18.04.1940
Neðri deild: 43. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í C-deild Alþingistíðinda. (2297)

118. mál, skattgreiðslur útgerðarfyrirtækja

*Jón Pálmason:

Fjhn. hefir ekki orðið sammála um að bera þetta frv. fram, eins og grg. frv. ber með sér, heldur er frv. borið fram af meiri hl. n. Ég og hv. 3. landsk. erum mótfallnir því að breyta þeim l., sem frv. fjallar um, og skal ég skýra það með nokkrum orðum.

Í fyrsta lagi er það að segja, að hér er aðeins um heimildarl. að ræða fyrir bæjarstjórnir um að undanþiggja þau fyrirtæki, sem reka togaraútgerð, útsvarsgreiðslu. Þess vegna hafa bæjarfélög í hverjum kaupstað það á valdi sínu, hvaða útsvör þau leggja á þessi fyrirtæki, eða hvort þau gera það eða ekki. Það hefir nú komið í ljós í grg. fyrir öðru frv., sem var hér næst á undan, að það mun nú reka að því í Hafnarfjarðarkaupstað, að þar verði lögð útsvör á togaraútgerðarfyrirtæki, sem þar eru. Og það hefir bæjarstjórn á valdi sínu, án þess að þetta frv., sem hér liggur fyrir, verði samþ. Í öðru lagi er þess að geta, að ástandið, sem skapazt hefir á undanförum árum fyrir togaraútgerðarfélögin, er ekki breytt nema að nokkru leyti. Því að það er kunnugt mál, að það fjárhagsástand, sem þessi fyrirtæki hafa komizt í á undanförnum árum, vegna of mikilla gjalda og af ýmsum öðrum orsökum, það hefir orðið slíkt, að þau hafa ekki getað staðið undir þeim skuldum, sem á þau hafa hlaðizt, og af þeim sökum heldur alls ekki getað innt af hendi þá sjálfsögðu skyldu, sem fylgir hverjum atvinnurekstri, og ekki sízt slíkum sem þessum, að endurnýja þau tæki og áhöld, sem atvinnureksturinn byggist á. Það er ekki lengra síðan heldur en einn dagur, að formaður, sem starfar hér í togaranefnd, lýsti því yfir, að meðalaldur á þeim togurum, sem hér eru til í. landinu, væri 20 ár, og lýsti því, hve mikil nauðsyn væri á því að endurnýja þennan skipastól. Það er vitanlega nauðsyn, ekki endilega fyrst og fremst vegna þessara fyrirtækja sjálfra, heldur kannske fyrst og fremst vegna alls almennings, sem nýtur þessara fyrirtækja og hefir gagn af því, að þessi rekstur beri sig. Það er því fullkomlega nauðsynlegt, að þeim sé ekki með skatt- og útsvarsálagningu, hvort sem er til bæja eða ríkis, gert erfiðara fyrir en það, að þau séu vel fær um að inna af hendi þá nauðsyn, að endurnýja flotann svo fljótt sem nokkur kostur er. Af þessum sökum viljum við í minni hl. fjhn. láta þessi l., sem hér er lagt til að breyta, standa óbreytt fyrst um sinn og sjáum ekki, að þörf sé á að breyta þeim, þó að einstakar bæjarstjórnir teldu sér nauðsyn að leggja útsvar á þessi fyrirtæki að einhverju eða öllu leyti í sama hlutfalli eins og á aðra gjaldendur.

Skal ég ekki að sinni fara mikið fleiri orðum um þetta, en vil þó taka það fram, að ef það væri réttlátt að samþ. þetta frv., þá væri það í sjálfu sér alveg eins réttlátt að taka sporið alveg út og samþ. frv. Þannig, að skattgreiðsla til ríkissjóðs væri heimiluð líka. En ég vil, að hvorttveggja þetta haldist óbreytt eins og l. eru og láta við það sitja þetta árið.