12.03.1940
Sameinað þing: 5. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (2423)

15. mál, hitun og lýsing háskólans

*Flm. (Jónas Jónason):

Það hefir verið lítið talað um þessa þáltill., eins og von er til ennþá, þó að það sé liðinn nærri mánuður síðan hún kom fram.

Þetta mál er ekki alveg nýtt, vegna þess, að síðan byrjað var á hugmyndinni um háskólabygginguna eins og hún er nú, þá hefir verið þegjandi samkomulag á milli ríkisstj., Alþ. og bæjarstj. Reykjavíkur, af því að það væri svo mikil áhætta að koma þessu húsi á fót með þeim rekstri, sem gert er ráð fyrir, að verði á háskólanum, að ekki veiti af, að allir aðilar hjálpist að í þeim efnum.

Ég vil fyrst taka það fram, að Reykjavík hlynnti að háskólanum með því að leggja fram þá lóð, sem háskólinn er byggður á og er svo stór, að gera má ráð fyrir, að þar megi ekki aðeins bæta við mörgum húsum fyrir háskólann sjálfan á komandi árum, heldur líka öllum þeim kennarabústöðum, sem þar munu reistir, þegar byggingar hefjast aftur. Þetta er vitanlega myndarlega gert af Reykjavík, að hafa þarna lyft undir þetta merkilega mál. En það er alveg fullvíst, að það hlýtur að verða geysilega dýrt að reka slíkar byggingar, sem svo eru stórar, og þá sérstaklega hve hiti og ljós verða dýr. Það er varla hægt að gera sér það ljóst, hve miklu það munar, að hita upp þann háskóla, sem nú er, aðeins fjórar kennslustofur, og hefir verið aðeins til bráðabirgða„ og hinn nýja háskóla, sem byggður er fyrir framtíðina og deildir háskólans eins og þær eru nú fylla ekki út í. Það má kannske segja, að það verði óeðlilega mikill kostnaður við hitun og ljós, þegar háskólinn er fluttur. Til þess að rétt megi telja, að Reykjavíkurbær leggi háskólanum til ókeypis ljós og hita, er ein mikilsverð ástæða, fyrir utan þær, hve miklir hagsmunir það eru fyrir bæinn að hafa háskólann, og þá stækkun, sem hlýtur að verða á bænum, að nú er bærinn búinn að fá Sogsvirkjunina og bráðum hitaveituna, og þessar orkulindir hefði Reykjavík ekki getað fengið, nema ábyrgð allra landsmanna væri fyrir þeim lánum, sem til þeirra virkjana þurfti.

Ég hreyfði því fyrir nokkrum árum við núv. forseta Sþ., sem þá var atvmrh., og dr. Alexander Jóhannesson, þáv. rektor háskólans, að ef Reykjavík fengi leyst hitaveituspursmálið, þá nyti háskólinn þess. Og ég geri ráð fyrir, að þessir menn hafi rætt við ýmsa áhugamenn í Reykjavíkurbæ. Þegar gengið var frá ábyrgðinni vegna hitaveitunnar á síðasta vori, þá varð samkomulag milli mín og annara í bæjarstj. Reykjavíkur um að fara ekki frekar út í það þá, heldur mætti gera ráð fyrir, að þetta yrði samkomulagsatriði milli bæjarstj. og ríkisstj. Það eru margir miklir menn í bæjarstj. Reykjavíkur, sem líta á þetta svipuðum augum og ég. Og mér er kunnugt um, að allmargir hv. þm. úr sama flokki og meiri hluti bæjarstj. Reykjavíkur álíta þetta fullkomið sanngirnismál. Vel getur verið, að styrjöldin taki einhverjum þeim breyt., að ekki takist að koma hitaveitunni á svo fljótt sem æskilegt er; þá verður vitanlega hinn nýi háskóli ekki notaður að vetrinum fyrr en hitaveitan er komin í hann, sem kannske yrði ekki fyrr en eftir stríð, sem maður vonar samt, að komi ekki fyrir.

Ég vil aðeins bæta því við, að Reykjavík sýndi mjög sína höfðingslund með því að leggja til hina stóru lóð undir háskólabygginguna. En það er ekki einstakt í veröldinni, heldur þvert á móti. Það er ákaflega víða annarstaðar, þegar háskólar eru byggðir, að það er miklu meira lagt fram af bæjarfélögum þar sem þeir eru reistir heldur en lóðirnar undir þá. Í Árósum, sem er tvisvar sinnum stærri bær en Reykjavík hafa ekki einungis verið lögð fram lönd, heldur líka geysimiklir peningar. Og Gautaborg, sem á háskóla á stærð við okkar, lagði fram megnið af því fé, sem þurfti til þess að reisa háskólann. Í Ameríku eru svo stór framlögin til háskólanna, að slíkt þolir ekki samanburð hér í Evrópu. Þess vegna getur Reykjavík ekki tekið það nema sem kurteisi að gefa henni þarna tækifæri til þess að veita háskólanum ókeypis ljós og hita.

Þegar þessi þáltill. hefir verið samþ., kemur að því, að semja milli bæjarstj. og ríkisstj., sem ég vænti, að verði byggt á skilningi á því að hafa fengið háskólann reistan hér, sem einnig er mikill metnaðarauki fyrir Reykjavíkurbæ.

Ég sé ekki ástæðu til þess að óska þess, að málið fari til n.; það liggur ljóst fyrir. En ef till. kemur um það frá hv. þm. eða hæstv. forseta þætti ástæða til þess, þá finnst mér það ætti að fara til allshn. Annars óska ég heldur eftir, fimans vegna, að þáltill. verði nú þegar samþ.