05.04.1940
Sameinað þing: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (2452)

95. mál, lýðræðið og öryggi ríkisins

Frsm. (Einar Árnason):

Allshn. hefir haft þessa þáltill. til meðferðar ásamt brtt. á þskj. 307 og 319. N. var öll sammála um það, að fallast á aðalefni till. á .þskj. 250 og 307. Hún lítur svo á, að það sé full ástæða til þess, að Alþ., ríkisstj. og þjóðin sé vakandi á verðinum um frelsi sitt og sjálfstæði og það lýðræðisskipulag, sem hún hefir búið við og býr enn við, það skipulag, sem ríkir hjá nágrannaþjóðum okkar og þær telja sitt dýrmætasta hnoss, og eru þess albúnar að verja það með blóði og brandi. Og það er einmitt sérstakt tilefni til þess að hafa vakandi auga á þessu nú, þar sem einstaklingsfrelsið og mannréttindi virðast aldrei hafa verið í meiri hættu stödd í heiminum heldur en einmitt nú. Einræðisandi virðist nú vera að festa rætur hér í okkar litla þjóðfélagi. Og það mun vera tilefnið til þess, að slíkar till., sem hér liggja fyrir, hafa komið fram. Allshn. hefir orðið ásátt um að taka upp allt aðalefnið, sem er í þáltill. á þskj. 250 og 307, og sameina það í eina þáltill. með nokkrum orðabreyt. N. flytur brtt. á þskj. 353, sem hún leggur til, að hið háa Alþ. samþ. Ég skal taka það fram viðvíkjandi brtt. n., að það er prentvilla á einum stað í þáltill., í fyrri málsgr. tölul. 1, þannig að í staðinn fyrir orðið „verndar“ í niðurlagi mgr. á að vera varnar, og verður það leiðrétt í endurprentun þáltill.

Efni þáltill., eins og n. orðar hana, er tvíþætt. Í fyrsta lagi, að Alþ. væntir þess, að ríkisstj. og önnur stjórnarvöld hafi vakandi auga á starfsemi þeirra manna í landinu, sem lýðræðisskipulaginu virðist stafa hætta af, og beiti öllu því valdi, sem hún hefir, til varnar gegn slíkri starfsemi. Í öðru lagi felst það í þáltill., að fela ríkisstj. að athuga, með hverjum hætti lýðræðið geti bezt varizt þeim mönnum og flokkum, sem telja má, að séu því skaðsamlegir, og jafnframt að endurskoða þau ákvæði íslenzkrar löggjafar, sem nú gilda um landráð. Og að síðustu að ríkisstj. undirbúi undir næsta þing þessi mál, þannig að sá undirbúningur geti orðið undirstaða undir nýrri löggjöf um þessi efni. Sem afleiðingu af því formi, sem n. hefir sett þáltill. í, flytur hún einnig brtt. við fyrirsögn þáltill., svo að fyrirsögn þáltill. verði í nánu samræmi við efni og skipulag hennar.

Ég hygg nú, að lýðræðisflokkarnir hér á landi hafi ekki mikla ástæðu til að ræða þessa þáltill. mjög mikið frá sinni hlið, enda ætla ég ekki að fara út í neinar almennar umr. um þetta mál, en aðeins óska þess fyrir hönd n., að till. sú sem n. flytur á þskj. 353, verði samþ.