11.04.1940
Efri deild: 32. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (2358)

52. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Ég er þakklátur n. fyrir að hafa afgr. málið; þó verð ég að játa, að óþarflega mikil töf hefir orðið á þeirri afgreiðslu. Ég man nú ekki, hvaða dag málið var afgr. til n., en ég hygg, að það muni vera komið á annan mánuð síðan, en það veldur því, að líkurnar eru ekki sterkar fyrir því, að málið komist í gegnum þingið, þar sem svo er áliðið þings. Ég skal þó játa, að ef það er samhuga vilji hv. þm.afgr. málið, þá mun geta úr því rætzt. Það er ekkert hægt að segja um það, hvernig undirtektir málið fær í hv. Nd., þó að það nái afgreiðslu hér.

Ég skal taka það fram, að eins og við mátti búast, þá sætti ég mig við þá breyt., sem n. hefir gert á frv., því það er miðinn frá því, sem var í frv. upphaflega, sem ég býst við, að menn geti eftir atvikum sætt sig við, þó ég vilji hinsvegar ekki á nokkurn hátt falla frá þeirri skoðun, að krafan um fullar uppbætur er jafnréttmæt fyrir því. Ég skil afstöðu n. Hún telur, að slík krafa muni ekki eiga svo miklu fylgi að fagna í þinginu, svo hún telur eðlilegra að fara hér miðlunarleið til þess að reyna að þoka einhverju fram, og get ég fyrir mitt leyti fallizt á þá skoðun n. viðvíkjandi þeirri brtt., sem hv. 1. þm. N.-M. minntist á, þá er það rétt, að fallið hefir niður seinni hlutinn af gr. eins og hún er í frv., en það mun þegar vera leiðrétt og komið til hæstv. forseta. Hann benti einnig réttilega á, að það er átt við tekjur allt að 8 þús. kr.

Við hv. 1. þm. Eyf., sem talaði hér áðan, hefi ég litla ástæðu að segja langt mál. Ég verð að segja, að hann hefir komið mjög drengilega fram í þessu máli. Þó hann að sjálfsögðu hafi sínar skoðanir um það, hvernig eigi að snúast við svona máli, þá hefir hann með afstöðu sinni innan n. og í ræðu sinni áðan markað þá afstöðu, sem ég finn ekki ásfæðu til að fara neitt sérstaklega út í.

Ræða hv. 1. þm. N-M. getur mér aftur á móti tilefni til andmæla. Hann segir, og það kom greinilega fram í ræðu hans áðan, að hann sé algerlega á móti málinu. Við því er að sjálfsögðu ekkert að segja. Hann hefir sínar skoðanir um þetta mál, en rök þau, sem hann byggði sínar skoðanir á, tel ég svo langt frá hinu raunverulega, að full ástæða sé til að andmæla því, sem hann sagði.

Hann segir, að með þessu sé verið að skapa nýja stétt í þjóðfélaginu. Ég veit ekki til, að verið sé að búa til neina nýja stétt. Ég veit ekki betur en sjómannastéttin hafi að meira eða minna leyti verið hér til frá landnámstíð. Hún hefir að vísu verið í mismunandi myndum, eftir því hvernig atvinnugreinin hefir verið rekin gegnum aldirnar. Fram eftir öldum fór það saman að vera sjómaður og bóndi, en í seinni tíð, eftir að sjávarútvegur jókst, þá skapaðist hin núverandi sjómannastétt, sem hefir sínar tvær greinar, sem heita farmannastétt og fiskimannastétt. Ég vil skjóta því hér inn, að inn í þessa stétt kemur árlega hópur manna úr þeirri stétt, sem hv. þm. tetur sig fulltrúa fyrir, bændastéttinni. Ég hefi ekki á reiðum höndum neinar tölur í þessu sambandi, en það er stór hópur manna, sem árlega kemur úr þessari stétt til þess að sækja sjóinn. Hv. þm. er því líka að mæla hér gegn mönnum úr sinni eigin stétt.

Ég skil, hvað fyrir hv. þm. vakir. Hann meinar nýja launastétt. (PZ: Ég meina sérréttindastétt). Það er ekki mín ætlan hér að fara að gera upp á milli stétta í þjóðfélaginu. Ég vil þó segja það, að ég hefi á síðari árum heyrt talað um aðra stétt, sem kölluð hefir verið sérréttindastétt, en það er ekki sú stétt, sem stundar sjómennsku. Því hefir oft verið slegið framan í mann á síðari árum, að bændastéttin væri orðin nokkurskonar sérréttindastétt. Ég vil nú ekki taka undir það. Ég álít, að það séu jafnmikil rök fyrir því eins og þegar hv. þm. talar nú um sjómannastéttina sem sérréttindastétt. Því er þó ekki að neita, að Alþ. hefir á ýmsum tímum sýnt það, að það hefir tekið vel í málefni bændanna. Ég þykist ekki hafa verið eftirbátur í því og aldrei komið eins og öfuguggi með illkvittnislegar aðdróttanir, eins og þessi hv. þm. leyfir sér að bera fram í garð þeirrar stéttar, sem ég hefi hér orð fyrir.

Hér er ekki verið að tala um það, að falla frá almennum greiðslum af þeim tekjum, sem menn vinna fyrir. Hér er verið að tala um verðlaun, sem menn fá fyrir að leggja sig í sérstaka lífshættu. Ég skoða þetta a. m. k. nánast sem verðlaun, sem þessir þegnar þjóðfélagsins fá fyrir að leggja sig í lífshættu við svo óumflýjanleg störf sem þau, að draga að og flytja frá þjóðarbúinu. Þetta er á Norðurlöndum svo viðurkennt, að hin Norðurlöndin greiða yfirleitt meira fyrir þetta heldur en greitt er hér hjá okkur. Reynslan hefir líka sýnt, hvað mikið tjón á skipum og mönnum þau hafa beðið. Við höfum að vísu enn ekki orðið fyrir slíku, en hver veit, hvenær sú stund kemur, að við fáum að heyra slík tíðindi. Að segja svo, að það eigi ekki að veita þessum mönnum, sem leggja sig í hættu við það að draga nauðsynjar til og frá þjóðarbúinu, neina sérstaka ívilnun af hálfu löggjafans, svo þeir séu ekki á sama hátt skattlagðir og þeir, sem ekki leggja sig í neina lífshættu umfram hin daglegu störf, nær alls ekki nokkurri átt.

Hv. þm. sagði, að það væri mismunandi hætta fyrir lif manna, sem fylgdi hinum ýmsu störfum. Það er alveg rétt. Við þekkjum allir þá sorgarsögu, að blóðtaka okkar við sjósókn hefir verið talin eins mikil hlutfallslega og aðrar þjóðir hafa misst í styrjöldum. Það er að draga úr þessu á seinni árum vegna meiri þekkingar, betri skipakosts og meiri gætni í sjósókn. Hættan er þó alltaf fyrir hendi, en það er hægt að draga úr henni við almenna sjósókn. En þegar siglt er á hættusvæði, þar sem er kannske dufl við dufl, kafbátur í djúpinu eða flugvélar í loftinu, þá er ekki hægt að forðast hættuna, ef þessi drápstæki verða í vegi sjómannanna, sem um hafið sigla. Hér er hinn stóri stigmunur á milli. Ef við förum á fleytu út á sjóinn, þá gáum við til veðurs og reynum að leita lands, ef veður versnar. En hvar er landtakan fyrir þá menn, sem orðið hafa fyrir árásum flugvéla úti á reginhafi? Við höfum frétt um það, hvernig tekizt hefir fyrir mönnum að komast í björgunarbátana, og þó þeir hafi komizt í bátana, þá hafa þeir í mörgum tilfellum króknað úr kulda við það að hrekjast um hafið. Slik æfi er svo hættuleg, að það á að verðlauna þessa menn fyrir að leggja sig í slíka hættu.

Hv. 1. þm. N.-M. segir, að það eigi ekki að gera það. Hann spyr, hvort menn séu verðlaunaðir fyrir að leggja sig í hættu við venjuleg störf. Ég skal benda honum á, að við höfum þó verið það framsýnir, að sjómenn hafa um nokkurt skeið verið slysatryggðir fram yfir aðra þegna þjóðfélagsins. Það er þó viðurkenning af hálfu þjóðfélagsins um það, að þeirra starf sé hættulegra en annara.

Hv. þm. var að tala um lækna og prentara í þessu sambandi. Það liggja nú ekki fyrir neinar skýrslur um það, hvaða stétt sé skammlífust. Ég býst þó við, að meðalaldur sjómanna sé yfirleitt ekki hærri en lækna og prentara. Það er vitað um lækna, að þeir leggja á sig mikil störf, en þeir eru líka það vel launaðir. að það munu fáar launastéttir geta mælt sig við þá. Um prentara er það að segja, að það er vitað, að innan þeirrar stéttar eru atvinnusjúkdómar, en þeir hafa komið upp innan fleiri stétta, enda eru þeir eitt af því, sem farið er að taka til greina í þeim þjóðfélögum, þar sem menning er mest. En þetta er óháð því, sem við erum að tala um hér.

Hv. þm. vildi svo halda því fram, að sjómannastéttin hefði gert samkomulag um hálft skattfrelsi í vetur og það hafi verið upplýst af hæstv. atvmrh. Þetta er ekki rétt, því þegar ríkisstj. lofaði að mæla með hálfu skattfrelsi, þá fylgdi það með, að það myndi verða leitað til Alþ. um að fá fullt skattfrelsi fyrir áhættuþóknunina. Ég skal til sönnunar benda honum á, að í þeim samningum, sem sum stéttarfélög sjómanna gerðu við atvinnurekendur, þá var hnýtt neðan við samninginn ákvæði eins og þessu, með leyfi hæstv. forseta: Ennfremur í trausti þess, að Alþ. verði við sanngjörnum kröfum um það, að öll áhættuþóknunin verði skattfrjáls eða leysi málið meir en til hálfs.

Það var sem sé tekið á móti því, sem ríkisstj. lofaði, en um leið var ákveðið að áfrýja því til Alþ. Þessi krafa er byggð á því, að sjómenn séu þarna að leggja sig í sérstaka lífshættu og þess vegna séu ekki af þessari upphæð tekin gjöld til almennra þarfa bæjar- og sveitarsjóða eða ríkisjóðs. Af öllum öðrum tekjum greiða þeir auðvitað sín gjöld.

Ég gæti fært mörg rök fyrir því, hvað þessi krafa er eðlileg og sanngjörn. Ég gæti einnig sagt margar sögur, sem sýna það, að þetta er ekki til þess að hafa það í flimtingum og tala um það, að menn heyi taugastríð. Ég hefi talað við marga menn úr þessari stétt, sem siglt hafa að undanförnu. Ég veit, að þessir menn eru engir hugleysingjar, en þó veit ég, að þessir menn eiga í hugarstríði vegna hinnar yfirvofandi hættu, sem er í hverri skipsferð. Það er ekki von, að landkrabbar eins og hv. þm. er skilji þetta eða geti sett sig inn í, hvað það er að vita af hættu svo að segja í hverri skipslengd.

Að síðustu vil ég segja þetta: Er útlitið núna bjartara eða meiri líkur fyrir því, að við getum verið jafnöruggir um okkar skip og hingað til? Ég vil leggja þessa spurningu fyrir hv. þm. Getur það ekki breytt viðhorfi hans til þessa máls?