19.04.1940
Neðri deild: 45. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (2312)

118. mál, skattgreiðslur útgerðarfyrirtækja

Bergur Jónsson:

Ég vil benda á, að í þeim umræðum, sem orðið hafa um þetta mál, hefir í raun og veru verið gengið framhjá því atriði, sem aðallega er verið að breyta. Hér er ekki fyrst og fremst um það að ræða að fella niður heimild, sem bæjar- og sveitarfélögin hafa til þess að leggja ekki útsvör á útgerðarfyrirtæki. Annað atriði í gr., sem hér er lagt til, að falli niður. er um það, að ef heimildin er ekki notuð og útsvar er lagt á útgerðarfyrirtæki, þá má það ekki vera hærra en útsvar það, sem fyrirtækið bar 1938.

Þetta er aðalefnið, sem breyta á með frv. Það er einkennilegt, að þeir, sem mælt hafa með eða móti þessu frv., skuli ekki hafa reynt að gera hv. þd. þetta ljóst. Hitt atriðið, sem deilt er um, skattur þessara fyrirtækja, kemur ekki til greina. 1. gr. l. frá 1940 stendur áfram, um skattfrelsi til ríkissjóðs, en hvort fella eigi niður fyrri hl. 2. gr. úr l., sem er um heimild bæjarstjórna til að undanþiggja útgerðarfyrirtæki frá að greiða útsvör, er í sjálfu sér ekki eins mikil efnishreyt. eins og það, hvort fella eigi niður siðari hl. Vitanlega geta bæjar- og sveitarfélög, sem hlut eiga að máli, lagt útsvör á útgerðarfyrirtæki þrátt fyrir þessi ákvæði l.

Þetta vil ég benda á til að skýra fyrir mönnum málið.

Annars vil ég taka fram í sambandi við þetta mál, að á þeim 2 stöðum á landinu, þar sem ég þekki til og togaraútgerðin hefir meiri þýðingu en fyrir Reykjavík, í Hafnarfirði og á Patreksfirði, þá er það í sjálfu sér óhjákvæmilegt réttlætismál nú eins og sakir standa gagnvart öllum almenningi, að útgerðarfyrirtækjum, sem ganga sæmilega fjárhagslega, sé ekki hlíft við að greiða útsvör, heldur sé þeim dembt á meira eða minna atvinnulausan almenning. Ég trúi því ekki heldur, að þeir útgerðarmenn, sem miklar tekjur öðlast nú umfram aðra skattþegna í landinu, kæri sig um að hafa áfram þessa sérréttinda undanþágu í þjóðfélaginu. Ég býst við, að útgerðarmenn í Hafnarfirði mundu ekki, úr því þeir gátu ekki fullnægt atvinnuþörf bæjarins með því að fara á saltfisksveiðar, eins og þeir höfðu lofað, kvarta undan því, þótt lagt væri á þá útsvar í samræmi við það, sem aðrir borgarar bera. Ég vil benda á það, að við höfum samþ. hér í deildinni heimild handa Hafnarfjarðarkaupstað til að halda áfram að taka skatt af ferðum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, og var það beinlínis gert með það fyrir augum, að bærinn mætti ekki missa af þessum tekjum, þótt hann gæti lagt útsvar á útgerðarfyrirtækin. Það er þannig á báðum þeim stöðum, þar sem ég þekki til, Hafnarfirði og Patreksfirði, að ekki er um verulegar beinar tekjur að ræða hjá neinum nema útgerðarmönnum. Á Patreksfirði er það svo, að þar er öll atvinna þorpsins í höndum útgerðarmannanna, sem hafa barizt á móti því, að þorpið og sýslan kæmi á fát almennum rekstri, hraðfrystihúsi á staðnum. Þegar aðstaðan er slík, er ekki rétt að fara að undanþiggja skatti þessa einu menn á staðnum, sem hafa nokkrar tekjur og nokkurt fé. Þess vegna er alveg sjálfsagt að samþ. þetta frv., og sérstaklega vegna þess, að ef felldur er niður 2. liður 2. gr. laganna, eins og frv. ætlast til, er hægt að leggja á þessi fyrirtæki útsvör eftir sömu reglum og önnur fyrirtæki.