05.04.1940
Sameinað þing: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (2457)

95. mál, lýðræðið og öryggi ríkisins

Bergur Jónsson [frh.] :

Mér þykir vænt um að heyra þetta. — Um afstöðu mína til þessa máls frá upphafi vil ég taka fram: Þegar mér varð kunnugt um, að þáltill. var ráðgerð, réð ég frá því að bera hana fram, því að ég þekkti ofurkapp flutningsmanna. Þegar því ráði var eigi sinnt, gerðist ég meðflm. að brtt., sem ég taldi í fullu samræmi við anda þingræðis og lýðræðis. En með því að ég viðurkenndi tilgang þáltill. réttan, óskaði ég eftir að nefnd athugaði málið gaumgæfilega og gerði tilraun til að sameina leiðirnar að hinu sameiginlega takmarki, þannig að allir þingræðis- og lýðræðisvinir mættu vel við una. Er mér ánægja að lýsa yfir því, að hv. allshn. hefir tekizt að leysa þetta vandamál vel. Með till. hennar tel ég, að sameinaðar hafi verið á hagkvæman hátt þær tvær leiðir til þess að tryggja lýðræðisskipulagið. sem bent hefir verið á, — í fyrsta lagi gerir Alþingi það, sem í þess valdi stendur, til þess að beitt verði þeim vörnum, sem núverandi löggjöf og ef til vill bráðabirgðalöggjöf heimilar, og í öðru lagi er fyrirskipað að skapa fullkominn löggjafargrundvöll í sama skyni. Mega allir þingræðis- og lýðræðisvinir vel við það una. Tel ég, að með till. hennar séu sameinaðar vel hinar tvær leiðir, að tryggja lýðræðisskipulagið og undirbúa vandaða löggjöf í sama skyni.

Hæstv. félmrh. hefir getið þess, að hann teldi þáltill. nokkurskonar framhald af yfirlýsingu þeirri, er meiri hl. þm. gaf 4. des. 1939 um, að þeir teldu óviðeigandi að hafa á þingi nokkra þm., sem vitanlegt væri um, að vildu gerbreyta þjóðskipulaginu með ofbeldi. Ég skal geta þess, að ég stend á þessum grundvelli, en ég var einn þeirra, sem undir þessa yfirlýsingu skrifuðu. Ég taldi hana réttmæta þá og studdi það við þá afstöðu, sem hv. þm. Sósíalistafl. höfðu sýnt eftir að finnsk-rússneska styrjöldin hófst. Þessi afstaða þeirra kom þó bezt í ljós í sumar, er einræðisstefnur Þýzkalands og Rússlands féllu saman og hinir gömlu fjandmenn nazismans lýstu yfir ánægju sinni af því tilefni. Auk þess sýndi þetta sig á þingfundi, er tveir af þm. þessa flokks gáfu yfirlýsingu og formaður Sósíalistafl. lýsti yfir því, að Kuusinen-leppstj. væri hin eina lögmæta stj. Finnlands, en hin böðlar, og þar sem hv. 4. landsk. hótaði Alþingi með rússnesku hervaldi, ef slíkar samþykktir væru gerðar. En það var reginmunur á þessari yfirlýsingu 4. des. og þáltill. þeirri, er hér er um að ræða. Yfirlýsingin 4. des. var um það, hvernig meiri hl. þm. vildi haga sér gagnvart þessum ákveðnu þm. Alþingi var þarna að skapa sér starfsreglur og hefir síðan haldið þeim með því að láta allar till. þessara hv. þm. sem vind um eyrun þjóta. Áður en þetta kom fyrir, átti ég tal við þessa hv. þm. hér í hv. d. og lýsti þá yfir því, að ég gæti ekki talið þá íslenzka stjórnmálamenn, þar sem þeir legðu blessun sína yfir allt, sem einræðisherrar í erlendu ríki gerðu. En það verður líka að gjalda varhuga við mönnum, sem tilheyra öðrum einræðisstefnum, þó að þeir séu ekki bersyndugir, heldur vinni í skotgröfum að því að grafa undan lýðræðisskipulaginu.

Ég vona því, að brtt. hv. allshn. verði samþ. með atkv. allra lýðræðissinnaðra þm., en þó ætla ég til smekkbætis að bera fram skrifl. brtt. við brtt. í nál. á þskj. 353, þess efnis, að í stað orðsins „landshættulegri“ komi „þjóðhættulegri“, því að till. ræðir um að sporna við hættum, er stefna að þjóðinni.