11.04.1940
Efri deild: 32. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (2356)

52. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

Bernharð Stefánsson:

Þegar ég kvaddi mér hljóðs við fyrri hl. þessarar umr., hafði ég ætlað mér að gera nokkra grein fyrir því, hvers vegna ég hafði skrifað undir nál. fjhn. á þskj. 364 með fyrirvara. En síðan þetta var, hafa þeir atburðir gerzt, er hafa orðið þess valdandi, að ég mun ekki fjölyrða um þetta mál. Ég skal þó geta þess, að ég var meðnm. mínum alveg sammála um flutning þeirrar brtt., sem er í nál. á þskj. 364. En fyrirvari minn er um málið í heild sinni. Ég er nefnilega sömu skoðunar enn sem ég var á síðasta Alþ., þegar rætt var um þetta mál, að þó að ég unni sjómönnunum þess að fá sem hæsta stríðsáhættuþóknun, þegar þeir sigla á hættusvæðum ófriðarins, þá þykir mér það nokkuð varhugaverð braut, sem hér er gengið inn á, sem sé að ákveða, að háar tekjur skuli verða skattfrjálsar hjá einni stétt. Það var búið að ganga inn á þetta að hálfu leyti í fyrra., og ég taldi, að allir aðilar myndu geta við það unað. Það er náttúrlega alltaf hægt að snúa því svo, að ef ekki er fallizt á allar kröfur einhverrar stéttar, þá sé Alþ. mótsnúið þeirri stétt manna og vilji ekki taka kröfur hennar til greina vegna illvilja. Hvort þetta sé rétt í þessu tilfelli, verður hver að dæma um eins og hann vill, en fyrir mitt leyti vil ég segja það, að ég álít þetta mál allt mjög varhugavert fordæmi. Ég hefi talið það eðlilegra að tryggja eða bæta sjómönnunum meira upp það, sem þeir verða nú að leggja á sig af taugaæsingi og ýmsum óþægindum fram yfir hið venjulega með því að sigla um hættusvæðin á þann hátt að hækka tryggingarnar, sem þeir hafa, svo að þeir gætu þá a. m. k. verið rólegri um ástvini sína, ef eitthvað bæri út af með þá sjálfa. Ég teldi sjálfsagðara að hækka stríðsáhættuþóknunina meira en gert hefir verið heldur en hitt, að gera hana skattfrjálsa. Það, sem hv. frsm. fjhn. minntist á við fyrri hluta 2. umr., að margir sjómenn hefðu skrifað undir áskorun um að breyta þessu og gera áhættuþóknunina skattfrjálsa, efast ég ekki um, að sé satt. En hvaða stétt manna ætli það væri í þessu landi, sem ekki fengist til að skrifa undir áskorun um það að fá kjör sín bætt? Ég býst við, að hver einasta stétt þjóðfélagsins sé þannig, að það yrði hægt að safna undirskriftum meðal hennar um það. Hinsvegar skal ég þó játa, að mér sýnast önnur meiri áhyggjuefni vera nú framundan heldur en þetta, svo ég ætla ekki að fjölyrða meira um það.

Ég vil aðeins segja, að ég kann illa við þetta form á því að bæta sjómönnum upp þessi óþægindi, sem þeir verða fyrir.