18.04.1940
Neðri deild: 43. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (2298)

118. mál, skattgreiðslur útgerðarfyrirtækja

*Héðinn Valdimarsson:

Ég hefði fyrir mitt leyti að sjálfsögðu kosið, að það frv., sem ég flutti um þetta etni, hefði verið samþ., þar sem það miðaði að því að afnema skatt- og útsvarsfrelsi þessara fyrirtækja bæði til bæjarsjóða og ríkissjóðs. En þrátt fyrir það fylgi ég að sjálfsögðu þeim breyt., sem meiri hl. fjhn. hefir flutt um það, að þetta nái til útsvarsgreiðslu. Ég geri ráð fyrir, að meira náist ekki í gegn í þessu efni nú á þessu þingi, þar sem enginn. sem í n. er, hefir viljað ganga alla leið í þessu efni.

Ég skal geta þess í þessu sambandi, að frá upphafi hafa mér fundizt l., sem um þetta voru sett, vera óréttlát, þar sem togaraeigendur hafa fengið jafna vernd, hvernig sem hagur þeirra hefir verið. Eins koma þeir nú til með að njóta jafnra hlunninda, sem hafa keypt skip sín á síðustu tímum og tiltölulega ódýrt, jafnt og hinir, sem hafa keypt þau á dýrari tíma, a. m. k. hvað snertir ákvæðið um varasjóð.

En þar sem ekki mun verða hægt að fá gengið lengra í þessum efnum, mun ég greiða atkv. með frv., sem hv. meiri hl. fjhn. hefir hér flutt.