23.04.1940
Efri deild: 49. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2286)

105. mál, verðlagsuppbót á laun starfsmanna í verzlunum og skrifstofum o. fl.

*Páll Hermannsson:

Ég er ekki sammála hv. 1. þm. Reykv. um það, að það sé komið í ljós, að meiri hl. d. sé ákveðinn í því að samþ. þetta frv. óbreytt. Ég á bágt með að trúa því, að þetta frv. verði samþ. óbreytt, og verði farið að breyta frv., þá er það sama og að fella það. Það er alveg rétt, að það er sjaldan gripið til þess að neita um afbrigði, en þó að gripið yrði til þess nú, þá finnst mér standa öðruvísi á um þetta mál en venja er til, þar sem starfshæfni Alþ. er mjög takmörkuð.

Það er sjálfsagt mikill meiningarmunur um þetta frv., en mér hefði fundizt fara vel á því, að meiri hl. d. slakaði til og féllist á það, að frv. yrði ekki gert að l. að þessu sinni. Þetta eru umr. um þingsköp, og fer ég því ekki lengra út í umr. um málið.