19.04.1940
Neðri deild: 45. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (2307)

118. mál, skattgreiðslur útgerðarfyrirtækja

*Emil Jónsson:

Ég skal viðurkenna, að það er rétt hjá hæstv. ráðh., að um þetta var talað, enda bera l. þess vitni, að þar er talað um 5 ára tímabil. En við höfum á hinum síðustu og verstu dögum séð framan í svipuð tilfelli, þar sem nauðsyn hefir orðið að brjóta l. og í einstökum tilfellum orðið að ganga á gert samkomulag. Það er ekki skemmtilegt að þurfa að gera þetta, en nauðsyn krefst þess. Það er ekki hægt að komast hjá því að gera einhverjar ráðstafanir til þess að því fólki, sem á undanförnum árum hefir haft atvinnu af þessum framleiðslutækjum, sé að einhverju leyti bættur sá skaði, sem það verður fyrir, þegar þau fara inn á annað svið.

Ég fyrir mitt leyti hefði viljað, að samkomulagið væri haldið og gerðar ráðstafanir á annan hátt, sem kæmu að svipuðu gagni eða jafnvel meira gagni. Þetta hefir verið reynt af ríkisstj. og ýmsum öðrum aðilum, sem um þetta hafa fjallað. Á tímabili var útlit fyrir, að þetta myndi takast, en það ern ekki líkur til, að það verði gert á viðunandi hátt úr því sem nú er komið. Ég á hér við saltfisksveiðar togaranna, sem sumir útgerðarmenn höfðu góð orð um að reyna. Nokkrir reyndu þetta í fáa daga, en togararnir sneru þá heim og útgerðarmenn töldu aflann ekki nægilegan til að standast kostnaðinn. Siðan hefir hann þó aukizt upp í það aflamagn, sem þeir töldu nauðsynlegt til þess að veiðarnar gætu borið sig.

Mér þykir miklu leiðinlegra, að það skuli þurfa að fara þessa leið, en úr því sem komið er, þá er ekkert annað að gera.