11.04.1940
Efri deild: 32. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (2357)

52. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Mönnum er kunnugt frá umr. um þetta mál á siðasta þingi, að ég er mjög mótfallinn þessu frv., og ég er það af mörgum ástæðum.

Ég vil áður en ég fer nokkrum orðum um málið í heild, láta þess getið, að brtt. sú, sem n. flytur, nær ekki því, sem n. mun ætla að láta hana ná. Það situr kannske illa á mér að vera að benda á þetta, en ég geri það nú samt. Það var upplýst undir umr. í vetur, að þessur siglingar reyndu svo á taugar manna, að sumir færu ekki nema 1–2 túra. Afleiðingin af því verður sú, að þeir ná ekki upp í 8 þús. kr. Þá eiga þeir að borga skatt og útsvar af öllu, því það er í brtt. miðað við 8 þús. kr. Í öðru lagi er það, að það er ætlazt til, að þeir láti allir sínar „prósentur“ í lífeyrissjóð, sem ekki var í vetur. N. ætti að reyna að vera sjálfri sér samkvæm í þessu. Ef hún vill ná því, sem hún ætlar sér að ná, þá á að standa „8 þús. kr. eða minna“, og lífeyrissjóðstillagið verður að taka inn líka, ef hún ætlar að láta það koma fram sem frádrátt.

Það, sem fyrst og fremst gerir það að verkum, að ég er á móti þessu frv., er það, að ég tel rangt í öllum þjóðfélögum að búa til mismunandi réttindi fyrir borgarana. Ég tel, að það hafi verið alrangt á sínum tíma að hafa aðalinn með öllum sínum sérréttindum. Hér er verið að búa til vissa stétt, sem á að hafa aðrar skyldur og önnur réttindi en almenningur hefir. Ég er á móti þessari stefnu, hvar sem hún kemur fram, og tel hana þjóðhættulega og skaðlega.

Í öðru lagi er ég á móti því og kann því illa, að þegar búið er að ná samkomulagi um eitthvert mál, eins og yfirlýst hefir verið af atvmrh. um þetta mál, þá sé komið með það til Alþ. og farið að heimta meira og meira. Þegar búið er að semja um einn hlut, þá er búið að semja um hann. Ég hefi orð hæstv. atvmrh. fyrir því, að búið hafi verið að semja um þetta mál. Ég kann illa við, að Alþ. fari að heiðra þá sérstaklega, sem ekki halda sínar samþykktir.

Í þriðja lagi er ég móti því af því, að mér er ekki ljóst, þegar gengið er inn á þá stefnu að tala um áhættu eða lífsbættu, sem fylgi ákveðnum störfum, og veita mönnum verðlaun eftir því, hvar eigi að setja takmörkin. Ef við lítum á þegna þjóðfélagsins, þá er enginn vafi á því. þó við tölum ekki um neinn ófrið, að það er mismunandi hætta fyrir líf manna við hin ýmsu störf, sem þeir stunda í þjóðfélaginu, — en hvar er þá takmarkalínan? Hverjir eiga að fá áhættuþóknunina? Við erum að tala um, að einhver hluti af kaupi manna eigi að vera fyrir sérstaka áhættu. Það er viðurkennt, að prentarar, sem vinna við blý, lifi skemur en aðrir. Eiga þeir að fá áhættuþóknun eða að fá eitthvert skattfrelsi af einhverjum hluta af kaupi sínu? Það er líka almennt viðurkennt, að sumar læknastöður séu svo erfiðar og að það fylgi því miklu meiri áhætta að vera læknir þar en í öðrum héruðum. Á nokkur hluti af launum þeirra að vera undanþeginn sköttum og skyldum? Það mun líka almennt álit, að sjómenn yfirleitt, bæði þeir, sem veiða í Faxaflóa og annarstaðar, séu í meiri lífshættu en ýmsir menn, sem vinna störf í landi. Eiga þeir að fá áhættuþóknun og skattfrelsi í sambandi við hana? Hvar eru takmörkin?

Ef gengið er inn á þessa braut og farið að undanþiggja menn frá gjöldum, þó það eigi hér aðeins að gilda um þá, sem sigla á því svæði. sem kallað er ófriðarsvæði, þá óttast ég, að það fari eins um það eins og þegar við vorum að tala um greiðslur þær, sem bankamenn eiga að greiða í lifeyrissjóð; þá var talað um, að fleiri myndu koma á eftir. Ég óttast, að það fari eins hér.

Ég mun því greiða atkv. á móti þessu frv. af öllum þessum ástæðum. En ef flm. ætla sér að láta brtt. ná þeim tilgangi, sem þeir munu ætla sér að láta hana ná, þá þarf að standa í till. „8 þús. kr. eða minna“, svo eitthvert vit verði í henni frá þeirra sjónarmiði séð. Hitt þykir mér vænt um, ef þeir vilja láta þessa menn halda áfram að borga 1% í lífeyrissjóð.