að fylgja þeim brtt., sem hv. þm. V.-Ísf. boðaði, að hann myndi flytja við 3. umr. málsins. Kann svo að fara, að hv. þm. A.-Húnv. og fleirum, sem nú eru andvígir þessu frv., reynist erfitt að horfa upp á það, að verzlunarfólkið eitt fái ekki uppbót á laun sín. Þá finnst mér, að hv. þm. hafi dottið út af línunni.