17.04.1940
Sameinað þing: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (2496)

113. mál, framfærslumál og heimilisfang

*Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég hefi leyft mér að bera fram ásamt samþm. mínum, hv. 2. þm. Árn., till. þá, sem hér liggur fyrir. Efni hennar segir fyllilega til um það, hver till. er, og sé ég ekki ástæðu til þess að fara um hana mörgum orðum.

Það hefir komið í ljós, einkum á hinum síðari árum, að allmikil réttaróvissa ríkir um framfærslumál, og hefir það bæði valdið óþægilega mikilli fyrirhöfn, mótsögnum og kostnaði hjá ýmsum sveitarfélögum. Þannig hefir það borið við þó nokkrum sinnum, eftir því, sem mér hefir verið tjáð, að menn, sem hafa komið til dvalar í einu sveitarfélagi, e. t. v. aðeins um stuttan tíma, og á meðan þeir höfðu dvalarheimili þar, eða e. t. v. litlu síðar, hafa komið verulegar fjárkröfur á hendur þessum mönnum. Þegar farið var að gera gangskör að því, hvar heimilisfang þeirra væri, þá hefir það komið fyrir, að það hefir ekki fundizt. Þá hefir þeim málum verið stefnt þangað, sem mestar líkur voru til, að framfærslusveit þeirra væri, þar sem viðkomandi maður dvaldi síðast, og fjárkröfunum hefir verið vísað þangað og úrskurðað, að sú sveit skyldi greiða kostnaðinn, enda þótt viðkomandi maður hefði aðeins dvalið þar mjög stutta stund og aldrei komið til tals, að hann yrði þar lengi. Hann hefir e. t. v. dvalið þar 1/2 mánuð eða 3 mán. í mesta lagi og verið horfinn á bak og burt, þegar fjárkröfurnar komu. Stundum hefir farið svo, að það sveitarfélag, sem ólíklegast virtist, að ætti að greiða slíkt, hefir verið úrskurðað til að greiða slík gjöld. Slíkt öryggisleysi og óvissa í þessum málum er náttúrlega óviðunandi. Það má vel vera, að það hafi valdið nokkrum erfiðleikum, að löggjöfin sé ekki svo skýlaus og ótvíræð í þessum efnum, að það geti ekki orðið vandkvæðum bundið, að þau gjöld, sem þannig myndast, og þeir menn, sem aðeins dvelja stutta stund á hverjum stað, eiga að greiða, myndu ávallt koma niður á hinni réttu framfærslusveit. Eigi að síður. tel ég nauðsynlegt, að eitthvað sé gert til þess að ráða bót á þessu, og að við verðum nú að búa til löggjöf um heimilisfang manna með tilliti til hinnar fyrri framfærslulöggjafar, og við ættum að reyna að gera hana svo úr garði í þessum efnum, að hún verði fullnægjandi í framkvæmdinni. Það er ekki nóg, að menn vilji vel í þessu sambandi. L. um heimilisfang eru þannig, að ef menn vanrækja þær skyldur, sem á þeim hvíla, eru aðeins sektarákvæði lögð við slíkri vanrækslu, en frekara er þar ekki aðgert. En það hefir nú sýnt sig, að slíkt kemur ekki að fullu gagni.

Einnig ber á það að líta, að menn flytja stundum á stuttu tímabili frá einum stað á landinu til annars staðar, eða hafa vistaskipti hvað eftir annað. Af þessu leiðir, að bréfaskipti, kröfur og klögumál geta stundum gengið langt áður en komizt verði til botns í þeim málum, hvert þær kröfur eigi að fara og hverjir skuli standa skil á þeim, og reynist niðurstaðan stundum á allt annan veg en menn höfðu búizt við, og það sveitarfélag, sem maður skyldi sízt ætla, hefir verið úrskurðað til þess að annast þessar greiðslur. Slíkt fyrirkomulag hlýtur að leiða til þess, að atvinnurekendur þora ekki að ráða menn í þjónustu sína, jafnvel þó að einungis sé um stuttan tíma að ræða, öðruvísi en að æviferilsskýrsla, undirrituð af hlutaðeigandi yfirvöldum, fylgi, og geta menn farið nærri um, hve auðvelt það muni reynast í framkvæmdinni, eða hve langdregin hagsmunamál allra starfsmanna í landinu myndu verða með slíku fyrirkomulagi.

Við, sem erum flm. þessarar till., höfum ekki komið með ákveðnar brtt. viðvíkjandi þeirri löggjöf, sem um þessi mál fjallar. Það stafar af því, að við teljum, að þessi mál séu svo vandasöm og að það þurfi svo margs að gæta í því sambandi, að við treystum okkur ekki á stuttum tíma að gera slíkt þannig úr garði, að öruggt væri, í fyrsta lagi að slíkar brtt. röskuðu ekki við öðrum ákvæðum þessarar löggjafar, og í öðru lagi, að með slíkum brtt. yrði ráðin veruleg bót á þeim atriðum, sem ég hefi nú minnzt á. Fyrir þær sakir töldum við æskilegt, að hæstv. ríkisstj. vildi taka þessi mál til athugunar og sjá, hvort ekki væri unnt að ráða einhverja bót á þeim vandkvæðum, sem eru á framkvæmd þessara mála. Í fullu trausti þess, að ríkisstj. sinni þessum málum eftir beztu vitund, vil ég mælast til þess við þm., að þeir samþ. þessa þáltill. Hér er ekki raskað við efni þeirrar löggjafar, sem um er að ræða, né þess krafizt, að teknar verði neinar ákveðnar niðurstöður, heldur aðeins að það verði tekið til rannsókar, á hvern hátt muni verða bezt að lagfæra þetta, og hæstv. ríkisstj. leggi þá niðurstöðu, sem hún kemst að að þeirri rannsókn lokinni, fyrir næsta Alþ. Ég vil vona, að þar sem þetta mál er þannig borið fram, verði tillgr. samþ. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. geri sér ljóst að meira eða minna leyti, að framkvæmd þessara mála er ýmsum vandkvæðum bundin, og að þeir geti þess vegna fallizt á þessa þáltill.