18.04.1940
Neðri deild: 43. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (2296)

118. mál, skattgreiðslur útgerðarfyrirtækja

*Einar Olgeirsson:

Það er mjög ánægjulegt, að þetta frv. skuli vera komið fram og að augu manna hafa opnazt fyrir því, að útgerðarfyrirtækin í landinu eigi ekki að vera skilyrðislaust skatt- og útsvarsfrjáls. Það hefir verið töluvert alið á því, að á sama tíma sem tollar eru þyngdir á alþýðu manna, þá nái ekki nokkurri átt, að togaraútgerðarmenn og félög séu alveg útsvarsfrjáls og skattfrjáls. Það er þess vegna mjög ánægjulegt, að meiri hl. fjhn. skuli hafa fundið sig knúðan til þess að gera ráðstafanir til að afnema a. m. k. þetta ástand að nokkru leyti.

Með því að bæjarfélögum yrði með þessum l. gefinn réttur til þess að leggja útsvör á þessi útgerðarfyrirtæki, þá virðist mér liggja í augum uppi, að það sé ætlazt til þess, að bæjarfélög leggi þessi útsvör á eftir því, sem þörf krefur á hverjum stað. Nú er það vitanlegt, að þörfin fyrir bæjarfélög til að leggja þessi útsvör á er ákaflega mikil. Og þó að hv. frsm. fjhn. segði, að bæjarfélög gætu hlíft þessum fyrirtækjum, þá ætti það ekki að síður að vera í valdi bæjarfélaganna að leggja svo þung útsvör á þessi fyrirtæki sem þau geta borið, eftir því sem nauðsyn krefur, á hverjum stað. Þó að ekki hafi verið afnumið skattfrelsið líka, þá er vafalaust hægt með útsvarsálagningu að komast nokkuð langt í þá átt að svipta stórgróðamennina þeim stríðsgróða, sem þeir nú hafa, og láta hann lenda á réttum stöðum.

Ég mun standa með þessu frv. eins og það er.