18.04.1940
Sameinað þing: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í D-deild Alþingistíðinda. (2580)

24. mál, innflutningur á heimilisnauðsynjum farmanna

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég ætla aðeins að segja örfá orð við hv. flm. út af því, sem hann sagði. Ég veit, að hann segir það satt, að hann mun hafa rætt við vissa menn í Farmannasambandinu, og það mun vera í samræmi við vilja þeirra, sem till. er fram komin. Hitt er jafnsatt, að það, sem ég nefndi, er hin almenna skoðun um það, hvað menn telja sig geta unað við um gjaldeyrisútlát.

Ég ætla annars ekki að fara að endurtaka það. sem ég hefi áður sagt. Þetta er bein afleiðing af hinum breyttu tímum.

Við hv. 1. þm. N.-M. vil ég segja það, að hann virðist tornæmur nú sem stendur. Það, sem ég sagði, er þetta: Ég hefi aldrei skoðað áhættuþóknunina sem sérstakt launafyrirkomulag, heldur sem verðlaun fyrir það, að þessir menn leggja sig í sérstaka hættu umfram aðra þegna þjóðfélagsins til að flytja að og frá landinu nauðsynjar'. Hinsvegar sagði ég áðan, að það væri hin almenna .skoðun í nágrannalöndum okkar, að það bæri að greiða mönnum gjaldeyri jafnt af þessum heiðurslaunum, án tillits til þess, hvort þau væru skoðuð sem kaup eða ekki.

Þetta getur hv. þm. ekki skilið. Hann hefði sjálfsagt skilið það betur, ef ég hefði talað við hann um búfjárkvilla. En um þau efni, sem hér er um að ræða, virðist hann vera alveg ófróður.