18.04.1940
Neðri deild: 43. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í C-deild Alþingistíðinda. (2300)

118. mál, skattgreiðslur útgerðarfyrirtækja

*Jón Pálmason:

Sú skýring, sem hv. frsm. meiri hl. n. kom með, að bæjarstjórnir í kaupstöðum hefðu það ekki á valdi sínu að leggja útsvör á eða leggja ekki útsvör á þessi útgerðarfélög, er að mínu viti alls ekki rétt. Því að samkv. 1. er þetta á valdi bæjarstjórna. Það, sem hv. frsm. hélt fram og vildi rökstyðja sitt mál með, að það að taka útsvör af þessum fyrirtækjum á einum stað, ef það væri ekki gert á öðrum, mundi kosta það, að togararnir mundu flytja sig á milli staða, það hygg ég, að komi alls ekki til greina, a. m. k. ekki á fyrsta ári. Það er náttúrlega ekki óhugsandi, ef það ástand héldist lengi, að lagt væri t. d. útsvar á þau fyrirtæki í Hafnarfirði, en ekki í Reykjavík, eða í Reykjavík, en ekki í Hafnarfirði, þá gætu þau flutt á milli. En að það yrði á fyrsta ári, kæmi varla til.

Að breyt. á afkomu þessara útgerðarfyrirtækja sé orðin svo mikil, að fullt réttlæti sé í því að leggja á þau útsvar nú, er að nokkru leyti rétt og að nokkru leyti ekki rétt. Ég vildi óska þess, að breyt. yrði svo mikil, að full ástæða væri fyrir næsta þing að afnema bæði útsvarsfrelsið og skattfrelsið líka. Því að það væri öllum fyrir beztu, að rekstur þessara fyrirtækja gengi sem bezt. En horfurnar eru því miður ekki svo vænlegar eins og við mundum flestir óska að þær væru, og má í því sambandi ekki sízt nefna, hvernig nú er komið með saltfisksveiðarnar.

Viðvíkjandi því að fella þessa 2. gr. l. niður, eins og þetta frv. fer fram á, að gert verði nú þegar, þá er það að því leyti verra heldur en frv. hv. 3. þm. Reykv. (HV), því að það fór ekki fram á annað en að þessi l. yrðu felld úr gildi eftir næstu áramót. Og það, sem hér er um að ræða og getur orðið til ágreinings milli hv. 3. þm. Reykv. og flm, þessa frv., er ekki stærra heldur en það, hvort þessa heimild eigi að afnema fyrir yfirstandandi ár. Ég hygg, að ekki sé búið að jafna niður útsvörum nú, og skilst mér því, að það sé eingöngu um það að ræða sem mismun á þessum frv., hvort eigi að leggja útsvör á þessi togarafyrirtæki nú þegar. En ef það er ekki, að þetta frv. miði til þess að leggja útsvör á þessi fyrirtæki nú á þessu ári. þá er náttúrlega þess að gæta, að áður en lögð verða á útsvör á næsta ári, verður háð hér Alþ. að nýju, sem hefir það á valdi sínu að gera breyt. á þessum l. Með allt þetta fyrir augum tel ég, að það sé ekki nauðsynlegt að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir, og legg því til fyrir hönd minni hl. fjhn., að því verði vísað til ríkisstj.