18.04.1940
Sameinað þing: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (2571)

24. mál, innflutningur á heimilisnauðsynjum farmanna

*Magnús Jónsson:

Eins og nál. ber með sér og eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, þá höfum við 2 nm. ekki getað orðið sammála meðnm. okkur um að vísa þessari till. til ríkisstj. Minni hl. hefir ekki gefið út neitt nál., og ég hefi að vísu ekki umboð til að tala fyrir hönd okkar beggja, en við lítum efalaust báðir þannig á málið, að ef því yrði vísað til ríkisstj., þá hyrfi það til uppsprettu sinnar. Ef það yrði sent til ríkisstj., færi það aftur til föðurhúsanna, og það er alveg gagnslaus hringferð. Minni hl. lítur svo á, að það sé mjög meinlaust og jafnvel sjálfsagður hlutur að samþ. þessa till., úr því hún er komin fram. Ég vil ekki fyrir mitt leyti færa þá ástæðu fyrir því, sem hér ver gert áðan, að nú væru siglingar svo hættulegar. Það hefir nú verið reynt að bæta sjómönnum það upp með auknum tryggingum og skattfrelsi. En það, sem þessi till. fer fram á, álít ég, að sé þeirra réttur og allir farmenn eigi heimtingu á þessum fríðindum. Það er ekki hægt að framkvæma þessi l. þannig, að menn þurfi að sækja um innflutningsleyfi í hvert skipti. Þeir menn, sem eru í siglingum og fá greiddan hluta af kaupi sínu í erlendum gjaldeyri, sjá hlut, sem þá vanhagar um, og þá er ekki hægt að amast við því, þó að þeir fái að flytja þetta lítilræði inn. Þessi till. er því alveg eðlileg og er ekkert annað en heimild fyrir farmenn að mega flytja inn fyrir 150 kr. í hverri ferð, án þess að þurfa að fara í launkofa með það. Þessi heimild er alveg sjálfsögð, enda mundu sjómenn flytja inn hvort sem er. Það er algerlega ómögulegt að ætlast til þess, að menn, sem eru sífellt í siglingum til útlanda og eiga þægilegra með að fá sínar lífsnauðsynjar úti, hafi ekkert leyfi til þess að koma með þær heim til sín, án þess að sækja um leyfi, sem kostar oft mikla fyrirhöfn.

Ég á bágt með að trúa því, að Alþingi geti ekki látið svo litið að samþ. þessa till., án þess að miklar deilur þurfi að standa um hana, og láti hana ekki fara til ríkisstj. Ég legg svo til, að till. verði samþ. ásamt brtt. hv. flm. á þskj.