18.04.1940
Sameinað þing: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í D-deild Alþingistíðinda. (2577)

24. mál, innflutningur á heimilisnauðsynjum farmanna

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti ! Ég er hér eins og lítill skóladrengur og ófróðastur allra þm. í þessu máli. Lærifaðir minn í þessum efnum er hv. 2. landsk., eins og um öll mál, er sjómannastéttina snerta, og mig langar til að fræðast af honum. Við vorum fyrir stuttu siðan að tala saman í Ed. um áhættuþóknun sjómanna og um það, hvort hún ætti að vera undanþegin skatti. Þá útlistaði hann með mörgum hjartnæmum orðum, að það yrði að greiða sjómönnum þessa þóknun fyrir þann spenning og taugatitring, er því fylgdi, að verða að sigla um hættusvæðin, og áhættuþóknunin kæmi kaupinu ekki nokkurn hlut við; hún væri því alveg óskyld.

En nú í dag virðist hann vera algerlega á gagnstæðri skoðun, því að nú álitur hann, að áhættuþóknunin sé ekkert annað en kaup, og eigi að hlíta sömu reglum, og því beri að greiða, nokkurn hluta hennar í erlendum gjaldeyri.

Nú langar mig til að spyrja: Hvort á ég heldur að trúa því, sem hv. 2. landsk. sagði fyrir nokkrum dögum í Ed., eða því, sem hann segir hér í dag, — eða er hvorttveggja rangt?