23.04.1940
Efri deild: 47. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (2274)

105. mál, verðlagsuppbót á laun starfsmanna í verzlunum og skrifstofum o. fl.

Bernharð Stefánsson:

Ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara. Þegar hv. n. afgreiddi málið, stóð svo á, að um það leyti var verið að afgreiða hér í hv. d. frv. um verðlagsuppbót til opinberra starfsmanna. Og þetta frv. er svipaðs efnis og það frv. í öllum aðalatriðum. Ég er þó í talsverðum efa um það, hvort rétt sé, að löggjöfin fari að svo stöddu að blanda sér inn í samninga, sem í gildi eru milli verzlunarfólks og húsbænda þess. Því skrifaði ég undir nál. með fyrirara, því ég vil hafa óbundnar hendur um málið, þó ég sæi ekki ástæðu til að gefa út sérstakt nál. En auk þess hefir það skeð síðan ég skrifaði undir nál., að hv. Nd. hefir breytt frv. um verðlagsuppbót til opinberra starfsmanna þannig, að þeir, sem hafa 8000 kr. laun eða meira, skuli ekki fá uppbót, og ennfremur er ríkisstj. veitt heimild til að fella niður allar uppbætur, ef fjárhagsástæður ríkisins reynast svo, að það verði nauðsynlegt. Auk þess er nú fyrir hv. þingi frv., sem hefir gengið gegnum þessa hv. d. og er komið nokkuð áleiðis í hv. Nd., um að lækka ýms lögboðin gjöld, ef tekjur ríkisins bregðast fyrirsjáanlega árið 1941, og þar með er heimilað í því frv. að lækka þessa verðstuðulsuppbót um 35%. Það liggur því í augum uppi, að ef þetta frv. verður samþ. óbreytt hér og hitt frv. um verðlagsuppbótina til opinberra starfsmanna, sem hv. Nd. hefir gengið frá, verður samþ. þannig í hv. Sþ., þá á sér stað mikið misrétti í því, hve verzlunarmenn og skrifstofumenn einkafyrirtækja eru þá af löggjafarvaldinu teknir fram yfir þjónustumenn ríkisins. Ég sé ekki, að það hæfi að gera slíkan mun á þessum tveim starfsflokkum, því siður sem ríkið hefir sjálft sérstakar skyldur að rækja gagnvart sínum starfsmönnum, en engar gagnvart verzlunarmönnum fremur hverjum öðrum borgurum í landinu. Hv. 1. þm. Reykv. gat þess að vísu, að hann myndi bera fram brtt. í hv. Sþ. við frv. um verðstuðulsuppbót til starfsmanna ríkisins, í þá átt að koma því í sama horf og samþ. var hér í hv. d. Setjum svo, að sú till. yrði samþ. Þá er samt gerður sá munur á opinberum starfsmönnum og verslunarmönnum, að heimild er til að lækka uppbót hinna fyrrnefndu um 35%, en hinir eiga, samkv. frv., að fá fulla uppbót, eins og starfsmenn hins opinbera fá, ef heimildin til lækkunar verður ekki notuð. Meðan svona stendur og áður en séð er, hvernig fer um hitt frv. í hv. Sþ., get ég því ekki greitt atkv. með þessu frv., og ekki nema á því fáist þær breyt., að samræmis sé gætt gagnvart opinberum starfsmönnum. Það má reyndar segja, að opinberir starfsmenn séu ekki að bættari, þó að verzlunarmenn fái ekki uppbót, og að það komi fram nokkurskonar illgirni í því að vilja ekki stuðla að því. að þeir fái uppbótina, þó að opinberum starfsmönnum lánist það ekki. En bæði má telja víst, að flestir verzlunarmenn fái uppbót án lagasetningar, og svo finnst mér það svo mikið ósamræmi, ef bæði frv. verða samþ. eins og þau liggja nú fyrir, að það sé ekki hv. þingi samboðið. Því tel ég heppilegt, ef halda á fleiri fundi hér í hv. d., að fresta þessari umr. eða hafa a. m. k. ekki 3. umr. strax, og sjá heldur, hvernig hitt frv. fer. Ætti þá við 3. umr. að gera þá brtt. við frv. þetta, að hafa þar aðeins eina gr., er ákvæði, að verzlunarmenn og skrifstofumenn skyldu hafa verðstuðulsuppbót ettir sömu reglum og starfsmenn ríkisins, sem væri einfaldast. Væri þá komið samræmi um afgreiðslu þessara tveggja mála, og með því eina móti tel ég frambærilegt að ganga frá þessu máli.