23.04.1940
Sameinað þing: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (2535)

121. mál, milliþinganefnd, gjaldeyrismál og innflutningshömlur

*Flm. (Magnús Jónsson):

Ég skal ekki fjölyrða um þessa þáltill., því að hún er í raun og veru ávöxtur af samkomulagstilraunum um það mál. sem hér um ræðir, og geri ég því ráð fyrir, að hún sigli í gegn hér á þingi nokkurnveginn andmælalítið. Eins og allir sjá, gengur till. aðeins út á það, að Alþ. kjósi þriggja manna n., sem rannsaki þetta erfiða ágreiningsmál, sem hefir verið á milli flokkanna um gjaldeyris- og innflutningshömlur og rannsaki, hvaða nauður knýi til þess að hafa slíkar ráðstafanir og hvernig ástandið þurfi að vera til þess að fært sé að afnema þær verzlunarhömlur, sem nú eru, með öllu. Það er raunverulega með þessari þáltill. ekki farið fram á annað en það, að þessi þriggja manna n. rannsaki mál, sem var yfirlýst stefnumál þeirrar stj., sem nú er við völd, þegar hún tók við völdum, því að því var þá lýst yfir, að unnið skyldi að því að greiða úr þessum málum og höftunum yfirleitt.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar. Það eiga að fara fram 2 umr. um málið, og vil ég mælast til þess, að því verði nú þegar vísað til síðari umr., og leyfi mér að vænta þess, að forseti sjái til þess, að það komi strax fyrir aftur. Þar eð samkomulag hefir orðið um málið, sé ég ekki ástæðu til þess að vísa því til n.