19.04.1940
Neðri deild: 45. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (2309)

118. mál, skattgreiðslur útgerðarfyrirtækja

*Steingrímur Steinþórsson:

Ég held. að það sé mjög vanhugsað, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði. Ég hygg, að um ekkert bann sé að ræða, þó þetta frv. verði samþ. Það er ekki um annað að ræða en það, að útgerðarfyrirtækin eru gerð hliðstæð við aðra skattgreiðendur í þessu landi. Ég held þess vegna, að það megi snúa þessu við og segja, að það sé vanhugsað, sem hv, 6. þm. Reykv. sagði áðan.

Það er vitað, að heimild sú, sem gefin var með l. þeim, sem hér um ræðir, hefir verið notuð þannig, að útgerðarfyrirtæki hafa verið undanþegin útsvari án tillits til þess, hvort þau væru fær um að greiða það eða ekki, þar sem þeir, sem leggja útsvörin á, hafa ekki séð sér með neinu móti fært að gera upp á milli þessara fyrirtækja.

Ég verð að segja, að mér þykir það undarlegt, ef á þennan veg á að fara að undanþiggja vissa aðila frá að greiða lögboðin gjöld.

Það er ekki um annað að ræða hér en að afnema þessa heimild. Það er vitanlega á valdi þeirra, sem leggja útsvörin á, að ívilna einstökum útgerðarfyrirtækjum viðvíkjandi útsvari, ef þeim þykir ástæða til. Það er aðeins lagt til að afnema undanþáguna í þessu tilfelli.

Mér virðist, að hér sé verið að ganga inn á svo hála braut, ef á að fara að undanskilja sérstaka skattgreiðendur frá að greiða útsvör til bæjarsjóða, að það sé ekki hægt nema í ýtrustu nauðsyn. Það er vitað, að síðan þessi undanþága var veitt hefir mjög breytzt um afkomu félaganna, þannig, að reksturinn hefir gengið betur. Ég sé því ekki annað en það sé sjálfsagt að afnema þessa heimild, úr því svo er komið.

Það er af þessari ástæðu, sem ég hefi hér nefnt, sem þetta frv. er borið fram.