20.03.1940
Sameinað þing: 8. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (2563)

24. mál, innflutningur á heimilisnauðsynjum farmanna

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég get verið því sammála að vísa málinu til n.

Það, sem kom mér til að segja hér nokkur orð, var það, að ég vil leiðrétta misskilning, sem komið hefir fram í umr.

Hv. flm. virtist álíta, að sú skipting, sem er á sjómönnunum á skipunum, væri miðuð við áhöfn á saltfisksveiðiflotanum, en það er ekki rétt; það er miðað við ísfisksveiðiflotann, og samkv. okkar samþykktum er það þannig, að 12 –13 manna áhöfn siglir í hvert skipti. Áhöfnin á ísfisksveiðunum er 19 menn, en á saltfisksveiðunum 30–35 menn. Þetta vildi ég láta koma fram, til þess að það valdi ekki misskilningi.

Þá vildi ég segja nokkur orð til hæstv. viðskmrh. Hann sagði, að sjómenn hefðu fengið að flytja inn hindrunarlitið, eins og hann orðaði það. Þetta tel ég, að sé ekki rétt, en býst við, að það stafi frekar af ókunnugleika en að hann hafi viljað fara með rangt mál. — Margir sjómenn, einkum á fiskiflotanum, líta svo á, að þeir séu eins og hundeltir af tolleftirlitinu samkv. skipun frá æðri stöðum. Það er ekki langt síðan ég var staddur uppi í ráðun. og átti þar tal við fulltrúann að skrifstofustjóranum áheyrandi um sjómann, sem hafði flutt inn fataefni, en það var tekið af honum, af því að hann hafði gleymt að gefa það upp við tollþjóninn, að því er hann skýrði frá, og síðan gat hann ekki fengið það aftur sökum þess, að hann þurfti að borga svo mikið fyrir fataefnið umfram toll og sekt. Það eina, sem sjómenn hafa fengið að flytja inn með sér, er leikföng og kannske örfá epli eða eitthvað þessháttar, af öllu öðru hafa þeir orðið að borga toll. Því er ekki hægt að neita, að þeir hafa litið svo á, að mjög stranglega hafi verið gengið eftir í þessu efni. (Viðskmrh.: Þetta er misskilningur). Enda hefir hæstv. ráðh. gengið mjög röggsamlega fram í þessum málum, en hvort hann hefir gert það að sama skapi gagnvart öðrum þegnum þjóðfélagsins, skal ég ekki segja um.

Um gjaldeyrinn vil ég segja, að það liggur nær að tala um hann í sambandi við annað mál, sem hér liggur fyrir. Hæstv. ráðh. taldi, að samkomulag mundi fást um þetta mál og gengið yrði til móts við óskir sjómanna, en ég hygg. að sjómenn telji, að hæstv. ráðh. hafi gengið of skammt. Sjómennirnir hafa líka rétt samkv. sjómannalögunum og þurfa ekki að beiðast leyfis hjá gjaldeyrisnefnd. Þess vegna er vafasamt það hirðisbréf, sem hann gaf út til útgerðarmanna, en sendi ekki stéttarfélagi sjómanna, um að takmarka skyldi gjaldeyrinn eins og hann ákvað í því bréfi. Hann leit svo á, að stríðsáhættuþóknunin gæti ekki heyrt undir þetta, en Norðmenn o. fl. telja þetta eins og hvert annað kaupgjald. Ég vildi segja hæstv. ráðh. mína skoðun á þessu. Ég vænti þess, að hann mæti sjómönnum sanngjarnlega í þessu og gefi málið frjálst til útgerðarmanna, að þeir megi semja um það við sína starfsmenn, því að ég hefi þá skoðun, að sjómenn geti ekki samið við hæstv. ráðh. um þetta mál, heldur við útgerðarmenn.

Þetta vildi ég láta koma fram nú, en skal ekki fara frekar út í gjaldeyrismálið, nema sérstaklega gefist tilefni til.