18.04.1940
Sameinað þing: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (2573)

24. mál, innflutningur á heimilisnauðsynjum farmanna

*Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Ég vil þakka hv. minni hl. allshn. fyrir undirtektir hans undir till. mína, og ég vil einnig þakka hv. frsm. meiri hl. fyrir vinsamleg ummæli um þetta mál, þó að niðurstaða meiri hl. hafi orðið önnur en ég tel æskilega. Það kom fram í ræðu hv. frsm., að meiri hl. vill ekki binda hendur ríkisstj. í þessum etnum. Nú er það svo, að það er skylda að greiða farmönnum kaup sitt að nokkru leyti í erlendum gjaldeyri, og út af því, sem hv. 1. landsk. þm. sagði um gjaldeyrismálin, vil ég taka það fram, að með þessari till. er bindandi fyrir alla málsparta að láta af hendi þann erlenda gjaldeyri, sem till. gerir ráð fyrir, að sjómenn megi nota. Ég býst líka við, að ríkisstj. líti svo á, að þannig beri að skilja till., ef hún verður samþ. Hvað gjaldeyrishliðina snertir, þá hefir á því orðið alger breyting síðan till. var borin fram, og skilyrði til siglinga fyrir Ísland hafa breytzt ákaflega mikið. Má búast við, að siglingar beinist meira en áður til Ameríku. Þá hættir að sjálfsögðu sú siglingaleið, sem nú er farin, og skilyrði til siglinga verða allt önnur heldur en var áður en Norðurlönd lokuðust fyrir öllum viðskiptum. Ég held þess vegna, að gagnsemi af till., ef hún verður samþ., hafi minnkað mjög mikið, en þó tel ég hana mikils virði. Ég held, að önnur mótbára hafi ekki komið fram gegn till. en gjaldeyrishliðin, og það er áreiðanlega á misskilningi byggt, að hér sé um að ræða gjaldeyriskvöð fyrir landið. Eins og till. ber með sér, þá er samkv. henni ekki heimilt að flytji inn annað en það, sem menn mundu þurfa að kaupa af öðrum innflytjanda. Hún nær aðeins yfir heimilisnauðsynjar, og ef menn flyttu þær ekki sjálfir inn, þyrftu þeir að fá þær hjá manni, sem hefði innflutningsleyfi. Það myndi lítil sem engin áhrif hafa á gjaldeyrinn, þó að till. yrði samþ. Þeir menn, sem fengju að njóta fríðindanna, hefðu aðstöðu til þess að fá nauðsynjar sínar ódýrari en ella. Ég skal ekki fara út í það, hve mjög sjómenn, sem sigla til annara landa, eiga skilið að fá þessi fríðindi, en læt nægja að vísa til mínnar framsöguræðu og ræðu hv. frsm. mínni hl. allshn., að reynt hefir verið að bæta sjómönnum upp þá miklu hættu, sem hvarvetna mætir þeim. Engum blandast hugur um og enginn dregur í efa, að Ísland og Íslendingar eiga mikið komið undir starfi þessara manna og hversu stóran skerf þeir leggja til í okkar sumeiginlegu lífsbaráttu, miklu meira en aðrir landsmenn, þar sem þeir leggja í hættu líf sitt og limi. Ég mun ekki endurtaka neitt af því, sem ég hefi áður sagt um þessi efni, þar sem aðrir hafa ekki mótmælt því.

Ég gat um það við framsögu, að það væri fleira en þau fríðindi, sem farmenn fengju að njóta, sem gerði það að verkum, að hún væri bæði réttlát og holl. Það hefir talsvert borið á því, að þeir menn, sem sigla til annara landa, reyna að koma inn vörum án þess að borga tolla. Þeir treysta sér ekki til þess að greiða þá tolla, sem á vörurnar eru lagðir, og ef þeir sýna vöruna, myndi hún verða gerð upptæk og þeir fengju sektir fyrir. Ég álít því, að brýna nauðsyn beri til þess að leysa farmenn undan því að þurfa að smygla inn vörum, sem þeir hvort sem er þurfa að kaupa til heimilis síns, fyrir peninga, sem þeir hafa aflað sér með súrum sveita. Ríkissjóður myndi auk þess fá greidda tolla af þeim vörum, sem nú er reynt að smygla inn. Ef menn geta ekki mótmælt þessu, heldur eru sammála um, að sjálfsagt sé að veita farmönnum þessi hlunnindi og jafnframt tryggja ríkissjóði nokkrar tekjur, ættu þeir að samþ. þessa till. umsvífalaust. Ég vil því eindregið mælast til þess, að hv. meiri hl. allshn. verði samþykkur fljótri afgreiðslu þessa máls.