29.03.1940
Efri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

85. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Páll Zóphóníasson:

Það hefir fyrr hent guðsmann að afneita einu og öðru, en sjá ekki að sér fyrr en haninn hefir galað í þriðja sinn. Nú hefir það hent þennan guðsmann, hv. 1. þm. Reykv. (MJ: Og þess vegna galar haninn nú í þriðja sinn!). Já, ég leik hér verk hanans, og þess vegna gerði 1. þm. Reykv. réttast að ganga út og iðrast beisklega.

Hv. þm. benti á það í sambandi við vitagjöldin, og lagði mikið upp úr því, að það væri nokkurskonar óskrifaður samningur milli okkar og erlendra þjóða að verja vitagjaldinu til vitabygginga. Ég vil þá benda hv. þm. á, að það eru mjög margir útlendingar, sem ferðast um land vort, er þurfa að eyða benzíni, og þeir eru alveg undrandi yfir því, hve margar ár eru óbrúaðar, hve vegirnir eru vondir og hvers vegna við höfum ekki hærri benzínskatt til þess að kippa þessu í lag. Mér finnst því, að hv. þm. ætti að verða við kröfum þessara manna þessum óskrifaða samningi við útlendinga, og hækka benzínskattinn, svo að unnt sé að brúa fleiri ár og hafa vegina betri. Það væri einmitt í fullu samræmi við ummæli hans um vitagjaldið.