19.04.1940
Neðri deild: 45. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (2308)

118. mál, skattgreiðslur útgerðarfyrirtækja

*Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Ég vil ekki láta þetta mál fara framhjá án þess að láta í ljós mína skoðun á því.

Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi veitt því athygli, að í frv. eins og það er nú felst ekkert annað en það, að banna bæjarfélögunum að fella niður útsvar á útgerðarfyrirtækjum. Eins og nú standa sakir, þá er það aðeins heimild. sem fyrir liggur. Þessa heimild á nú að fella niður. Alþ. ætlar að fara að taka fram fyrir hendur bæjarfélaganna. Maður skyldi þó ætla, að bæjarfélögin gætu borið vit fyrir sér í þessum efnum. Þau ættu að vita, hvort fært sé að láta útsvarsálagninguna falla niður eða ekki. Ég býst við, að þau viti betur um það, hvort hollara er að leyfa þessum fyrirtækjum, eins og tilgangurinn var með l., að rétta sig þannig við fjárhagslega, að þau geti í framtíðinni orðið verulegur gjaldstofn fyrir bæjarfélögin.

Mér skilst því, að þetta frv. sé vanhugsað og til einskis annars en binda hendur þess aðila. sem mest á á hættu og bezta aðstöðu hefir til að vita, hvort á að láta útsvarsskylduna falla niður eða ekki.