23.04.1940
Sameinað þing: 23. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í D-deild Alþingistíðinda. (2604)

111. mál, athugun á fjárhag þjóðarinnar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti ! Nefndin hefir orðið sammála um að leggja til, að till. verði afgr. með rökst. dagskrá á þskj. 564, þar sem lagt er til að vísa málinu til ríkisstj., í trausti þess, að hún láti rannsaka, eftir því sem gerlegt þykir, þau verkefni, sem till. ræðir um.

Það kemur fram í því, að hæstv. forseti lætur nægja eina umr. um málið, að talið er af hans hálfu, að till þyrfti ekki að kosta fjárútlát, þótt hún yrði samþ. En ef það ætti að rannsaka til hlítar alla liði till., þyrfti áreiðanlega til þess mikið fé. Með því að víkja við orðalagi till. og bæta inn orðunum: „eftir því sem gerlegt þykir“„ vill allshn. takmarka verkefnin við það, sem ríkisstj. telur fært. Ætti að rannsaka það, sem talið er í till. í liðunum 1–5a–d, yrði líka óhjákvæmilegt, að þeir, sem það ættu að vinna, fengju aðgang að upplýsingum hjá ýmsum aðilum, sem ekki er skylt að veita þær, og þyrfti sérstaka lagaheimild til. Hinsvegar er hægt að afla ýmissa af þeim upplýsingum með hægara móti. Hugsazt getur, að ástæða sé til þess, þegar kemur að hinu almenna manntali á komandi hausti, að haga því nokkuð öðruvísi en áður. Árlega er það flokkað af hagstofunni. hvernig skattgreiðendur skiptast eftir tekjuhæð. Á líkan hátt mætti e. t. v. flokka menn við manntalið, og þá jafnframt eftir stéttum, svo að fram kæmi nokkuð af þeim upplýsingum, sem hv. flm. óskar eftir. Aftur eru aðrar upplýsingar nefndar í till., sem fást ekki án sérstakrar lagasetningar. Í 4. lið eru nefndar upplýsingar, sem hagstofan hefir að nokkru leyti skýrslur um, og væri hægt án mikils kostnaðar að vita, hverju skuldir nema við stofnanir innanlands. Nefndin vill leggja það á vald ríkisstj., hve mikið af því, sem í till. er talið, verði rannsakað og hefir þá fyrst og fremst í huga eftirgrennslan þeirra atriða, sem ég nú veik að og ekki ættu að þurfa að valda miklum kostnaði.

Þá vil ég segja, að ríkisstjórnin ætti að sjá til þess, að ekki þurfi að líða mörg ár frá því að manntalið er tekið, þangað til árangur þess er lýðum ljós og nothæfur almenningi. Það liðu 4 ár frá manntalinu 1930 þangað til menn höfðu þess nokkur not, og þetta er venja með skýrslur hér, að gefa þær ekki út fyrr en um það leyti, sem þær eru að verða úreltar. Þó að það þyrfti að bæta við manni í hagstofunni til að flýta fyrir þessu máli, er ekki í það horfandi. Við höfum ekki efni á að geyma dýrmætar upplýsingar, sem mikið er búið að hafa fyrir, árum saman í skjalapökkunum óunnum.

Ég geri ráð fyrir, að hv. flm. verði e. t. v. ekki alls kostar ánægður með þá afgreiðslu, sem n. leggur til. En sem góður stuðningsmaður ríkisstj. ætti hann, finnst mér, að bera það traust til hennar, að hún muni láta framkvæma till. hans í öllu því, sem gerlegt verður talið.