03.04.1940
Sameinað þing: 12. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (2513)

93. mál, innflutningur á byggingarefni o. fl.

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að ég hefði sagt, að hús þau. sem byggð yrðu hér eftir, hlytu að verða svo dýr, að þau yrðu mylnusteinn um háls þeirra, sem létu byggja þau. Út af þessum ummælum mínum dró hv. þm. þá ályktun, að það væri með öllu óþarft að vera með takmarkanir á innflutningi byggingarefnis. Dýrleiki vörunnar myndi verða nægileg takmörkun. Þetta er ég ekki viss um, að sé rétt ályktun hjá hv. þm., og því vil ég undirstrika það, að rétt sé að miða þær ráðstafanir, sem gerðar verða um inn flutning byggingarefnis, við það, að nægilegt efni verði flutt inn til þess að viðhalda og lagfæra þau hús, sem þegar hafa verið byggð.

Þá vil ég taka það fram, að tölur þær um innflutning byggingarefnis, er ég nefndi, eru miðaðar við það efni, sem verzlanir fengu að flytja inn. Þar fyrir utan er því allt efni í kassa og efni til iðnaðarvinnu. Við úthlutun byggingarefnisleyfanna er sjálfsagt að taka tillit til þess og athuga, hvort ein eða fleiri greinar iðnaðarins vaxa umfram aðrar vegna ófriðarástandsins.

Þá sagði hv. 1. þm, Reykv., að ég hefði lagt áherzlu á, að sjá þyrfti mönnum þeim, er atvinnulausir verða í byggingariðnaðinum, fyrir nýrri atvinnu, en ég hefði ekki bent á neitt til úrbóta. Hér skilst mér, að við séum sammála. Ég legg áherzlu á, að það sé athugað mjög gaumgæfilega, hvað helzt sé tiltækilegast að gera til þess að létta undir með þeim, sem hér verða hart úti.

Hv. þm. taldi, að síðast af öllu ætti að fara út á þá braut að láta mennina fá atvinnubótavinnu. Það væri neyðarúrræði. Þetta má vel vera rétt hjá hv. þm., en eitthvað verður að gera, þar sem óhugsandi er með öllu, að allir hinir faglærðu byggingamenn geti fengið atvinnu áfram við byggingar. Það, sem ég hefði getað hugsað mér, að þeir yrðu látnir gera, er t. d. að vinna að undirbúningi nýbýlabyggða o. fl. Þetta vil ég láta athuga í nefnd, og því hefi ég lagt til, að málinu verði vísað til nefndar, svo að það geti fengið nokkra athugun. Það vill nú svo vel til, að hv. 1. flm. þessa máls á sjálfur sæti í nefnd þeirri, sem málið fær til meðferðar, svo fremi sem því verður vísað til n. Honum er því innan handar að reka á eftir því, að nefndin afgr. málið frá sér sem fyrst.

Annars verð ég að segja það, að ég tel ekkert við það að athuga, þó að þingið yrði t. d. að sitja 2–3 dögum lengur en ella vegna þessa máls. Hér er um stórt mál að ræða, sem leysa þarf í heild, en ekki að einhverju leyti.