27.02.1940
Sameinað þing: 3. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

1. mál, fjárlög 1941

Stefán Stefánsson:

Þá er Sjálfstfl. bar fram vantraust á fyrrv. ríkisstjórn á þinginu 1933, var af hálfu Bændafl. borin fram rökstudd dagskrá, þar sem skorað var á ríkisstj. að athuga skilyrði til þjóðstjórnar eða styrkrar meirihlutastjórnar. var dagskráin rökstudd með því, að ástandið með þjóðinni, einkum í fjármálum og gjaldeyrismálum, væri svo vaxið, svo alvarlegt, að sameina þyrfti sem flesta krafta þjóðarinnar, ef takast mætti að ráða fram úr erfiðleikunum.

Að þessu ráði var fyrst horfið þann 11. apríl 1939 við myndun þeirrar samsteypustjórnar, er nú fer hér með völd og skipuð er fulltrúum þriggja stærstu þingflokkanna. var þessari samsteypu furðu vel tekið af yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar, og þjóðin mun vissulega ekki óska eftir breyt. í þessu efni, í því trausti að samsteypustj. takist vel og giftusamlega að ráða fram úr hinum mörgu og aðkallandi vandamálum, er fyrst og fremst skapast gegna þess ófriðarástands, sem nú ríkir.

Bændafl. hefir stutt þessa samsteypustjórn til nýtilegra úrræða. Telur hann það skyldu allra landsmanna, sem eigi afneita sínu föðurlandi, að sýna það, eigi aðeins í orði, heldur og í verki, að þeir vilji allt á sig leggja, öllu fórna. til þess að samstarf og eining megi ríkja með þjóðinni á þessum hættutímum.

Fjárlögin fyrir yfirstandandi ár voru undirbúin af fyrrv. fjmrh. (EystJ), enda þótt þau fyrst næðu samþykki þingsins eftir að núverandi fjmrh. (EystJ) tók við störfum.

Nú hefir hæstv. fjmrh. lagt fram frv. til fjárlaga fyrir árið 1941. Samkvæmt sjóðsyfirliti er fjárlfrv. þetta um 1.2 millj. lægra en fjárlög þessa árs, eða um 18 millj. og tæp 500 þús. Samkv. rekstraryfirliti er rekstrarafgangur áætlaður rúm 800 þús., og er því um 100 þús. meiri en á þessu ári.

Það hlýtur út af fyrir sig að vera gleðiefni, að fjmrh. hefir leitazt við að lækka fjárlfrv. frá því, sem verið hefir. Þess var full þörf. Hin síhækkandi fjárlög undanfarandi ár voru orðin mörgum áhyggjuefni, eigi hvað sízt af því, að hagur framleiðslunnar blómgaðist eigi að sama skapi, heldur hið gagnstæða, en á henni hvílir raunverulega öll gjaldabyrði þjóðarinnar. En þá er fjárlög eru lækkuð, skorin niður útgjöld, hlýtur ætíð að verða nokkur ágreiningur um það, hvað skera eigi niður, hvar eigi að spara. og mun svo einnig verða um þann niðurskurð, er fjmrh. hefir lagt til í frv. En ég vil vænta þess. að fjvn. og Alþingi takist að ná fullu samkomulagi við ráðh. um þau atriði, er ágreiningi valda.

Til þess er samsteypustjórnin meðal annara stofnuð, að friðsamlega lausn megi fá um ágreiningsmál þau, er upp kunna að koma, og að þeim verði ráðið svo til lykta sem bezt má verða. Par eiga sjónarmið um heill og hamingju þjóðarinnar að ráða, en eigi hagsmunir einstaklinga eða pólitískra flokka.

Við fljótlegt yfirlit yfir fjárl.-frv. dylst það eigi, að lækkunin byggist fyrst og fremst á niðurskurði á 16. gr., en í henni ræðir um framlög til verklegra fyrirtækja. Hlýtur þessi niðurskurður að vekja nokkra athygli, þar sem hann beinist langmest að landbúnaðinum.

Samkv. 16. grein eru framlög til landbúnaðarins skorin niður um 900 þús.:

1. Framlag til nýbýla og samvinnubyggða er lækkað úr 155 þús. kr. í 50 þús., eða um 105 þús. kr.

2. Styrkur samkvæmt jarðræktarlögunum er lækkaður úr 580 þús. í 200 þús., eða um 380 þús. kr.

3. Framlag til byggingar- og landnámssjóðs er lækkað úr 125 þús. í 75 þús., eða um 50 þús. kr.

4. byggingarstyrkur til sveitanna er lækkaður úr 123 þús. í 75 þús., eða um 50 þús. kr.

5. Framlag til rannsókna og varna gegn garna og mæðiveiki og styrkur til bænda, er beðið hafa tjón af vöklum þessara fjárpesta, er lækkaður úr 690 þús. í 500 þús., eða um 190 þús. kr.

6. Þá er framlag til fyrirhleðslu á vatnasvæði hverár og Markarfljóts, 50 þús. kr., fellt niður. Ennfremur er lækkaður styrkur samkvæmt þessari gr. til verkamannabústaða um 130 þús.. eða úr 180 þús. niður í 50 þús.

Í aths. við frv. segir ráðh., að þessar lækkanir byggist á því, að vegna dýrtíðar og hins háa verðs á aðfluttu byggingarefni muni svo draga úr byggingum, að þessi upphæð nægi, og ennfremur, að á næsta ári muni útlendur áburður verða af skornum skammti og í háu verði, og því hljóti að draga stórkostlega úr jarðræktarframkvæmdum. Þá segir ráðh. að því er snertir styrki til bænda á mæðiveikisvæðunum, að komizt verði af með lægri styrki en að undanförnu vegna hækkaðs verðs á landbúnaðarafurðum.

Ég get verið fjmrh. sammála um, að nokkuð muni draga úr ýmsum framkvæmdum landbúnaðarins á árinu 1941, svo framarlega sem núverandi ófriðarástand verður ríkjandi, en slíkur einhliða niðurskurður sem hér hefir verið gerður er óverjandi, og hann verður að lagfæra.

Allir alþm. munu vera sammála um, að eitt mesta átumein í okkar þjóðfélagi sé og hafi verið flóttinn frá framleiðslunni, og þá einkum frá landbúnaðinum. Framleiðslan hefir verið rekin með litlum tekjum, en miklum áhyggjum og áhættu. Þjóðin hefir á ýmsan hátt búið betur að öðrum stéttum en framleiðslustéttunum. Mönnum er gjarnt að sækja að þeim eldinum, sem bezt brennur, og því hafa menn hópazt frá framleiðslunni, og þá einkum landbúnaðinum, til kjötkatlanna. Sá hugur virðist vera ráðandi hjá áhrifamönnum þjóðarinnar, að reyna að breyta þessu öfugstreymi í okkar þjóðlífi. Framlög til styrktar landbúnaðinum eiga meðal annars að vinna að því, að þetta megi takast. Lítil er það uppörvun þeim, sem hvattir eru til að hverfa úr bæjunum til framleiðslunnar í sveitinni, ef skera á niður svo stórkostlega þau framlög, er landbúnaðurinn hefir notið og gert hafa það að verkum, að flóttinn úr sveitunum hefir eigi verið ennþá örari og almennari en verið hefir.

Styrkurinn til endurbygginga í sveitum, jarðræktarstyrkurinn og styrkur til handa þeim bændum, er verða fyrir þyngstum búsifjum af hinum skæðu fjárpestum, mæðiveiki og garnaveiki, þeir eru lífsskilyrði fyrir sveitirnar til framdráttar framleiðslunni, og allir þeir mörgu, sem lifa óbeint á framleiðslunni, sem því miður eru allt of margir, ættu sízt að stiga nokkurt það spor, er verða má henni til ófarnaðar.

Lífvænleg afkoma og hagur framleiðslustéttanna er fyrir öllu.

Í tilefni af þeirri aths. fjmrh. fyrir lækkuðum styrk til bænda á mæðiveikisvæðinu vegna hækkaðs afurðaverðs er því að svara:

1. Ráðh. er með öllu ókunnugt um, hvað kann að verða afurðaverð á árinu i941.

2. Einnig ætti honum að vera j>að kunnugt. að fjöldi bænda á mæðiveikisvæðinu hefir misst og er að missa mestan eða allverulegan hluta af bústofni sínum, og kemur því að litlu haldi hækkandi verð á þeim afurðum, er þeir eigi hafa, þótt um hækkun kynni að verða að ræða.

3. Þrátt fyrir einhverja hækkun á afurðum landbúnaðarins eru litlar líkur til, að hún vegi upp á móti hinni geysilegu hækkun erlendra vara, er bændur þurfa til sins heimilis og búrekstrar.

Í sambandi við lækkun þá, sem gerð er al framlagi til jarðakaupasjóðs, vildi ég aðeins leyfa mér að skjóta því til ríkisstjórnarinnar, hvort hún sæi eigi aðrar leiðir til styrktar fjárhagslega aðþrengdum bændum en að láta ríkissjóð kaupa jarðir þeirra: Slíkar sölur munu að jafnaði gerðar út úr neyð, gegn vilja þess, er selur. Það er trúa mín, að íslenzkum landbúnaði og íslenzku þjóðinni sé það fyrir beztu, að hver bóndi eigi sitt ábýli, og að því beri að keppa.

Að því er snertir lækkun framlags til verkamannabústaða er það að segja, að mestur hluti þess fjár hefir lent hér í höfuðborginni, og verður því ásamt mörgu öðru, t.d. atvinnubótafénu, til þess að draga fólkið úr dreifbýlinu til höfuðborgarinnar og kaupstaðanna. Væri ekki úr vegi að leggja þetta fé að aliverulegu leyti til byggingar nýbýlahverfa einhverstaðar við sjávarsíðuna, þar sem væri hvorttveggja í senn, gott land til ræktunar og gott úrræði. Slíkir staðir eru án efa víða á landi hér. Geti eigi orðið lífvænlegt á slíkum stöðum, þar sem fólkið hefði sitt lífsviðurværi bæði frá smábúskap og sjósókn, Þá er vissulega eigi lífvænlegt á nýbýlum uppi til sveita, enda mun mörgum reynast það erfitt.

Við höfum gert allt of mikið að því á undanförnum árum að draga alla hluti frá dreifbýlinu og hingað til Reykjavíkur. Hér er mestallt fjármagn landsins safnað saman. Hér er byggt fyrir fleiri millj. á ári hverju. Hér eru allar aðallánstofnanir ríkisins. Hér eru allar ríkisstofnanirnar, sem greiða í vinnulaun millj. á ári hverju. Hér eru allir æðstu ráðamenn þjóðarinar á öllum sviðum. vegna þessa meðal annars þyrpist fólkið í höfuðstaðinn. Kjördæmi utan Reykjavíkur gera meir og meir að því að sækja fulltrúa á Alþingi Íslendinga hingað til borgarinnar, þrátt fyrir það þótt ágætir menn séu heima fyrir. Allt virðist gert til þess að draga allt vald til Reykjavíkur og undir menn þar búsetta.

Ef litið er á tekjuhlið fjárlaganna, þá er hún nokkru lægri en á yfirstandandi ári. Samkv. 2. gr. lækka tollar og skattar um 450 þús. kr. og einnig tekjur af ríkisstofnunum á 3. gr. um 385 þús. Þessi lækkun á tekjum ríkissjóðs af Ríkisstofnunum byggist þó eigi á því, að þær til samans svari minni brúttó tekjum en á yfirstandandi ári, heldur þvert á móti. Tekjurnar eru áætlaðar 100 þús. meiri. En rekstrarkostnaður þessara ríkisstofnana vex um háifa milljón. Þessi geysihækkun á rekstrarkostnaði er undarlega mikill. Eigi verður séð, hve mikill hluti þessa kostnaðar liggur í auknu kaupi eða fjölgun starfsmanna, sjálfsagt er það að litlu leyti, en þó má ætla, að sú upphæð skipti tugum þúsunda, t.d. hækka laun við áfengisverzlun ríkisins um 12 þús. kr. Er svo gífurleg aukning á rekstrarkostnaði þessara ríkisstofnana nauðsynleg? væri eigi ástæða til þess fyrir fjmrh. og ríkisstjórn að taka til nákvæmrar rannsóknar allan rekstur þessara stofnana með tilliti til þess, hvort eigi mætti þar við koma sparnaði í rekstri?

Sé farið í gegnum fjárlögin, verður þess fljótt vart, að um allverulegar hækkanir er að ræða á launagreiðslum til opinberra starfsmanna, og er þá ýmist um hækkun launa að ræða eða fjölgun starfsmanna. Má ætla, að þessar hækkanir nemi eitthvað á annað hundrað þúsund. Það skal tekið fram, að hér er eigi um dýrtíðaruppbætur að ræða, fjárlögin ætla sérstaklega hálfa milljón til dýrtíðaruppbótar opinberra starfsmanna.

Hver gerður endir á hinum síhækkandi launagreiðslum til opinberra starfsmanna og opinbers rekstrar? Gerðar eru kröfur, þarfar og óþarfar, um fjárframlög af hálfu hins opinbera. Flestar eru kröfur þessar samþykktar, og útgjöldin þar með ákveðin. Álögurnar eru síðan ákveðnar, án þess að gætt sé að líta nægilega á gjaldþol atvinnuveganna, sem bera uppi öll fjármál þjóðarinnar. Þetta er þveröfug aðferð við það, sem vera á. Fyrst ber að rannsaka gjaldgetuna, hvað hún leyfir, og ákveða síðan útgjöldin í samræmi við hana.

Engin merki sjást til þess í fjárlfrv., að nokkuð sé gert til að draga úr útgjöldum til hins opinbera rekstrar eða að fækka þar starfsmönnum sem farið hefir mjög ört fjölgandi undanfarin ár. Hefði svo verið gert, væri sönnu nær lækkun útgjalda til verklegra framkvæmda einnig, enda væri þá eitthvað léttar álögurnar á móti. Einmitt á þessum lið fjárlaganna verður að koma fram sparnaði með góðu eða illu, en í frv. er það þveröfugt. Laun starfsmanna hafa verðið hækkuð, en annarstaðar gert ráð fyrir auknu starfsmannaliði. Launahækkanir til prófessora háskólans voru að vísu réttmætar, það var þjóðinni eigi vansalaust að launa þá verr en almenna skrifstofumenn hjá ríkisstofnununum. En um launahækkanir annars er að gæta hins mesta varhuga, og fjölgun starfsmanna á ekki að eiga sér stað. Hvers vegna þarf að fjölga starfsfólki eða hækka kaup, þó vinna aukist eitthvað frá því, sem verið hefir? Fólk á opinberum skrifstofum vinnur eigi nema 5–6 tíma á dag; á pappírnum kann það að hafa lengri vinnutíma, en í framkvæmdinni verður það ekki. Þótt því störf kunni eitthvað að aukast. sýnist eigi nema sjálfsagt, að vinnutími þessa starfsfólks sé lengdur og því falið að vinna störfin án aukins kostnaðar fyrir hið opinbera.

Fjmrh. hefir haft nauman tíma til undirbúnings þessu frv., þar sem aðeins var um rúman mánuð að ræða. En ég vil fastlega vænta þess, að ráðh. sjái sér fært að gera fjárlög fyrir árið 1942 svo úr garði, að um verulega niðurfærslur verði að ræða á útgjöldum til hins opinbera rekstrar, en að eigi verði dregið úr nauðsynlegum framlögum til eflingar framleiðslunni í landinu.

Eitt af mörgu, sem samsteypustjórnin þarf að gera, er að taka til rækilegrar endurskoðunar allar launagreiðslur hjá ríkinu og ríkisstofnunum. Fellur þetta fyrst og fremst í hlut fjmrh. Um allar launagreiðslur þessara manna ríkir hin mesta óvissa og ósamræmi og einnig um starfrækslu og vinnutíma. Launalögin eru frá 1919 og því orðin úrelt og á eftir tímanum. Til þess nú að bæta upp hin lágu laun, er þar eru ákveðin, hafa ýmsir opinberir starfsmenn fengið allskonar uppbætur, bita og aukabita. Mun nú vera svo komið um marga þessa starfsmenn, að uppbæturnar og bitarnir gefa þeim meiri tekjur en þeir fá fyrir það, sem á að vera þeirra aðalstarf. Slíkt launafyrirkomulag er óþolandi og er undirrót allskonar persónulegrar og pólitískrar spillingar.

Starfsmönnum hins opinbera á að ætla nóg að starfa. Þjóðin krefst þess, að við, er vinnum vel framleiðslustörfum, vinnum vel og vinnum lengi. Hún krefst þess, að opinberir starfsmenn geri það einnig. Mönnum þessum á að greiða góð laun, svo að þeir með skynsamlegu lífi geti á þeim bjargazt. Ríkið hefir eigi ráð á því að greiða laun til að lifa nokkru óhófslífi.

Á síðastl. þingi mun nokkuð hafa verið unnið að því fyrir atbeina fjvn. að safna upplýsingum og gera skýrslur um tekjur starfsmanna hins opinbera og þeirra stofnana, er njóta styrks af opinberu fé, og einnig um launagreiðslur hjá starfsmönnum Reykjavíkur og jafnvel annara kaupstaða. Mun hafa verið ráðið á tímabili að prenta þessar skýrslur og gefa út, en talið er, að margir hafi því gerzt órólegir, og jafnvel að ýmsir þm. hafi verið þar fremstir í flokki.

Hvers vegna komu nú þessir háttv. þm. í veg fyrir útkomu þessara launaskýrslna? Þurfa þeir að fyrirverða sig fyrir þau laun, er þeir taka á móti af opinberu fé?

Það, sem fyrst og fremst hafði unnizt við útkomu þessara skýrslna, var það, að menn hefðu fremur veigrað sér við að vera á snöpum eftir allskonar aukastörfum. sem þeir þá oft vinna að á þeim tíma, er þeir eiga að vera við sitt aðalstarf. Þessu verður að ráða bót á, og á samsteypustjórninni að vera slíkt vorkunnarlaust með sterkum launalögum, þar sem gengið sé út frá við ákvörðun vinnutíma og launa, að hver starfsmaður hins opinbera hafi aðeins eitt starf með höndum og ein laun. hað er markmið, sem verður að lofa við setningu nýrra launalaga. Eitt starf. ein laun.

Þegar alþm. samþykkja frv. það, er hér liggur fyrir, með þeim breyt., er á því þarf að gera, þá gerum við það í því trausti, að forsjónin haldi yfir okkur sinni verndarhendi, svo sem hún hefir gert í ófriði þeim, er nú geisar, við samþykkjum þau í því trausti, að okkur verði kleift að flytja inn í landið okkar nauðsynjar og út okkar afurðir. En ef þessar vonir brest., hrynja öll fjárlög til grunna. Útlitið verður æ skuggalegra með hverjum degi, sem líður, og vel gæti svo farið áður varir, að sigiingar til og frá landinu stöðvuðust að mestu eða öllu. Samsteypustjórnin hefir haft mörg vandamál með höndum frá því hún tók við völdum, en eigi þætti mér ólíklegt, að hennar bíði ennþá meiri vandi um úrlausn mála.

Ég vildi mega vænta, að samsteypustjórnin ráði öllum þeim vanda, er að höndum ber, farsællega til lykta, að hún gæti þar aðeins skyldu sinnar gagnvart landi og þjóð, en að allur kritur einstaklinga og flokka milli yrði útlægur ger, en jafnframt vænti ég þess, að þjóðin taki vel öllum ráðstöfunum, er nauðsynlegar eru og eigi verður hjá komizt.

Sýnum það hver og einn, þegar á reynir, að Íslendingar viljum við allir vera.