23.04.1940
Sameinað þing: 23. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í D-deild Alþingistíðinda. (2554)

80. mál, vegagerð milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins

*Eiríkur Einarsson:

Ég kann allshn. þakkir fyrir till. hennar um þetta mál. Að vísu hefir hún orðað till. mína að ýmsu leyti um, en ég hefi ekki mikið út á það að setja, því að sama takmarkið ætti að nást fyrir því. N. hefir sleppt því úr, að við rannsókn vegarstæðis skuli einkum tekið tillit til þess, hver vegurinn sé stytztur og líklegastur til að verjast snjóum og verðu fær allar árstíðir, og finnst mér, að það hefði mátt haldast, en vænti þess, að í framkvæmd verði þessar höfuðkröfur ekki að vettugi virtar, þótt sleppt sé að minna þarna á þær. Gott eitt er um þá viðbót að segja, að rannsaka skuli leiðir annarstaðar á landinu, jafnóðum og tími vinnst til. Þó að mér þyki þessi rannsóknin brýnust af ástæðum, sem ég hefi áður rakið, eru vegarstæði víða á landinu mikið íhugunarmál og ekki sama, hvernig að er farið. Mér þykir því að öllu leyti betur, að samkomulag skuli hafa náðst í n. um málið, en lokið málþófi því, sem verið hefir um þetta efni fyrr. Það bendir á, að þingið sé á réttri leið til þess að átta sig sameiginlega á málefnum, en þess þyrfti nú á sem allra flestum sviðum þjóðlífsins.

Ég vænti þess, að hæstv, ríkisstj. sinni till. með gaumgæfni, ef hún nær nú samþykki hins háa Alþingis, og láti fram fara þá athugun fyrir næsta reglulegt þing.

Ég skal ekkert fara inn á einstakar leiðir, sem rannsaka þarf, Hellisheiðarleið né aðrar; það á einmitt rannsóknin að færa mönnum heim sanninn um. En ég vil segja það að síðustu, að ég ber þá von í brjósti, að svo skjótt og af svo mikilli alvöru verði snúið að framkvæmdum, að þær ættu að geta bætt að nokkru úr þeirri miklu atvinnuþörf, sem er fyrir dyrum.