05.04.1940
Sameinað þing: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (2454)

95. mál, lýðræðið og öryggi ríkisins

*Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Ég held, að sé óþarfi nú við þessa umr. að ræða mikið till. hv. 3. þm. Reykv. um innlimun Íslands í brezka heimsveldið. Ég geri ráð fyrir, að hann standi einn allra alþm. um þá till. Þ. e. a. s., það kann vel að vera, að margir fleiri hv. alþm. hugsi líkt og hann, en hann tali einn þeirra hugsanir, en a. m. k. er það svo, að allir aðrir en hann hafa vit á að þegja.

Hvað snertir ummæli þessa hv. þm. um Þjóðviljann, að þar hafi ummæli hv. þm. verið rangfærð, þá er því til að svara, að Þjóðviljinn gerði ekki annað en að taka ummæli hans orðrétt upp eins og hver maður getur sannfært sig um með því að lesa Þjóðviljann og bera hann saman við grein hv. þm.

Annars stóð ég upp til þess að mæla nokkur orð fyrir brtt. þeirri, sem ég bar fram við till. á þskj. 250, þ. e. a. s. þá upprunalegu till., sem nú er verið að ræða, frá hv. þm. S.-Þ., hv. þm. Borgf. og hæstv. félmrh.

Þessi litla till. mín er á þá leið, að í stað orðanna „vilja gerbreyta þjóðskipulaginu með ofbeldi“ komi: vilja viðhalda þjóðskipulaginu með ofbeldi. — Ef brtt. mín yrði samþ., myndi till. í heild sinni hljóða þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Sameinað Alþingi ályktar að lýsa því yfir, að það telur ekki viðunandi, að þeir menn gegni trúnaðarstörfum fyrir þjóðfélagið, eða sé sýndur vottur um sérstakt traust og viðurkenningu, sem vitað er um, að vilja viðhalda þjóðskipulaginu með ofbeldi, koma Íslandi undir erlend ríki, standa í hlýðnisaðstöðu um íslenzk landsmál við valdamenn í öðrum þjóðlöndum eða vinna á annan hátt gegn fullveldi og hlutleysi ríkisins, svo sem með því að starfa í pólitískum félögum með einræðisskipulagi, sem er ósamrýmanlegt efni og andra stjórnarlaga í lýðfrjálsum löndum.“

Þannig mundi till. hljóða, ef brtt. mín væri samþ. Nú vil ég fylgja þessari till. úr hlaði til þess að skýra, hvað ég meina með henni.

Þessu þjóðskipulagi, sem við eigum hér við að búa, er viðhaldið með ofbeldi, eins og öllu auðvaldsskipulagi alstaðar um heim. Með þessari þáltill. er farið fram á að afnema það lýðræði, sem á að heita, að sé til hér á landi, og koma á fasistísku stjórnarfyrirkomulagi á Íslandi. Þessi till. fer fram á að afnema skoðanafrelsi,, afnema ritfrelsi, afnema félagafrelsi, afnema athafnafrelsi, afnema hugsanafrelsi, og þar með afnema stjórnarskrá Íslands. Mönnum eru með þessari till. settir tveir kostir. Það er sagt við þá: Annaðhvort fellur þú fram og tilbiður mig, þ. e. a. s. stjórnarvöldin, þ. e. a. s. þjóðstjórnina, þ. e. a. s. þetta þjóðskipulag, eða þú verður ofsóttur eins og dýr merkurinnar, þú verður sveltur, því að þú færð enga vinnu. Þetta er efni till. í stuttu máli. Allir, sem um till. hafa talað, eru sammála um, að þetta sé efni hennar, bæði fylgjendur hennar og andmælendur. Hv. þm. S.- Þ. sagði í ræðu sinni, til þess að réttlæta þetta; Auðvitað geta þessir menn grætt á atvinnurekstri. — Ójá, það er nú gott og blessað. Hvílík mildi! En ég vil spyrja: Hvernig eiga menn að geta sett upp atvinnurekstur, ef þeir eru félausir, ef þeir fá ekki lán í bönkum og ekki innflutnings- og gjaldeyrisleyfi? Hvernig eiga þeir að fara að því? Þeir eiga aðeins einn kost, en hann er sá, að svelta. Nú er ekki nóg, þó að þeir hafi fé til þess að setja í atvinnurekstur. Menn þurfa líka að hafa rétt hugarfar. og væri hægt að nefna þess mörg dæmi. Það var meira að segja svo, að Siglufjörður fékk ekki að setja upp nauðsynlegt atvinnufyrirtæki, síldarverksmiðju, vegna þess að hugarfar meiri hluta bæjarstj. var ekki í samræmi við það, sem valdhafarnir vildu vera láta. Ef maður vill koma upp báti eða setja upp iðnfyrirtæki, þarf hann að hafa rétt hugarfar. Hann þarf að vera framsóknarmaður eða „sannur Íslendingur“. En ef hann aftur á móti er sósialisti, ef hann er föðurlandslaus, ef hann er eins og Pétur Þríhross orðar það: Írskur þræll, Dani eða Rússi, — þá fær hann ekki innflutningsleyfi eða gjaldeyrisleyfi, þá skulu honum allar bjargir bannaðar. Hv. þm. S.- Þ. sagði, að þetta væri ákaflega mild aðferð. Honum fannst það ákaflega mild aðferð að svelta menn fyrir skoðanir sínar. Þá eru þó, sagði hann, frændur okkar, Finnar, hinn mikli menningarlegi útvörður í austri, miklu röggsamari. Ójá, rétt er nú það! Finnar eru röggsamari. Finnska yfirstéttin er röggsamari. Þar er ekki nóg að svelta menn fyrir skoðanir sínar. Finnska yfirstéttin kom þannig fram gagnvart lýðræðinu, að hún sendi þýzkan her inn í landið gegn sinni eigin þjóð. Það er rétt, mild er aðferð hv. þm. S.-Þ. móti þessu. Finnska yfirstéttin lét 1918 drepa þúsundir af andstæðingum.

Það er rétt, að mild er aðferð hv. þm. S.-Þ. á móti þessari aðferð. Ég get nefnt fjölda dæma um hugarfar finnsku yfirstéttarinnar, þessarar miklu fyrirmyndar, gagnvart lýðræðinu, gagnvart alþýðunni. Í einu blaði finnsku hvítliðanna frá þessum árum stendur: Hvers vegna á að þyrma konum og börnum? Hvers vegna á ekki að drepa unga vargynjunnar eins og vargynjuna sjálfa? Þetta stendur í blöðum finnskra hvítliða frá þessum árum. Þetta er sú mikla fyrirmynd. Þetta er það mikla menningarríki. Þetta er sá mikli útvörður menningarinnar, sem hv. þm. S.Þ. talar um. Það er enginn vafi, að ef haldið verður áfram á þessari menningarbraut, verði haldið áfram að taka þennan mikla útvörð menningarinnar í austri sem fyrirmynd, þá verður næsta stigið eitthvað á þessa leið. Ég get nefnt dæmi um, að þessu hugarfari er farið að skjóta upp í þessu þjóðfélagi. Ég þarf þar ekki annað en að vitna í Alþýðublaðið. Þar birtist fyrir nokkrum dögum síðan forustugrein, þar sem sagt var frá atburði, sem gerðist í Luleá í Svíþjóð. Þar voru fimm menn brenndir inni; það voru kommúnistar og konur þeirra og börn. Alþýðublaðið skrifar forustugrein um þetta mál og segir, að kommúnistar hafi yfir engu að kvarta. M. ö. o., það réttlætir morð þessara fimm manna með því, að þeir séu kommúnistar. Það rökstyður þetta með því, að Þjóðviljinn hafi réttlætt morð á konum og börnum í Finnlandi. Allir, sem lesa Þjóðviljann, geta sannfært sig um, að þetta er hin hróplegasta lygi. Þjóðviljinn hefir aldrei mælt með morðum á konum og börnum. Hann hefir ekkert gert annað en leiðrétta það allra svívirðilegasta af brezka lygaundirróðrinum, sem dreift hefir verið út yfir þetta land. En hugarfar Alþýðublaðsins kemur skýrt fram í þessari grein. Það lítur svo á, að fyrst þetta hafi varið kommúnistar, hafi þeir verið réttdræpir. Það megi ofsækja, þá eins og dýr merkurinnar, og séu þeir drepnir, þá hafi þeir yfir engu að kvarta. (Forseti (hringir): Ég vil biðja hv. þm. að halda sig við efni till.). Þetta er sannleikur. Ég hefi ekkert gert nema skýra frá bláköldum sannleikanum. Það er hreint og beint verið að æsa upp til hryðjuverka með svona skrifum. Sé þjóðskipulaginu viðhaldið með ofbeldi, hv. alþm, þá er ég viss um, að það er aðeins hægt að breyta því með ofbeldi. Það er augljóst, og um það þarf ekki að ræða, að þjóðfélagið kveður upp dauðadóm yfir öllu lýðræði með samþykkt slíkrar till., eins og hv. þm. V.-Ísf. tók svo greinilega fram í ræðu sinni.

Annars skil ég ekkert í, að þeir hv. þm., sem bera till. fram, skuli flytja þannig till. gegn sér sjálfum. Allt það, sem í þessari till. stendur, að einni linu undanskilinni, er nákvæm lýsing á þjóðstjórnarflokkunum eins og hv. 5. þm. Reykv. hefir svo rækilega sýnt fram á í ræðu sinni, því að það er í raun og veru svo, að ef þessi till. væri samþ., þá mætti Alþfl. ekki gegna einu einasta trúnaðarstarfi fyrir ríkið eða það opinbena. Ég skal rökstyðja þetta nokkru nánar. Í rauninni er það nægilegt að benda á, að ef nokkur flokkur er uppvís að því að standa í hlýðnisafstöðu við erlend stjórnarvöld, þá er það Alþfl. Og hér er í rauninni kveðið enn frekar að. Flokkurinn má ekki vera uppvís að því að vinna á annan hátt gegn fullveldi eða hlutleysi ríkisins. Alþfl. hefir einn allra flokka orðið uppvís að því, að hafa fengið fé frá erlendum valdhöfum, sænskum valdhöfum, og það er líka hægt að sanna, að hann hefir einnig tekið fé frá öðrum valdhöfum, þó að ég fari ekki út í það nú.

Í blaði flokksins í fyrradag var skýrt frá því, að flokknum hefði verið boðið að senda fulltrúa á ráðstefnu til þess að ræða um hernaðarsamband Norðurlanda. Það var harmað, að ekki skyldi hafa verið hægt að þiggja boðið. Það var harmað í blaðinu, að þeir skyldu ekki hafa getað sent fulltrúa á ráðstefnu til þess að ræða um bernaðarbandalag, sem Ísland hefði þá átt að taka þátt í, geri ég ráð fyrir. Þarna er m. ö. o. verið að ræða um að afsala f. h. Íslendinga hinu eilífa hlutleysi, sem Ísland hefir lýst yfir. Hér er því verið að vinna gegn fullveldi og hlutleysi ríkisins. En má ég spyrja: Hvað mundi hafa verið sagt, ef Sósíalistafl. hefði gefið svona yfirlýsingu, að hann óskaði eftir að senda fulltrúa til Rússlands til þess að ræða um hernaðarbandalag við Rússa? Ætli þá hefði ekki verið litið svo á, að þeir hefðu gert sig seka um og orðið uppvísir að svikum við fullveldi og hlutleysi ríkisins? En afstaða Sósíalistafl. er sú, að hann er í engu alþjóðasambandi og engum háður nema íslenzkri alþýðu. Það er hægt að bera lygi á hann, en þetta er bláköld staðreynd. Í Sósialistafl. ríkir fullkomið innanflokkslegt lýðræði; það getur hver maður sannfært sig um með því að kynna sér l. hans og stefnuskrá.

Þá kem ég að afstöðunni til ofbeldisflokkanna. Hv. flm. þessarar þáltill. hafa berlega lýst sig fylgjandi ofbeldinu með því að flytja þessa till. Hver sé stefna Sósíalistafl., er bezt skýrt með því að lesa upp úr stefnuskrá flokksins, með leyfi hæstv. forseta: „Flokkurinn starfar á lýðræðisgrundvelli innan vébanda sinna og utan, og telur rétt þjóðarmeirihlutans skýlausan til að ráða málum þjóðarinnar, en álitur lýðræðinu í sinni núverandi mynd mjög ábótavant, enda fullkomið lýðræði aðeins hugsanlegt á grundvelli sósíalismans. Flokkurinn berst þó fyrir því, að bæta lýðræðið og fullkomna það, og vill koma í veg fyrir, að því sé misbeitt gegn hinum vinnandi stéttum. Jafnframt telur flokkurinn eitt af höfuðverkefnum sínum að verja lýðræðið gegn öllum árásum ofbeldis-, einræðis- og afturhaldsflokkanna og vill hafa um það samvinnu við alla þá, sem vilja vernda það, hvaða flokkum og stéttum sem þeir tilheyra“.

Ennfremur segir svo: „Sameiningarflokkur Alþýðu — sósíalistaflokkurinn vill heyja baráttu sína með stéttarsamtökum sínum, verkalýðs-, samvinnu-. fræðslu- og, stjórnmálasamtökum, og varast ofbeldi. Vill flokkurinn ekkert frekar en að alþýðan geti náð völdunum í þjóðfélaginu á lýðræðislegan og friðsamlegan hátt. En búast má við því, að auðmannastéttin láti ekki af fúsum vilja af hendi forréttindi sín og yfirráð. Þegar það nálgast, að alþýðan taki völdin að fullu„ má gera ráð fyrir harðvítugri stjórnmálabaráttu, tilraunum til að setja þvingunarlög í því skyni að hefta sókn alþýðunnar og hin ýmsu samtök hennar, árásum á stéttasamtökin og illkynjaðri vinnulöggjöf, atvinnukúgun og rógi um alþýðusamtökin, varalögreglu í vinnudeilum, jafnvel beinum lagabrotum til að sundra alþýðunni og lama hana í baráttunni, en efla og vernda valdaaðstöðu auðvaldsins. Hættan á slíkum fasisma og gerræði auðvaldsins hér á landi hefir aukizt við það, að erindrekar þess, sem sölsað hafa undir sig völd í stjórnmálaflokkum þess, eru teknir að beita jöfnum höndum lýðskrumi og ofbeldishótunum og kúgun, að dæmi einræðisflokka úti í heimi, enda standa í vinsamlegu sambandi við þá og lofa fordæmi þeirra. Flokkurinn berst gegn öllu slíku gerræði og ofbeldi og beitir til þess jöfnum höndum aukinni fræðslu- og útbreiðslustarfsemi gegn fasismanum, en til verndar lýðræðinu og til þess að vinna sósialismanum fylgi með tillögum um ráðstafanir gegn atvinnuleysinu og öðrum erfiðleikum auðvaldskreppunnar, stöðugri hvatningu til sameiningar alþýðunnar gegn ofbeldi og einræði auðvaldsins og skipulagðri baráttu samtakanna með öllu því harðfylgi, sem þau eiga yfir að ráða.“

Þetta er afstaða Sósialistafl. til lýðræðisins. Hann hefir heldur aldrei gert tilraun til þess að beita ofbeldi. Hinsvegar gæti ég talað í allan dag, og nægði varla til, ef ég ætti að lýsa öllu því ofbeldi, sem stjórnarflokkarnir hafa haft í franuni. Niðurstaðan er því sú, að ef brtt. mín yrði samþ., þá væri komið fullt samræmi í þessa umræddu þáltill. hv. þm. S.-Þ. Þá væri því og ótvírætt slegið föstu hér á Alþingi, að t. d. enginn alþýðuflokksmaður mætti gegna trúnaðarstörfum í þjóðfélaginu.

Hv. 3. þm. Reykv. hefði vel getað sparað sér ræðu sína. Mér datt ekki í hug að greiða till. hans atkv., þó að till. mín væri samþ. Till. mína flutti ég aðeins til þess að samræma till. á þskj. 250, svo að um hana væri hægt að greiða atkv., því að enda þótt tili. þessi sé ofbeldistillaga, þá á hún rétt á sér, til þess að stjórnarflokkarnir fái að njóta aðstöðu þeirrar, er þeir hafa samkv. stjórnarskránni sem meiri hluti Alþingis. Það er og heldur ekki nema gott, að till. þessi kom fram, því að það er alltaf gott, að menn fletti af sér grímunni.

Hæstv. félmrh. sagði í ræðu sinni, að þjóðskipulaginu, eins og það væri nú, bæri að halda við. að sjálfsögðu þá með ofbeldi, ef það væri ekki hægt á annan hátt. Hér sannast það, sem við sósíalistar höfum haldið fram um þennan mann, en jafnan hefir verið neitað af Alþfl., að hann væri beinlínis hatramur andstæðingur sósíalista, í stað þess að vera sósíalisti sjálfur. Maður, sem vili beita ofbeldi til þess að halda við ofbeldisþjóðskipulagi. Till. sú, sem hér liggur fyrir til umr., er líka beinn ávöxtur af innræti hans, og í framhaldi af stefnu hans og framkomu. Öll störf hans frá því að hann varð ráðh. eru og lifandi sönnun þess, sem ég hefi nú sagt. Eins og kunnugt er, þá er t. d. búið að gera ríkisútvarpið að áróðurstæki, ekki aðeins fyrir flokk hæstv. ráðh. og þjóðstjórnarinnar hér innanlands, heldur er og búið að gera það að áróðurstæki fyrir eitt hernaðarstórveldi gegn öðru hernaðarveldi. Hugsanafrelsi hafa menn og ekki lengur, hvað þá meir, allt verður að lúta járnvilja ofbeldisstjórnarinnar. Það er til dæmis daglegur viðburður, að til mín komi menn, sem hafa þá sögu að segja, að þeim hafi verið settir þeir kostir, annað tveggja að breyta um pólitíska skoðun og segja sig úr Sósíalistaflokknum, eða verða sviptir atvinnu sinni að öðrum kosti. Þetta gengur svo langt, að jafnvel þvottakonunum, sem hreinsa skítinn í stjórnarbyggingunum, eru sett þau skilyrði, að þær verði að hugsa eins og stjórnarklíkan vill vera láta. Í Hafnarfirði fær og enginn atvinnu hjá bænum nema hann hugsi eins og valdhafarnir þar. Þá er og mönnum meinað að stunda nám við opinbera skóla, ef þeir vilja ekki æpa með lygakórnum, þeir eru beinlínis reknir úr skóla. Til þess svo að slá múr um þessa kúgun er lögreglan aukin og ótakmarkað fé veitt til þess að búa hana vopnum. Núna þessa dagana er hún t. d. að gera æfingar í því, að ráðast á bæi, og til hennar er svo að segja ótakmarkaður vopnaflutningur. Það er svo sem fagnaðarefni, að þetta skuli allt vera viðurkennt og staðfest í till. Við ykkur, hv. þm., vil ég aðeins segja þetta, að ef þið viljið, að þessi stefna haldi áfram, þá skuluð þið samþ. till., en ef þið hinsvegar óskið ekki eftir, að þessi ofbeldisstefna haldi áfram, þá skuluð þið fella till. En umfram allt, verið ekki með neitt hálfkák, að fella till., en láta stjórnarvöldunum á eftir haldast uppi, eftir sem áður, að framfylgja ofsóknum sínum. Ef þið fellið till., þá verið sjálfum ykkur samkvæmir og knýið stjórnina til þess að hætta ofsóknum sínum á hendur saklausum borgurum, sem ekkert hafa annað til saka unnið en að hafa aðra skoðun á landsmálum en stjórnarklíkan. Hvað sem þið samþykkið, hvort sem það verður þessi till. eða annað, sem beint er gegn Sósíalistafl., þá látið ykkur ekki detta í hug, að þið getið bugað hann. Starf hans heldur áfram. Það skeður ekkert annað en að hann vinnur ef til vill með meiri leynd, eftir því sem ofsóknirnar harðna. Allt í kringum ykkur verða þögulir menn, sem hata ykkur og vinna í kyrrþei að því að losa þjóðfélagið við ykkur.

Það hafa komið fram margar játningar í sambandi við þessa tillögu, sem sanna ljóslega tilgang hennar. Hv. þm. S.-Þ. sagði t. d., að kona ein í þjónustu ríkisins héldi því fram, að Finnar hefðu ráðizt á Rússa, en það væri í mótsetningu við staðreyndirnar. Þetta sýnir, að þessi hv. þm. hefir snuðrara sína og sporhunda alstaðar. Hvað átt er við með því, þegar sagt er, að ein þjóð ráðist á aðra, held ég, að ekki sé vettvangur til þess að fara að ræða hér. Um það, hver hleypi af fyrsta skotinu, má víst oft deila. Í þessu tilfelli, sem hér er um að ræða, telur hv. þm. S.-Þ. fullsannað, hver hafi hleypt af fyrsta skotinu, en ég vil bara spyrja: Hvað kemur slíkt þessu máli við, og yfirleitt hvað satt er eða ósatt í því? Það, sem þessi hv. þm. vill draga út úr þessu, er það, að til er kona í þjónustu ríkisins, sem heldur öðru fram en hann sjálfur í þessu máli. Hún er gáfuð hæfileikakona, en fyrst hún heldur því fram, að Finnar hafi hleypt fyrsta skotinu af á Rússa í vetur, þá stoða gáfur hennar ekkert. Hún skal útlæg gerð úr þjóðfélaginu.

Fyrir nokkru réðst hæstv. forsrh. á mig og sló mig í andlitið. Þessu sneri Tíminn við og sagði, að ég hefði ráðizt á ráðh., en hann ekki á mig. Sé nú einhver til, sem ekki trúir þessu og heldur kannske, að forsrh. hafi ráðizt á mig, — hvað stoða hann þá gáfur eða hæfileikar? Hann skal útlægur ger úr þjóðfélaginu eins og konan, sem vildi halda því fram, að Finnar hefðu skotið fyrsta skotinu í finnsk-rússneskastríðinu í vetur. Svona mætti lengi telja. Trúi menn ekki skilyrðislaust því, sem stjórnarklíkan telur sannleika, þá er atvinna og frelsi manna í voða.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég víkja nokkrum orðum að brtt. á þskj. 353, frá hv. þm. N.Ísf., sem er ólíkt skynsamlegri en till. hv. þm. S.-Þ. og þeirra félaga. Þó get ég ekki fallizt á till. þessa, því að enginn veit, hvað átt er við, þegar talað er um ofbeldisflokka í þessari till.; það er að vísu viðurkennt, að þörf sé á að gera ráðstafanir til þess að vernda lýðræðið, en þegar framkvæmdin er falin þeim, sem lýst hafa sig fylgjandi ofbeldi og lýðræðinu stafar því hætta af, þá eru slíkar yfirlýsingar vitanlega einskisvirði og ná engri átt.

Það eru að sjálfsögðu starfandi hér njósnarar fyrir erlendar þjóðir; slíkt er algengt á stríðstímum. En ég vil spyrja: Eru ákvæði hegningarlaganna ekki nægjanleg, svo hægt sé að refsa mönnum fyrir landráð og njósnir? En það eitt er víst, að þó að njósnarar séu einhverjir hér á landi, þá eru þeir ekki úr Sósíalistafl., af þeirri einföldu ástæðu m. a., að slíkt væri hin heimskulegasta aðferð, að velja menn úr þeim flokki til þess að hafa njósnir á hendi, því að þeir hafa minnst skilyrði allra borgara landsins til þess að afla vitneskju um þá hluti, sem hernaðarþjóðirnar vilja fá vitneskju um og þeim mega að gagni koma.