17.04.1940
Sameinað þing: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (2593)

111. mál, athugun á fjárhag þjóðarinnar

*Flm. (Jón Pálmason):

Ég þarf ekki að fara mjög mörgum orðum um þá till., sem ég flyt á þskj. 400, þar sem aðalatriðið, er fyrir mér vakir, er tekið fram í grg. till. Það hefir verið mjög mikill ágreiningur um það, bæði innan Alþ. og utan þess, að hve miklu leyti fjárhagur okkar þjóðar sé í vanda staddur. Ég tel, að það sé á hverjum tíma alveg brýn þörf á því, ekki aðeins fyrir Alþ. og ríkisstj., heldur alla aðila, sem hafa opinber fjármál með höndum, að gera sér glögga grein fyrir því, hvernig fjárhagur þjóðarinnar er í aðaldráttum á hverjum tíma.

Það hefir undanfarið verið mjög mikill ágreiningur um það, hve mikla skatta og tolla væri fært að leggja á okkar þjóð, og hvernig hag atvinnuveganna væri farið, vegna þess að þungar byrðar hvíla á framleiðslunni í sambandi við opinber gjöld. Nú er það vitað mál, og ætti að standa ljóst fyrir augum allra, a. m. k. allra þeirra, sem sæti eiga hér á þingi, að sá eini grundvöllur, sem rétt er að byggja á til álagningar útsvara og skatta á framleiðslutekjur landsmanna og þær tekjur, sem menn hafa af skuldlausum eignum, er það, hve miklar þessar framleiðslutekjur þjóðarinnar hafa verið á undanförnum árum að frádregnum atvinnurekstrarkostnaði. Þetta atriði verðum við að fá upplýst, og þess vegna er það meginatriðið, sem ég hefi byggt till. mína á.

Í sambandi við þetta er einnig brýn þörf á, að það liggi ljóst fyrir, hve miklar skuldirnar eru við útlönd og hve miklar skuldir eru við banka og sparisjóði hér innanlands og hjá öðrum slíkum stofnunum. Ennfremur þurfum við að fá að vita greinilega, hve miklu eignir íslenzkra manna erlendis nema, og arður af þeim. Okkur er nauðsynlegt að vita um hag framleiðslunnar, hve mikið allt stofnfé hennar er, hús og bátar og önnur fyrirtæki, sem eru arðberandi, en teljast ekki til opinberra stofnana„ eins og margt af því, sem talið er á ríkisreikningunum til eigna hjá ríkissjóði.

Í fimmta lagi er farið fram á það í till. minni, að athuga rekstrarkostnaðinn og semja skýrslur um, hve mikill hann muni verða hjá þeim aðilum, sem till. tekur fram. Það þarf að safna skýrslum um þetta frá ríkinu, frá bæjar- og sveitarfélögum, frá peningastofnunum, samgöngufyrirtækjum og þeim fyrirtækjum, er einstakir menn eiga og annast verzlun í landinu. Ég lit svo á, að með þeirri athugun muni fást yfirlit yfir það helzta, sem framleiðsla landsmanna hvílir á á hverjum tíma. Af því að á mörgum sviðum liggja reikningar nokkuð ljóst fyrir, þá þarf ekki mjög mikla fyrirhöfn við það að draga þá út, og ég tel, að það þurfi ekki að valda mjög miklum kostnaði að fá þessar skýrslur gerðar. Mesta fyrirhöfnin er fólgin í því að draga út úr skattskýrslum öll gögn, er fyrir liggja um það, hve mikil framleiðslan er, að frádregnum atvinnurekstrarkostnaði. Ég get hugsað mér, að þeir einir muni vera á móti því, að sú athugun fari fram, sem ekki hafa gert sér ljóst, hvernig ástandið er á þessu sviði; en ég vona, að þeir séu ekki margir, sem þannig eru sinnaðir, að þeir vilji ekki hafa fastan grundvöll til að byggja á þær ráðstafanir, sem gerðar verða á fjármálasviðinu.

Ég sé ekki neina ástæðu til þess að vísa þessari till. til n., en ef till. kemur fram um það, þá tel ég réttast, að henni verði vísað til fjvn. — Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta mál að sinni, en ég óska þess að þessi till. nái fram að ganga, og ef þm. vilja vísa henni til n., óska ég þess, að hún verði athuguð af fjvn. áður en þingi verður slitið, svo að hún geti fengið fullnægjandi afgreiðslu.