19.04.1940
Neðri deild: 45. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (2320)

118. mál, skattgreiðslur útgerðarfyrirtækja

*Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Mig undrar það náttúrlega ekki, þó það komi taugatitringur í svokallaða áttmenninga frá því í fyrra, þegar taluð er um gengisbreytinguna og stórútgerðina. Ég skil það vel, að þeir komast venjulega í mótsögn við sjálfa sig og berja sér á brjóst eins og Farísear. Þeir hafa ætið reynt að eyðileggja allt. sem átti að vera til gagns. Ég skil það, að aldrei kemur fram hjá þeim eins mikill hugaræsingur eins og þegar minnzt er á þetta, því það eru þessir menn, sem í mörg ár eru búnir að gefa sig út sem bjargarar útgerðarinnar, en hafa stimplað okkur sem hina verstu fjendur útgerðar og útgerðarmanna. Það er eðlilegt, að það komi fát á þá, þegar þeir sjá, að það er augljóst orðið, hvernig þeir hafa staðið í ístaðinu. Það er sannleikur, að það reynir mest á manninn, þegar í raunir rekur. Og hvernig reyndust áttmenningarnir þá? Ég skil vel, að hv. 6. þm. Reykv. sé dálítið skjálfhentur, þegar hann er að skrifa niður það, sem hann ætlar að segja hv. Alþingi á eftir, eins og ég sé, að þm. er. Hv. 4. þm. Reykv. leyfir sér svo að segja, að það sé rangt., að gengisfallið hafi verið fyrir stórútgerðina, en svo örlitlu á eftir, eins og liðlegum íþróttamanni í sjálfstæðispólitík sæmir, segir hann, að þetta hafi verið fyrir framleiðendur. Þeir eru þá víst ekki framleiðendur, stórútgerðarmennirnir! Þetta er að snúa sverðinu sitt á hvað og sýnir venjulega röksemdafærslu hjá þessum flokki. Það er eðlilegt, að þegar þeir sjá sig berskjaldaða fyrir, þá komi þeirra sanna innræti í ljós. Það er ekkert við það að athuga. (Forseti: Þetta átti að vera örstutt aths.). Ég er alveg að enda, herra forseti. — Þá segir hv. 4. þm. Reykv., að kaupfélögin séu skattfrjáls. Þá fer nú að verða erfitt um vik í þjóðfélaginu, ef neytendur mega ekki hafa samtök sín á milli um að láta ekki kaupmenn leggja á sína vöru og hafa hagnað af því. Það er auðvitað tap fyrir kaupmanninn. En ég veit ekki betur en að kaupfélögin borgi skatt af öllum þeim tekjum, sem þau hafa af viðskiptum við utanfélagsmenn, eins og kaupmenn. Annars ætla ég ekki að fara inn á þessi verzlunarmál hér, en það sýnir, hvar skórinn kreppir að fyrir þessum kaupmannasinnum hér í deildinni, að það er eins og þeir tapi sér, ef minnzt er á ráðstafanir vegna stórútgerðarinnar og þann þátt, sem þeir hafa átt í þeim málum.