18.04.1940
Neðri deild: 43. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (2295)

118. mál, skattgreiðslur útgerðarfyrirtækja

*Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Hv. 3. þm. Reykv. hefir snemma á þessu þingi lagt fram frv. um þetta efni, að feila úr gildi l. um skattgreiðslu útgerðarfyrirtækja frá árinu 1940. Þessu frv. var vísað til fjhn., og hefir hún haft það til meðferðar. En nm. voru á eitt sáttir um, að ekki væri tími til þess kominn að afnema með öllu skattfrelsi og útsvarsfrelsi útgerðarfyrirtækja eins og sakir standa.

Hinsvegar hefir meiri hl. n., sem flytur þetta frv., talið rétt, að heimildina til bæjarfélaga, sem felst í 2. gr. þessara l., um að undanþiggja útgerðarfyrirtæki útsvarsgreiðslu, sé eins og nú er komið ekki rétt að láta standa lengur. Þess vegna er þetta frv. flutt af meiri hl. fjhn., sem leggur til, að heimildin í 2. gr. laga þessara verði felld niður. Eins og nú er ástatt hér hjá okkur, virðist ekki ástæða til að undanþiggja útgerðarfyrirtæki með öllu útsvarsgreiðslu til bæjarfélaga, þar sem vitað er, að mörg þeirra reka útgerð sína með meiri hagnaði heldur en venja hefir verið til og á þann veg, að miklu færri menn fá atvinnu við það heldur en áður hefir verið, þar sem um ísfisksveiðarnar svo að segja einar hefir verið að ræða og sama sem ekkert kemur af fiski á land til verkunar, sem verður til þess, að ekki nema lítill hluti fólks þess, sem áður hefir haft atvinnu af fiskveiðum, hefir atvinnu við þær nú. Hinsvegar hefir þetta útgerðarfyrirkomulag verið mjög ábatasamt hjá mörgum útgerðarfyrirtækjum. Það væri því mjög vanhugsað, að því er við álitum, ef undanþiggja ætti þessi útgerðarfyrirtæki algerlega því að greiða útsvar, en velta þeirri útsvarsgreiðslu yfir á þann fjölda manna, sem kannske litla eða nær enga atvinnu hefir. Við álitum fullkomlega tímabært að afnema þessa heimild, og er það engu síður á valdi sveitar- og bæjarstjórna að hlífa þeim útgerðarfélögum í útsvarsálagningu, sem illa standa fjárhagslega. En þau útgerðarfélög, sem græða mikið og hafa litlar skuldir, nær ekki nokkurri átt að gera útsvarsfrí á þeim tímum, sem nú eru.