12.04.1940
Efri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (2369)

52. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

Bernharð Stefánsson:

Ég er farinn að sjá, að ef þetta mál skyldi daga uppi í þinginu, þá er það flm. sök, og engra annara. (SÁÓ: Fyrir hvað?). Fyrir það, að svo mikilli mælgi hafa þeir beitt við þetta mál, að þetta er þriðji fundurinn, sem 2. umr. stendur yfir, og mér sýnast ekki miklar líkur til, að henni muni verða lokið nú. A. m. k. er það áreiðanlegt, að henni mundi ekki verða lokið á þessum fundi og líklega ekki þeim næsta, ef ég færi að fara nákvæmlega út í þá ræðu, sem hv. þm. Vestm. flutti hér um ýmislegt þessu alveg óviðkomandi, sem ég hafði ekki gefið nema a. m. k. mjög lítið tilefni til að hann færi út í. Ég mun ekki hafa rétt til að gera nema stutta aths., og ég ætla ekki heldur að stuðla að því, að þetta mál lognist út af vegna þess, að ekki hafi verið tími til að afgr. það.

Það mun rétt vera hjá hv. þm. Vestm., að við höfum komið á þing sama árið báðir. Þetta mun vera okkar 20. þing, og að því leyti er þægilegt að bera okkur saman, bæði að því er snertir eyðslu okkar á landsfé og annað. Ég ætla þó lítið að fara út í þann samanburð, sem hann var að gera, en skal þó taka fram, að ég þori hvenær sem er og tími er til að bera okkur saman. Ég ætla aðeins að minna hann á það, sem gerðist á okkar fyrsta þingi. Þá var hann stjórnarstuðningsmaður, en ég í stjórnarandstöðu. Þá voru settir nýir skattar, að vísu ekki beinir skattar, heldur nýir tollar, sem höfðu ekki verið áður. Það var fyrir atbeina þeirrar stj., sem hann studdi, og hann samþ. það. Þetta hefir komið fyrir í tíð þeirrar stj., sem ég hefi stutt, og ég veit ekki nema það eigi eftir að koma fyrir í tíð þeirrar stj., sem við styðjum báðir. En þetta er vegna þess, að alltaf fara sívaxandi kröfur almennings um meiri og meiri umbætur, og einnig vegna þess, að í siðuðu þjóðfélagi verða störfin alltaf fjölþættari og fjölþættari, og þannig er það í öllum löndum. Ég staðhæfi það, að þó Sjálfstfl. hefði verið við völd undanfarin ár, þá hefðu skattahækkanirnar orðið jafnmiklar, og sennilega miklu meiri, þó að það hefði ef til vill verið í öðru formi. En ég býst við, að ef hann og hans flokkur hefði verið við völd, en minn flokkur í mínni hluta, þá hefði stjórnarandstaðan verið drengilegri en nú hefir verið undanfarin ár, því að hún hefir aðallega verið í því fólgin að heimta ný og ný útgjöld úr ríkissjóði, en vera á móti öllum sköttum, en aldrei hefi ég getað skilið þá pólitík eða hvernig hægt hefði verið að samræma það.

Mér þótti broslegt, þegar hann kom með einkasölurnar sem einhverjar sérstakar eyðslustofnanir fyrir ríkissjóð. Ég veit ekki annað en að ríkissjóður fái nokkrar milljónir í tekjur af þessum einkasölum. (JJós: Fyrir þjóðina, sagði ég). Mér skildist það vera fyrir ríkissjóð. En þótt það sé miðað við þjóðina, þá fæ ég ekki séð, að það geti heldur staðizt, að þær séu neinar eyðslustofnanir. Það má náttúrlega deila endalaust um, hvort einkasala sé heppilegri eða verzlun í svokallaðri frjálsri samkeppni. (JJós: Fyrir hvað var raftækjaeinkasalan afnumin? PZ: Til þess að þóknast Sjálfstfl.). Ég er enginn sérstakur einkasölumaður, og hún mátti fara fyrir mér, en það er fjarstæða að tala um, að aðaleinkasölurnar séu eyðslustofnanir, og ég hefi enga rödd heyrt um, að afnema skyldi áfengiseinkasöluna. Ég hugsa, að jafnvel hv. þm. Vestm. mundi ekki samþ. að afnema hana og láta kaupmenn um áfengissöluna.

Ég ætla ekki að eyða tíma í að tala um það, sem hv. þm. kallar skattfrelsi samvinnufélaganna, sem, ef rétt er lítið á, er engin hlunnindi í skattgreiðslu fram yfir aðra. Samvinnufélagsskapurinn er allt annars eðlis en kaupmannaverslun.

Svo ætla ég að lokum að staðfesta það, sem hæstv. fjmrh. sagði um, hvernig væri um þessi mál í nágrannalöndum okkar, að í Danmörku mun áhættuþóknunin hafa verið skattfrjáls, en hvorki í Noregi eða Svíþjóð. (SÁÓ: Það hafa verið lögð fram frv. um að undanþiggja hana). Það var talið mjög vafasamt, að þau frv. næðu samþykki.