01.04.1940
Sameinað þing: 10. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (2440)

95. mál, lýðræðið og öryggi ríkisins

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Mér þykir rétt að minnast nokkrum orðum á það málefni, sem liggur til grundvallar till. á þskj. 260. Það er öllum þingheimi mjög vel kunnugt, að á síðustu og ég held að e. t. v. mætti segja verstu tímum hefir orðið allverulegt umrót í heiminum. Yfir löndin hafa flætt stefnur, sumpart með hvatvísum forgangsmönnum, og valdið róttækri umturnun. Við Íslendingar höfum frá því að hér var sett ríki á stofn í raun og veru, þótt misjafnlega hafi gengið, kostað kapps um það, að fólkið, sem í landinu byggi, réði lögum og lofum„ og að þjóðskipulagið væri byggt upp eftir þeirri meginreglu, að það væri meiri hl., sem réði á hverjum tíma í þjóðfélaginu. Að vísu höfum við Íslendingar eins og flestar aðrar þjóðir haft tímabil, þegar l. voru lítilsvirt og hnefarétturinn látinn ganga fyrir atkvæðisréttinum. En sérstaklega eftir að við á síðustu öld fengum meira lýðfrelsi heldur en áður var, þá hefir það gengið eins og rauður þráður gegnum stjórnmálabaráttuna og yfirlýsingar flestra þeirra aðalstjórnmálaflokka, sem starfað hafa hér á Íslandi, að það sé meiri hl., sem eigi að ráða á hverjum tíma, þ. e. a. s. sá meiri hl. fulltrúa, sem þjóðin velur sér til þess að leysa úr ágreiningsefnunum og til að setja l. og reglur fyrir þjóðina.

Hinsvegar er það jafnljóst, að nú er viða orðið þannig umhorfs í heiminum, að ekki er lengur gildandi þetta fyrirkomulag á ákvörðun þegnanna um skipulag og málefni þjóðfélagsins. Í staðinn fyrir lýðræðið, sem er fólgið í því, eins og allur þingheimur veit mætavel, að meiri hl. í d. þingsins hefir lögformlega rétt til að ákveða, hverjir stjórna landinu og setja þjóðinni l. og reglur, þá hefir annað þjóðskipulag komið upp, og það hefir þegar sigrað í nokkrum löndum, þar sem almenningur er útilokaður frá að hafa áhrif á opinber málefni, og fólkið er stundum hindrað með hervaldi frá því að ráða lögum og lofum í þessum löndum. Það má segja, að á síðustu tímum hafi komizt á tvennskonar skipun á skipulagi þjóðfélagsmála, annarsvegar lýðræðið og hinsvegar einræðis- og einveldisstefnurnar. Ekki má blanda þessu saman við það mál, hvernig eigi að innrétta þjóðfélagið, því að slíkt getur verið með ýmsum hætti. Þótt fullkomið lýðræði ríki, þá vita þm. mjög vel, að stjórnarskipun landanna er með ýmsum hætti. Menn getur að sjálfsögðu greint mjög á um það, hvernig eigi að stjórna landinu og hvaða fulltrúa eigi að velja til þess að hafa stj. landsins með höndum.

En til þess að lenda ekki í almennum hugleiðingum um þetta meira en orðið er, vil ég bara benda á það, sem öllum þm. er ljóst, að stefnur þær, sem berjast víða um völdin í þjóðfélögunum, eru annarsvegar einræðis- og hinsvegar lýðræðisstefnan. Nú er það einkenni hins fullkomna lýðræðis, að leyfa mönnum að tala og skrifa innan þeirra sæmilegu ramma, sem þjóðfélagið setur á hverjum tíma. Þó er ekki frjálst að ræða og rita með hótunum um ofbeldi eða annað slíkt. Það er líka mjög eðlilegt, að slíkt sé hindrað, og er einkenni lýðræðisþjóðfélagsins sjálfs. Um leið og lýðræðisþjóðfélagið verndar sitt skipulag með því að halda fram kenningum sínum um það, að það sé tryggasta og öruggasta skipulagið innan þjóðfélagsins, þá verður það að gæta þess, að það sé ekki sýnd of mikil linkind og of mikið umburðarlyndi með þeim öflum, sem vaða uppi og hafa það höfuðmarkmið að grafa undan lýðræðisskipulaginu.

Það hefir stundum verið sagt um lýðveldisstj. á Þýzkalandi, sem var sett á stofn árið 1918, að það hafi orðið Weimar-lýðveldinu að falli, að það hafi verið of siðfágað og of umburðarlynt í garð andstæðinganna, og þeir, sem héldu því uppi og áttu að gefa því innihald, hafi verið of vægir. Í æðstu röðum hins nýja þýzka lýðveldis drottnuðu menn, sem hugsuðu fyrst og fremst um það, allt frá stofnun þess, að verða því að falli. Í æðstu dómstólum og æðstu herstjórn þýzka ríkisins sátu þessir menn, sem notuðu vinnubrögð sín og áhrif til þess að grafa undan tilverumöguleikum hins nýja lýðræðisfyrirkomulags í Þýzkalandi, og þetta lýðræði féll. Ég skal ekkert segja um það, hve mikinn þátt þetta umburðarlyndi Weimar-lýðveldisins þýzka við óvægna andstæðinga, sem ekki skirrðust við að nota hvert tækifæri, sem opinberar stöður og aðstæður þjóðfélagsins veittu þeim til að steypa lýðræðinu, hafi átt í því, að það féll. En ég hika ekki við að fullyrða, að slíkt umburðarlyndi hafi átt mikinn þátt í því, að lýðræðið leið þar undir lok.

Við, sem trúum á lýðræðið sem hið ákjósanlegasta skipulagsform, hljótum líka að hugsa um það, að það verða að vera takmörk fyrir því, sem leyfa má af áróðri gegn þessu skipulagi. Við viljum vernda það framar öllu öðru, og þá má undanhald okkar og umburðarlyndi ekki ganga svo langt við höfuðandstæðinga okkar, sem vilja fella þjóðskipulag okkar í rústir, að við gefum þeim beinlínis betri aðstöðu til þess að ná sínum tilgangi. Við viljum vernda lýðræðið, halda því uppi og gera það fullkomnara og betra. Það getur líka orðið svo einmitt nú á síðustu tímum, eftir að ný stórveldastyrjöld hefir brotizt út, að litlu lýðræðisþjóðirnar læri af reynslu sögunnar og þeim verði ljóst, að það dugir ekki eintóm bliða og linkind við andstæðingana, sízt þá andstæðinga, sem eiga bæði volduga krafta og sterka stuðningsmenn að baki sér, e. t. v. í heilum stórveldum. Það dugir ekki tóm línkind og umburðarlyndi við þá menn, sem róa að því öllum árum að steypa lýðræðisskipulaginu. Við munum eftir því allur þingheimur, þegar eitt af mestu stóveldum og eitt af mestu herveldum heimsins réðst um mánaðamótin nóv. og des. síðastl. ár á eina minnstu lýðræðisþjóðina hér í Norðurálfu, sem haldið hafði uppi lýðveldisskipulagi sínu endurheimtu um 20 ára skeið. Ég man eftir því, að sá svipur var þá á þingheimi og meiri hluta landsmanna, að þeim þótti sem hér hefðu gerzt stórtíðindi, og illt til þess að vita, ef litla finnska þjóðin yrði kúguð, og í stað lýðræðis kæmi þar útgarðaríki einvaldsríkisins rússneska fyrir austan. Þá var það einmitt, að allir alþingismenn í Alþfl., Framsfl., Sjálfstfl. og Bændafl. gáfu yfirlýsingu hér í sölum Alþ., og mun hún áreiðanlega hafa verið í samræmi við huga margra þúsunda hinnar íslenzku þjóðar. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að rifja upp þessa yfirlýsingu, sem hljóðar svo:

„Vegna þeirrar afstöðu, er Kommfl., sem hér starfar undir nafninu Sameiningarflokkur alþýðu — sósialistaflokkurinn, þm. þess flokks og málgögn hafa markað sér til frelsis, réttinda og lýðræðis smáþjóðanna síðustu vikurnar, og alveg sérstaklega viðvíkjandi málefnum Finnlands, lýsa undirritaðir alþingismenn yfir því, að þeir telja virðingu Alþ. misboðið með þingsetu fulltrúa slíks flokks.“

Þetta var viljayfirlýsing Alþ. út af þeim atburðum, sem um þetta leyti dundu yfir úti í heimi, út af þeim atburðum, er ollu svo miklu róti í hugum manna, að mikill meiri hl. íslenzku þjóðarinnar fordæmdi slíkt athæfi og fann ekki nógu hörð orð í málinu til að lýsa andúð sinni gegn því. Aftur á móti var lítil klíka hér á landi, sem lofaði þessar aðfarir og taldi þær réttar og eðlilegar. Það getur vel verið, að Finnar hafi ekki getað hindrað það, að áróðri væri beitt innan Finnlands sjálfs til að ákalla stórveldið við hliðina um það að hafa áhrif á stjórnskipulag Finnlands. Það voru áreiðanlega til menn með sama hugarfari sem Kuusinen, sem um 20 ára skeið hafði beint ákalli sínu austur til Moskva til að biðja um hjálp handa finnsku kommúnistunum til þess að gerbreyta þjóðskipulaginu finnska og færa það í einræðisátt eftir þeirra huga og kenningum. Það var kallað í 20 ár, og eftir 20 ár var kallinu hlýtt. Hve mikil áhrif þetta kall í 20 ár hefir haft á þá viðburði, sem gerzt hafa nú síðustu mánuðina, er ómögulegt að segja um með vissu. Það eru til í hverju þjóðfélagi menn, sem halda uppi slíku tali og ákalla stórveldin um að hjálpa sér með einhverju móti til að hafa áhrif á lýðræðisskipulagið. Þeir eygja þá leið, að því verði gerbreytt með ofbeldi. Við getum ekki að vísu hindrað það, samkv. skipulagi lýðræðisins, að þeir fái að halda áfram með sín köll og hróp. En við getum hindrað það, að þessir menn fái aukna og betri aðstöðu innan þjóðfélagsins til að gera köll sín áhrifaríkari og meiri líkindi til, að þeim verði hlýtt.

Ég sagði áðan, að það væri auðséð, að litlu lýðræðisþjóðirnar muni nú læra af hinni sorglegu reynslu sögunnar undanfarið og hugsi sig um betur en áður. Þær munu sjá, að ekki dugir að halda lengra á þeirri braut, að sýna linkind og umburðarlyndi gegn þeim, sem keppa að því af öllum mætti að ráða niðurlögum lýðræðisskipulagsins. Ég get bent á það, að einmitt nú nýlega hafa verið gerðar ákvarðanir um það á löggjafarþingi Svía. Þær ákvarðanir voru m. a. í því fólgnar, að neita að flytja blöð og tímarit sænskra kommúnista með ríkisjárnbrautunum eða öðrum tækjum, sem ríkið hefir til sinna eigin umráða. Löggjafarþing Svía hefir ákveðið að banna að nota ríkisjárnbrautirnar til að breiða út kommúnistísk rit. Í grg., sem fyrir þessu var gerð af dómsmrh. Svía, var þess getið, að full ástæða væri til þessa, þar sem blöð kommúnista væru með hótanir í garð stjórnarvaldanna hvað eftir annað. Þess háttar hótanir gætu valdið hættu fyrir öryggi ríkisins og skaðað afstöðu sænska ríkisins til annara ríkja, ef þar fengi að vaxa upp áróður, er hefði þann tilgang að velta þjóðskipulaginu með hjálp er lends stórveldis og með ofbeldi. Þess vegna taldi sænska stj. rétt að hindra, að þeim yrði hjálpað með því að láta járnbrautir og bila ríkisins flytja þennan boðskap út um byggðir landsins. Þetta er ekki einsdæmi. Nýtt viðhorf er runnið upp hjá litlu lýðræðisþjóðunum vegna reynslu síðustu og verstu tíma. Dómsmrh. sænski bætti því við, að það væri ástæða til að gera ráðstafanir til að taka til sérstakrar athugunar félagsskap og samastað þeirra manna innan sænska ríkisins, er ynnu að því með ofbeldi og aðstoð erlendra valda að kollvarpa lýðræðisskipulaginu. Það er áreiðalega von á meiri og ríkari ráðstöfunum úr þeirri átt. Víða annarstaðar á Norðurlöndum eru gerðar ráðstafanir til verndar því skipulagi, er stjórnarvöld landanna vilja halda uppi, lýðræðisskipulaginu.

Ég tel reyndar rétt, að sú till., sem liggur hér fyrir, eigi að vera að efni til rökrétt áframhald og afleiðing þeirrar viljayfirlýsingar, sem mikill meiri hl. þingheims gaf hér 4. des. síðastl. Ég tel rétt, að hér sé endurtekin viljayfirlýsing Alþ. um það, að það vilji ekki hlynna að því, að gefa þeim mönnum sérstaka aðstöðu í þjóðfélaginu, sem sjálfsagt nota allt sitt afl, allan sinn áróður og alla sína tækni til þess að leggja að grunni sjálft lýðræðisskipulagið. Þess vegna er viljayfirlýsing Alþ. um þetta atriði í beinu áframhaldi af þeirri viljayfirlýsingu, sem hér var farið fram á 4. des. síðastl. Það getur vel verið, að ágreiningur rísi upp um það, hvað sé heppilegasta aðferð til þess að verja lýðræðisskipulagið fyrir skæðum og ófyrirleitnum andstæðingum innan þjóðfélagsins. Ég ætla, að þeir flokkar, sem stóðu að yfirlýsingunni í vetur, muni einnig geta orðið sammála um þessa yfirlýsingu.

Það er að öllu leyti nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að vernda sjálfstæðið og lýðræðisskipulagið í landinu fyrir þeim alvarlegu hættum, sem steðja að því innan að með aðstoð utan frá. Þingheimi verður að vera ljóst, að hér dugir ekki að fljóta sofandi að feigðarósi. Ég legg enga sérstaka áherzlu á, hvort þessi yfirlýsing verður samþ. í þessu formi eða hinu, og hvort ákvarðanir Alþ. ganga þessa leið eða hina. Aðalatriðið er, að Alþ. sýni vilja til að vernda, fullkomna og bæta það skipulag, sem íslenzka lýðveldið byggist á. Ég hefi ekkert á móti því, að þetta mál fari til n. til skjótrar ákvörðunar, og ég hefi heldur ekkert á móti því, þó að aðrar yfirlýsingar komi fram um þetta efni. Aðalatriðið er, að haldið sé áfram á þeirri réttu braut, sem mörkuð var 4. des. síðastl., að Alþ. haldi verndarhendi sinni yfir lýðræðisskipulaginu í landinu, og gerðar séu allar þær skynsamlegar ráðstafanir, sem til þess eru hugsanlegar.

Lýðræðið verður að verja sig sjálft á sinn eiginn hátt. Við óskum ekki eftir því, að Pétur og Páll, sem vill ráðast á lýðræðisskipulagið, fái ekki að tala eða skrifa, en hann má ekki tala, ekki skrifa og ekki starfa á þá lund, að ósamboðið sé sjálfu lýðræðisskipulaginu. Það á að vernda sína tilveru með eigin starfsaðferðum, en það má ekki láta geigvænlegar árásir sem vind um eyrun þjóta, þótt ekkert sé til varnar, heldur sigra í þeirri baráttu eftir reglum hins rétta lýðræðis. Það er hreinasti misskilningur, að lýðræðið eigi að gefa Pétri og Páli ótakmarkað frelsi til að láta í ljós þær skoðanir á opinberum málum, sem gætu orðið til að fella hið íslenzka lýðveldi með aðstoð útlendrar einræðisstefnu.

Ég vildi láta þessi almennu orð falla um málefni það, sem liggur til grundvallar till. til þál. á þskj. 260. En ég vil að lokum endurtaka það, að fyrir mér er ekkert höfuðatriði, hvort formið er þetta eða hitt, eða hvort aðferðin er þessi eða hin, sem leitt gæti að þessu marki, heldur það, að halda uppi eðlilegri lögvernd og lýðræði í landinu.