12.03.1940
Sameinað þing: 5. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (2424)

15. mál, hitun og lýsing háskólans

*Héðinn Valdimarsson:

Mér finnst nokkuð til mikils mælzt, að ætlast til þess, að Reykjavíkurbær hiti upp háskólann og leggi honum til ókeypis rafmagn, ekki sízt þegar ekki hafa verið leidd fram rök fyrir því, hve mikið af hita og rafmagni verður afgangs hjá bænum, að þá skuli bærinn eiga að láta taka af sér rafmagnið til þess að þessi stóra bygging verði upphituð og upplýst, sem vitanlegt er, að hefir verið reist miklu stærri en þörf var á, og kostnaður því meiri í framlögum og vöxtum en nauðsynlegt er. Það er álíka eins og með Þjóðleikhúsið, sem búið er verja í 1 millj. kr., bæði til skaða og skammar fyrir Reykjavíkurbæ og allt landið, hvernig farið var með féð. Ég hefi ekki á móti því, að þessir hlutir verði athugaðir og rannsakaðir, en ég vil ekki kveða svo á, að Reykjavíkurbær skuli leggja til ókeypis rafmagn og hita, þegar Reykjavík er búin að leggja fram mörg þús. kr. í lóðum.

Ég vil leggja til, að málinu verði vísað til allshn. milli þessarar umr. og framhaldsumr., en ef það fæst ekki, ætla ég að bera fram brtt.