07.03.1940
Efri deild: 12. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (2417)

6. mál, þjóðfáninn

*Flm. (Jónas Jónsson):

Þetta mál er nú komið fram fyrir nokkru og því fylgir dálítil grg., þannig, að það er ekki þörf fyrir mig að fjölyrða um nauðsyn þess.

Ástæðan til þess, að ég bar þessa till. fram, var sú, að ég hafði veitt því eftirtekt, að hér á landi og í næstu löndum er það nokkuð ólíkt; hvernig nágrannaþjóðir okkar nota sinn fána og hvernig við notum hann. Því að það er nokkur ljóður á því, hvernig við förum með hann undir vissum kringumstæðum. Þetta er kannske að nokkru leyti eðlilegt, af því að við höfum ekki haft okkar eiginn fána nema í 20 ár. Áður höfðum við fána, sem við töldum okkur óviðkomandi og við Íslendingar vorum ekki hrifnir af. Það bætti heldur ekki um í þessu efni, að sá fáni, sem við fengum, var ekki kominn beinlínis sem ávöxtur af þjóðarhrifningu, heldur ávöxtur af málamiðlun, sem þeir, sem mest höfðu barizt fyrir fánamálinu, voru ekki sérstaklega hrifnir af. Þá hlið læt ég svo að öðru leyti órædda nú.

Ég vil minnast á það í fáum orðum, að það er eðlilegt, að þjóðir eins og t. d. Danir og Englendingar, sem hafa haft sama fánann eða lítið breyttan öldum saman, og hann hefir verið borinn fyrir þjóðinni bæði á hættustundum og einnig á frægðarstundum, og ég tala ekki um, þegar hann er af guðlegum uppruna, eins og fáni Dana, beri mikla virðing fyrir fánanum. Og þeir, sem vaxa upp í slíkum hugsunarhætti, líta á fánann sem helgan dóm. Þannig er ekki með okkar fána.

Á ferðalagi mínu um Ameríku veitti ég því eftirtekt, hvernig fáninn þar er notaður. Í Bandaríkjunum hefir verið lögð stund á það. að fáninn sé skoðaður sem helgur dómur, bæði af því að fáninn er ekki tiltölulega gamall, og þar eru líka margar þjóðir, sem þarf að bræða saman.

Ég veitti því eftirtekt í Winnipeg, að menn hafa fánann þar í kirkjunum, og í íslenzku kirkjunum í Winnipeg höfðu þeir stundum tvo fána, sinn hvorum megin við kórinn. Og ég hygg, að allir skólar ríkisins hafi þar fánann dreginn við hún á meðan skóli er — eins og t. d. við höfum hann hér á alþingishúsinu á meðan á fundum stendur —, til þess að venja börnin við þá hugsun, að þau eigi að vinna starf, sem sé þess virði, að þjóðfáni þeirra blakti yfir þeim. Það er óvíða farið eins vel með íslenzka fánann eins og hér á hæstv. Alþ., því að þar eru fastar venjur um, hvernig hann er notaður.

Í Bandaríkjunum er ekki eins oft flaggað í hálfa stöng eins og við gerum hér, heldur aðeins við sérstaka sorgaratburði. Það sagði mér maður í San Fransisco, að til þess að flaggað væri í hálfa stöng þyrfti forseti að falla frá eða einhver annar maður, sem öll þjóðin þekkti. Þessi venja hjá okkur, að flagga við hvers manns dauða og daglega, gerir fánann mjög hversdagslegan. Þó er annað, sem komið hefir fyrir hjá okkur, sem er leiðinlegra, að menn láta fánann hanga á stöng alla nóttina; stundum er fáninn rifinn og oft bættur. Og það þarf ekki að lýsa því hér á Alþingi, hversu mikil fjarstæða það er, ef á að líta á fánann sem helgan dóm.

Ég vil ljúka máli mínu með því að segja frá einu atriði, sem sýnir vel, hversu oft er áfátt um okkar smekk og virðingu fyrir okkar þjóðfána. Það var þannig ástatt á strandferðaskipi ríkisins, þegar núverandi forstjóri tók við útgerðinni, að okkar íslenzki fáni var steyptur í gúmmí, og var í forstofunni, þegar komið var inn á 1. farrými, sem fótaþurrka á almannafæri. Þetta var svona á strandferðaskipi þjóðarinnar. Þó dettur mér ekki í hug að halda, að slíkt hafi verið gert af neinum illvilja, heldur aðeins vöntun á smekk, eins og víða kemur fram hjá okkur í sambandi við okkar þjóðfána, og tilfæri ég þetta dæmi aðeins til þess að sýna, hvað getur komið fyrir hjá okkur í þessu almenna hugsunarleysi.

Ég hefi séð út um gluggann hjá mér nú í nokkrar vikur eitt af þessum hirðuleysisdæmum um fánann. Það er í Þjóðleikhúsinu flugmodelsýning, sem búin er að vera í nokkrar vikur, og það er mjög ánægjulegt að koma þar inn, því að þar eru prýðilega fallegir hlutir, sem drengir hafa gert í frístundum sínum, sem er þeim til mikils sóma. Og þetta starf drengjanna sýnir okkur vel, hvernig við ættum að beina okkar uppeldi að því að reyna að leiða börnin frá þeim stöðum, þar sem þau geta leiðzt út í það versta, og til hinnar þörfustu handavinnu. Þessir drengir hafa notað fánann sem nokkurskonar leiðbeiningarmerki til sín, en hafa haft hann dreginn við hún oft dag og nótt. Þetta hefi ég séð út um gluggann hjá mér, og mér hefir þótt það mjög leiðinlegt, því að ég veit, að þessir drengir eru fyrirmynd annara drengja, en ég sé, að þeir hafa aðeins notað fánann eins og aðrir, mest af hugsunarleysi, af því að þeim hefir ekki verið kennt að líta á fánann sem virðingarmerki þjóðarinnar, hvað þá heldur helgan dóm.

Ég legg til, að hæstv. ríkisstj. afli sér heimilda frá ýmsum löndum um löggjöf og venjur um rétta notkun þjóðfánans. Ég get ekki séð annað en að það hafi verið sett l. um margt ómerkilegra en notkun þjóðfánans. Ég veit, að í sumum löndum liggja sektir við því að hafa fána, sem er rifinn, og ég tala nú ekki um, ef hann er bættur. Fyrir slíkar syndir eiga menn að fá hegningu, þótt ekki sé það lífs eða limalát. Ég þykist þess fullviss, að auðvelt muni að kippa þessu í lag, og ég álit fullkomna nauðsyn til þess að fá um það löggjöf, hvernig nota á fána þjóðarinnar.

Ég álit, að þessi þáltill. þurfi ekki til n.; hefi ég þó ekkert á móti því. En ég álit, að samþ. megi þáltill. strax, og senda hana svo áleiðis til hæstv. ríkisstj.

*) Stjarna (*) framan við nafn ræðumanns táknar, að ræðan sé prentuð eftir handriti innanþingsskrifar, óyfirlesin af ræðumanni.