05.04.1940
Sameinað þing: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (2453)

95. mál, lýðræðið og öryggi ríkisins

*Héðinn Valdimarsson:

Það er nokkuð óvenjuleg aðferð, sem notuð hefir verið um þetta mál, að fresta umr. þess og koma því til n. án þess að þeir menn fengju að tala út, sem þá þegar höfðu beðið um orðið. Ég vil sérstaklega benda á, að forseti knúði frestunartill. fram á þann hátt, sem gert var hér, enda þótt hv. þm. Barð., sem kom með till. um að fresta þessu máli, hafi skýrt frá því, að hann hafi aldrei lagt til, að það yrði gert á þann hátt, að þeir fengju ekki að tala áður, sem beðið höfðu um orðið. (BJ: Þetta er ósatt). En þessu verður forseti náttúrlega að ráða; ef hv. þm. fá ekki að tala um mál fyrr en búið er að ákveða gang þeirra, þá verður það svo að vera. — Síðan hafa komið fram tvær brtt. við þessa þáltill. þeirra hv. þm. S.-Þ., hæstv. félmrh. og hv. þm. Borgf. Og þar sem búið er að bræða þetta saman í n. á þennan hátt, sem hér kemur fram, þá gerir maður ráð fyrir, að málið verði afgr. í því formi. Ég fyrir mitt leyti get greitt atkv. með þessari till., sem kemur frá n., enda er með henni búið að kollvarpa algerlega stefnu þeirra hv. þm. S: Þ. og hæstv. félmrh. í upphaflegu þáltill. og búið að taka upp algerlega annað lag á þessu. Og till., sem hv. 2. þm. Eyf. gat um, er ekki um annað en að skora á ríkisstj. að gera þá skyldu sína, sem ríkisstj. hvers ríkis á að gera, þar sem á að vera lýðræðisskipulag, og að athuga fyrir næsta þing almennar varnir fyrir lýðræði landsins.

Ég vil þó koma með ýmsar nánari aths. í sambandi við málið og þær framsöguræður, sem fluttar voru hér um það af þeim hv. þm. S.-Þ. og hæstv. félmrh., og vil sérstaklega geta þess, að sá síðarnefndi tók það greinilega fram, að þessi till., eins og hún er borin fram af honum og hv. þm. S.-Þ., sé ekki opnað en beint framhald af þeim samþykktum og yfirlýsingum, sem flokkar þjóðstjórnarinnar komu með í desember síðastl. út af Finnlandsmálunum. Þá er nú hafður sá lýðræðisbragur á málinu, að settur er hér fundur og lesin upp yfirlýsing þeirra flokka, sem tilheyra hinum svo kölluðu lýðræðisflokkum, þar sem lýst er fyrirlitningu á okkur, sem þá vorum saman í Sósíalistafl., þ. e. mér og þeim sósíalistum, sem nú sitja á þingi, út frá ályktunum, sem allir hv. þm. vissu, að voru rangar, sem sé þeim, að Sósialistafl. þá væri búinn að taka afstöðu í Finnlandsmálunum. Enda kom það einmitt fram þá dagana, að verið var einmitt að leita afstöðu um þessi mál í flokknum. En svo mikið lá á að koma þessari vísvitandi röngu yfirlýsingu svo að segja allra þm. fram, að það mátti ekki einu sinni taka til máls um hana í þinginu. Og svo þegar þingmannafélagsfundurinn var haldinn til þess að vísa okkur úr þingmannafélaginu., þá var það ákveðið fyrirfram, þó að þm. Sósíalistafl. hefðu innbyrðis gersamlega andstæðar skoðanir um þetta mál, að láta eitt yfir þá alla ganga í þessu efni Hv. þm. stjórnarfl. gerðust þá svo lítilsigldir að gefa yfirlýsingar, sem þeir vissu, að voru rangar.

Ég veit, að starfsaðferðum eins og þessum stóðu fyrst og fremst að ákveðnir menn og réðu þar um, einmitt þeir sömu menn, sem standa að þessari þáltill. upphaflega, þeir hv. þm. S.Þ. og hæstv. félmrh., sem kunnur er að þessari stjórnaraðferð og kallar hana síðan lýðræðislega stjórnaraðferð. Þessi þáltill. þessara hv. þm. er beint framhald af þessum yfirlýsingaflutningi í desember í vetur.

Nú skyldi einhver maður halda, að þessir menn, sem að þessari till. standa, væru þekktir meðal fólksins fyrir að vera lýðræðissinnaðir í hvívetna. Jú. Hv. þm. S.-Þ. er landskunnur af þeim málum, þar sem enginn maður mun hafa á þingi staðið eins mikið á móti lýðræðisskipulagi eins og hann, í sambandi við breyt. á kjördæmaskipuninni. Aftur á móti hefir hæstv. félmrh. að sínu litla leyti innan síns flokks haft forustu í að rífa niður allt lýðræði, sem þar var, og koma á einræðisstjórn þar.

þáltill., sem hér á í raun og veru að feila með því að samþ. till. n., sem breytir henni svo, að það stendur ekki steinn yfir steini í henni, er líka á þann hátt, að í staðinn fyrir það, að í haust var ekki verið að gera annað af þm. þjóðstjórnarinnar en að búa til einskonar yfirlýsingar um sína andstæðinga, þá átti nú samkv. þessari þáltill. að gefa rúm fyrir hverskonar atvinnukúgun, sem hægt er að hugsa sér af hálfu þess opinbera. Eins og allir vita, hefir hv. þm. S.-Þ. sótzt mikið eftir virðingarmerkjum og völdum nú upp á síðkastið; hann notaði þessa aðferð í haust til þess að sínir andstæðingar yrðu sviptir virðingarmerkjum. En honum hefir ekki fundizt það bita nógu vel, heldur vill hann nú taka líka upp það, sem oft hefir verið notað af Framsfl., og þá sérstaklega af hv. þm. S.-Þ., sem vopn, þ. e. atvinnukúgun, og fá það notað af þinginu. Það hefir sem sé verið viðurkennt af tveimur hv. ræðumönnum á undan mér, að eftir þessari þáltill. er svo fyrir mælt, að ef vitanlegt sé um einhverja, að þeir vilji þetta eða þetta, sem nánar er til tekið í þáltill., þá eigi ekki að nota starfskrafta þeirra fyrir þjóðfélagið til þess að hafa þá í trúnaðarstöðum, og að þá eigi ekki að sýna þeim vott um traust eða viðurkenningu ríkisins. Hverjum á þetta svo að vera „vitanlegt“? Jú. Það á að vera vitanlegt hverjum manni, sem ræður yfir að veita opinberar stöður eða störf. Ef þeim mönnum er „vitanlegt“ þetta eða hitt um hugsanir einhvers manns, þá getur hann haft það sér til afsökunar, og þannig er veitt opin braut til hverskonar gerræðis um embættaveitingar eða embættasviptingar, því að þeir menn, sem ráða yfir stöðunum, geta hvenær sem er og þeim býður við að horfa sagt: Mér er vitanlegt, að þú vilt þetta eða hitt, sem stendur í þessari þáltill., og þar af leiðandi mátt þú ekki fara í þetta starf, sem þú kannt annars að vera vel fær um. Það er kannske eins og einn hv. ræðumaður á undan mér gat um, að sagt væri, að það starfaði hér nefnd, sem ætti að líta eftir pólitískum skoðunum fólks, sem vinnur í ríkisstofnununum, og hv. þm. S.-Þ. væri í þeirri n. Ég hefi ekki heyrt neitt um þá n. fyrr, en gaman væri, að hæstv. félmrh. gæfi upplýsingar um þetta. En þó að ekki sé nein opinber n. til þessa kjörin, þá er slíkt gert af stjórnarfl., þó ekki sé neinn opinber stimpill á því. En hvernig sem það er, þá veit maður, slíkur eljumaður sem hv. þm. S.-Þ. er, að ef þessi þáltill. væri samþ., þá mundi hún bera tilætlaðan ávöxt; það en ekki svo þröngt sviðið, sem markað er í henni til gerræðis í því að synja mönnum um störf fyrir það opinbera og svipta menn þeim. Svið þetta er ákaflega vítt. Það nær ekki aðeins til þeirra, sem vilja „gerbreyta þjóðskipulaginu með ofbeldi“ og „koma Íslandi undir erlend ríki“. Það tekur líka til þeirra, sem „standa í hlýðnisaðstöðu um íslenzk landsmál við valdamenn í öðrum þjóðlöndum“, og mundi það fara eftir því, hver væri við völd á hverjum tíma, hvernig það yrði túlkað. Af andstæðingum hæstv. félmrh. væri t. d. hægt að líta svo á, að hann stæði í hlýðnisaðstöðu við stjórnmálafl. í nágrannalöndunum. Auk þess mætti taka þetta bókstaflega á þann hátt, að ræðismenn hér á þingi stæðu í hlýðnisaðstöðu við erlenda valdamenn, svo að ekki mætti þess vegna trúa þeim fyrir trúnaðarstörfum fyrir þjóðfélagið. Þetta er ákaflega teygjanlegt orðalag. Og auk þess. sem ég nú taldi, er í þáltill. til vara sagt: „eða vinna á annan hátt gegn fullveldi og hlutleysi ríkisins, svo sem með því að starfa í pólitískum félögum með einræðisskipulagi, sem er ósamrýmanlegt efni og anda stjórnarlaga í lýðfrjálsum löndum.“ Ég sé ekki betur en að hér sé gengið beint og bókstaflega á móti ákvæðum stjórnarskrárinnar, með því að ekki sé leyfilegt að hafa pólitískan félagsskap í löglegum tilgangi með hvaða skipulagi sem er, hvort sem menn vilja hafa það með einræðisfyrirkomulagi, eins og í Alþfl. og Alþýðusambandi Íslands, eða menn vilja hafa það eins og í þeim félagsskap, sem Brynleifur Tobíasson stendur að, þar sem einn segir fyrir og allir aðrir verða að hlýða. (Viðskmrh.: Er ekki alveg sama fyrirkomulag í flokki hv. 3. þm. Reykv.?). Það getur hæstv. ráðh. talað um og gert fyrirspurn um, ef hann vill standa upp til þess.

Þessi gerræðistilraun hv. þm., sérstaklega þeirra hv. þm. S.-Þ. og hæstv. félmrh., hefir nú gengið svo langt, að allir hv. þm. í allshn. eru sammála um það, að ekki beri að samþ. þessa þáltill., því að það sé svo opinbert, hvað gera eigi með því að samþ. hana; og þess vegna er þeirra brtt. gerð með samkomulagi allra nm.

Þá er sú grg., sem flutt er hér fram af þeim hv. þm. S.- Þ. og hæstv. félmrh., sem ég ætla ekki að fara út í nema að tiltölulega litlu leyti. Þó vil ég aðeins benda á, að það virðist svo sem hv. þm. S.-Þ., sem sennilega hefir skrifað hana, sé ekki of vel að sér um gang lýðræðismálanna, eins og hann orðar þessa hluti. Annað en það, sem ég hefi rætt um, sem virðist vaka fyrir hv. flm. þessarar þáltill., er, að það sé ákveðinn varanlegur flokkur í landinu og að lýðræðisskipulagið byggist á því. Ég gæti trúað, að það vekti fyrir báðum þessum mönnum að löggilda þá flokka, sem fyrir eru, til þess að þeir geti verið nógu ákveðnir og varanlegir. Það þarf ekki mikið að vita til þess að sjá, að slíkt lýðræði, sem þróazt hefir á undanförnum 100–200 árum, hefir ekki þróazt á þann hátt, að flokkar hafi verið varanlegir á neinn hátt, heldur hafa þeir myndazt hver upp úr öðrum. T.d. verkamannaflokkarnir, þeir, sem nú eru við lýði, hafa ekki verið til slíkir sem þeir eru nú í hverju landi, er verklýðsfl. voru þar fyrst stofnaðir. Enda er það einn hluti lýðræðisins, að ekki sé aðeins hægt að skiptast milli tveggja ákveðinna flokka, heldur einnig að hægt sé að stofna nýja flokka eða breyta þeim. Það er ekkert sérstakt tákn fyrir lýðræðisskipulagið, að menn standi alltaf saman út á við. Ég veit ekki betur en að þar, sem lýðræðið er mest, deili menn ákaflega mikið um utanríkismálin, t. d. í Englandi, þar sem aðalágreiningurinn milli flokka er kannske um utanríkismálin, þó að þeir geti á hættutímum staðið meira og mínna saman um þau mál, sem varða tilveru þjóðarinnar. En það er undirstaðan undir þessu lýðræði, að utanríkismálin séu öllum opinber, svo að þjóðin geti fylgzt með öllu, sem gerist á því sviði. En þessi þjóðstjórn hefir alltaf reynt að halda því sem allra leyndustu fyrir alþjóð, sem hún hefir samið við aðrar þjóðir. Og þó að þessir flokkar hafi með þeim samningi, sem gerður var á milli þeirra, þegar þessi sambræðslustjórn var sköpuð, lýst yfir, að þeir ætluðu að standa saman um sjálfsfæðismálið, þá hefir ekkert heyrzt frá þeim um, hvernig þeir ætluðu að leysa það mál, svo að ekki er hægt að segja, að mikill lýðræðisbragur sé á því starfi með sjálfstæðismálið, þar sem enginn má vita, hvað er að gerast eða á að gera.

Hv. þm. S.-Þ. færir aðallega fram þrjár ástæður fyrir þessari till. sinni. Ein er viðvíkjandi kommúnistum, önnur er viðvíkjandi þeim félagsskap, sem hefir verið stofnaður á Akureyri og virðist ekki eiga miklu fylgi að fagna, sem Brynleifur Tobíasson hefir verið talinn leiðtogi fyrir, og það þriðja er rödd, sem á að hafa komið fram um, að íslenzka þjóðin eigi að afhenda sjálfstæði sitt. Vegna samtals, sem hv. þm. S.-Þ. hefir átt við mig, og vegna ummæla, sem komið hafa í ýmsum blöðum sambræðslustj., vil ég minnast nokkru nánar á þessi atriði.

Það er svo, eins og ég hefi bent á, að allir þingflokkarnir munu sammála um, að sambandinu við Dani verði sagt upp 1943. Um það hefir verið gerð samþykkt af öllum þingflokkum og staðfest með síðari yfirlýsingum. Þrátt fyrir það hafa stjórnmálaflokkarnir, og það enda þótt einn þeirra kalli sig sjálfstæðisflokk, enga stefnu lagt fram um, hvað gera skuli. Maður heyrir. þegar um þetta er talað, að þeir hafa mismunandi skoðun. Sumir koma með það, að ekki skipti miklu máli, hvernig við förum með þessi mál, við tækjum utanríkismálin í okkar hendur, en hvort við skulum verða konungsríki, lýðveldi eða í sambandi við Dani, virðast vera mismunandi skoðanir um.

Ég lít svo á, að tímar eins og þeir, sem við lífum nú á, séu þannig, að miklir möguleikar séu fyrir Íslendinga að verða sjálfstæðir á hvern hátt sem þeir óska sér, og eins sé auðvitað allmikil hætta á, að þeir geti lent inn í valdahring þeirra stórvelda, sem kunna að vilja leggja undir sig landið. Þá væri ekkert eðlilegra en það, þegar að stj. standa menn í flestum þingflokkum, að ákveðin yfirlýsing kæmi frá stj. og þessum flokkum, hvernig starfa skuli og stefna í þessum málum. Þetta gerði Alþfl. á sínum tíma, þegar ég var í honum. Hann vildi hafa algerðan skilnað við Dani, og einstakir þm. úr öllum flokkum hafa líka viljað það. við vitum líka, að eftir samningunum við Dani er konungssambandið óuppsegjanlegt og verður ekki riftað nema með vilja hins aðilans, en það er ekki búizt við, að mikil fyrirstaða verði frá þeirra hálfu, ef Íslendingar vilja losna við Dani.

Það, sem ég tók fram í þessari gr., var það, að ef Íslendingar vildu vera sjálfstæð þjóð, yrðu þeir að koma svo högum sínum, að sjálfstæði þeirra væri tryggt. Þeir yrðu að ráða því, hvort þeir yrðu konungsríki eða lýðveldi, í beinu sambandi við önnur ríki eða ekki, og þá hver. Nú hefðum við konungssamband, á pappírnum óuppsegjanlegt„ og því ættum við að segja upp nú þegar.

Þá ræddi ég um það í þessari grein, hvar við gætum aðallega átt verndar von, ef á okkur yrði ráðizt. Við vitum, að ríki leita í sambönd á hverjum tíma, t. d. Noregur og Svíþjóð; einnig hefir Holland verið í sambandi við England, Frakkland og Belgíu. Sambönd milli landa eru ákveðin eftir því hvernig á hverjum tíma er bezt að haga sér. Ég hygg, að allir séu sammála um, að ef við höfum eitthvert samband við önnur lönd, þá hljóti það að verða á þann hátt, að við höldum okkar fullkomna sjálfstæði, og ég skýrði það, að við gætum ráðið, hversu lengi það stæði og hvernig það væri. Það, sem ég minntist á í þessari grein, var það, að eins og nú stæðu sakir gæti verið hættulegt fyrir okkur að hafa samband við Dani vegna þeirra þjóða, sem eru í nágrenni við þá, og er hætt við, að vilji ásælast þá eða taka af þeim lönd, og í öðru lagi vegna þeirra menningaráhrifa, sem nú er dreift yfir önnur lönd sunnan úr Mið-Evrópu, en ef við vildum halda okkar lýðræðisskipulagi, ekki merkilegra en það er, þá hlytum við að verða að halla okkur til þeirra þjóða, sem öflugastar væru og tók ég þar til Bandaríkin og England. Það gæti komið til mála að athuga, hvort við vildum ganga inn í ríkjasamband Stóra-Bretlands. En að tala um, að ég hafi rætt eða á nokkurn hátt haldið fram, að Íslendingar ættu að afhenda sjálfstæði sitt, er aðeins bull eða vísvitandi rógur og ósannindi. Hver maður, sem skyn ber á, hvernig þetta samband er milli samveldislanda Bretlands og Bretlands sjálfs, veit, að þessi ríki eru gersamlega jafnrétthá og geta farið úr sambandinu, hvenær sem þau vilja, og þau eru það mjög breytilega og á ýmsan hátt, eftir því hvernig þau vilja hafa það. Það er því ekkert annað en hvernig við eigum að halda okkar sjálfstæði, til þess að eitthvað verði úr þessu annað en orðaleikur, eins og virðist vera hjá þessum flokkum, og þessi sjálfstæðismál meira en einhver hlutur, sem aðeins eigi að gera grein fyrir og ræða fyrir kosningar. Hér er um það að ræða, hvort við eigum að ganga úr sambandinu við Dani 1943, og þó ekki siður hitt. að hvaða pólitík við eigum að halla okkur á eftir til þess að halda okkar sjálfstæði og okkar menningu og lýðræði og öðru, sem við getum komið í okkar löggjöf. Utanríkispólitíkin er ekki, hvort við viljum losna við Dani eða ekki. heldur hvernig við eigum að búa þannig um, að þjóðin geti lifað sem sjálfstæðust og komið sinni menningu sem bezt í það form, sem hún vill, íhlutunarlaust erlendis frá.

Ég tala svo nákvæmlega um þetta vegna þess. að það er merkilegt, hvernig þessir pólitísku flokkar hegða sér og hvernig blöðin hafa getið um grein mína, og er þar alveg samsekur Sósíalistafl. og blað hans við hin blöðin, þar sem hann visvitandi reynir að blekkja sína lesendur og rangfæra orð mín um þetta mál.

Ég þarf ekki margt að segja um brtt. hv. 1. landsk. við þáltill., að í stað orðanna „gerbreyta núverandi þjóðskipulagi með ofbeldi“ komi „viðhalda núverandi þjóðskipulagi með ofbeldi“. Mér virðist, að með þessari till. gangi hv. þm. inn á till. hv. þm. S.-Þ., en vilji aðeins beita henni gagnvart þeim, sem viðhaldi þjóðskipulaginu með ofbeldi, að þeir fái engar trúnaðarstöður. M.ö.o., hann gengur inn á hugsunarhátt hv. þm. S.-Þ., vill nota sömu aðferð og hann, en aðeins refsa öðrum.

Ég þarf svo ekki miklu að bæta við þessi orð, sem ég hefi látið hér falla. Það stendur í grg., að það eigi að safna öllum lýðræðisvinum í þinginu gegn öfgastefnum og til varnar frelsi þjóðarinnar. Ég vil aðeins geta þess, að þeir flokkar, sem standa að sambræðslustj. og hafa tekið upp slíka sameiningarpólitik viðvíkjandi lýðræðinu, ættu þá að sýna það í framkvæmd á margvíslegri hátt, bæði á þingi og utan þings, svo að maður nefni ekki annað en kjördæmaskipunina sjálfa, hvernig hún er nú og það skipulag, sem heldur henni við.