19.04.1940
Neðri deild: 45. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í C-deild Alþingistíðinda. (2322)

118. mál, skattgreiðslur útgerðarfyrirtækja

*Sigurður Kristjánsson:

Fyrir margendurtekin ummæli um, að ég hafi vitnað til útgerðarmanna í því, sem ég hefi sagt um gengismálið, og margskonar glósur í því sambandi, vil ég segja þessum hv. þm. það, af því hann hefir ekki látizt heyra mína till. bæði til lækkunar genginu og um þau skilyrði, sem ég taldi, að yrði að setja um leið og gengisbreytingin yrði gerð, ef hún ætti að koma útgerðinni að gagni, að þetta hefi ég margsagt hér á Alþingi áður. sjálfsagt fyrir mörgum opnum eyrum, en líka fyrir mörgum lokuðum. Þetta var alveg sama sjónarmið. sem útgerðarmenn höfðu sjálfir, en það varð ekkert samkomulag um aðgerðir til þess, að gengisbreytingin kæmi að gagni. Ég er alveg sömu skoðunar og hv. t. þm. Reykv., að það þýði ekkert að halda uppi vitlausu gengi, og gengið var fallið fyrir óheppilega stjórn á högum landsins. En það skilyrði, sem ég vildi, að sett yrði fyrir gengisbreyt., var það fyrst og fremst, að þrátt fyrir hana héldist sama hlutfallið í krónutölu milli þeirra afurða, sem útgerðarmenn seldu, og þess sem þeir þyrftu að kaupa af innfluttum varningi. Það var það, sem ég gat aldrei komið inn í höfuðið á þessum mönnum, að lífsnauðsynjar þess fólks, sem að útgerðinni vinnur, yrðu útgjöld útgerðarinnar sjálfrar, Það er ranghermi, að ég hafi verið á móti gengisfallinu. Ég var móti því, þegar það átti ekki að verða útgerðinni að gagni.

Ég ætlaði ekki að halda langa ræðu og er víst þegar búinn að þreyta mjög þolinmæði forseta, en ég vil taka það fram, að þó ég hafi tekið 4 sinnum til máls, þá er samanlagður ræðutími minn ekki lengri en ef ég hefði haldið eina stutta ræðu, en ég ætla ekki að þreyta þolinmæði hans lengur, en vil segja það að lokum. að ef hv. 1. þm. Rang. vill láta hlæja að sér um allt Ísland þvert og endilangt, ætti hann að tala sem allra mest um umhyggju sína fyrir útgerðinni.