19.04.1940
Neðri deild: 45. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í C-deild Alþingistíðinda. (2311)

118. mál, skattgreiðslur útgerðarfyrirtækja

*Sigurður Kristjánsson:

Það, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði hér áðan, sýnir, að hann botnar ekkert í þessu máli. Það er í fyrsta lagi vitanlegt, að það hefir ekkert fram komið, sem sýni, að útgerðarfyrirtæki hér á landi muni ganga frá með nokkurn gróða á þessu ári. En það er ekki eðlilegt, að þessi hv. þm. sé mikið inni í þeim málum. Hann hefir sennilega aldrei fengizt við þau. En þeir, sem fengizt hafa við slíkt, vita. að það þarf að liða lengra á árið til þess að menn viti nokkuð um afkomu útgerðarfyrirtækjanna yfir árið. Það eitt er víst, að það hefir til þessa dags mjög lítil breyt. orðið á því ástandi, sem var viðvíkjandi útgerðinni, þegar þessi skattaívilnun var heimiluð, og það er jafnvíst, að þegar þessi l. voru sett, sem nú á að fara að breyta, þá lá fyrir rannsókn og sönnur á því, að útgerð togara var algerlega öreiga og flest fyrirtækin meir en það. Síðan hefir orðið sáralitil breyt. á þessu, og það frv., sem hér liggur fyrir, byggist eingöngu á voninni um það, að þetta muni breytast til batnaðar í framtíðinni.

Þetta er því alveg út í bláinn, þar sem aðeins er nú í l. um heimild að ræða til að undanskilja útgerðarfyrirtæki frá því að greiða útsvör. Það eru engin bein fyrirmæli um það, heldur er það á valdi sveitarfélaganna eða bæjarfélaganna, hvort þau nota heimildina eða ekki. Það er því ekkert annað en bann, ef heimildin er felld úr l.

Það standa þannig sakir með niðurjöfnun útsvara, að niðurjöfnunarnefndirnar ráða því, hvað lagt er á. Í bæjarfélögunum er engin trygging fyrir því, að meiri hluti niðurjöfnunarnefndar sé í samræmi við meiri hluta bæjarstjórnar. Svo er ekki í Rvík. (Viðskmrh.: Það er víst í Rvík). Það hefir ekki alltaf verið í Rvík. Það er því engin trygging fyrir því, að meiri hluti niðurjöfnunarnefndar sé í samræmi við vilja meiri hluta bæjarstjórnar. Þetta er því tekið úr höndum bæjarfélaganna og lagt í vald nefndar, sem bæjarfélögin hafa ekki aðstöðu til að ráða meiri hluta í, þar sem formaðurinn er skipaður af ríkisstj.

Ég ætla ekki að fara út í þrætur um það, hvort útgerðarfyrirtækin séu fær um að greiða útsvör eða ekki. Það er vitað, að þau eru ekki fær um að bera mikil opinber gjöld eins og nú standa sakir. Það er framtíðarinnar að skera úr um það, hvort svo muni verða. Það liggja engar skýrslur fyrir um slíkt, miklu fremur er vitað um hið gagnstæða, þar sem alltaf eru að lokast markaðir fyrir útflutningsvörur þær, sem útgerðin framleiðir.

Það er víst, eins og ég tók fram í fyrri ræðu mínni, að bæjarfélögin hafa miklu betri aðstöðu til þess en Alþ. að sjá, hvort heppilegt muni vera eða ekki að leggja útsvör á útgerðarfyrirtæki. Ég vil hafa það fyrir satt, að þessi umhyggja fyrir bæjarfélögunum á Alþ. sé algerlega fölsk. Ég hefi það fyrir satt, að það, sem nú kemur fram gagvart útgerðarfyrirtækjunum, sé af sama toga spunnið og framkoma margra þm. og heilla pólitískra flokka hefir verið á undanförnum árum, en hún hefir verið mjög köld og skilningslítil.