23.04.1940
Sameinað þing: 23. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í D-deild Alþingistíðinda. (2605)

111. mál, athugun á fjárhag þjóðarinnar

*Jón Pálmason:

Úr því að allshn. hefir orðið sammála um það að vísa þessu máli frá með rökst. dagskrá, mun vera þýðingarlaust að tefja tímann með miklum umr. um það. Eigi að síður get ég ekki látið hjá líða að láta í ljós nokkra undrun yfir því, að allshn. skuli hafa komizt að þessari niðurstöðu, einkum vegna þess, að þessi till. er ekki annað en áskorun til ríkisstj., og að því leyti er rökst. dagskráin í svipuðum anda, að öðru leyti en því, að það virðist hafa verið vilji n. með sinni dagskrá að koma því til leiðar, að þessi till. verði ekki samþ. Jafnframt kemur það í ljós að því er virðist í ræðu hv. frsm., að hann telur sennilegt, að þó að þetta yrði samþ., þá yrði svo miklum annmörkum bundið að framkvæma það, sem till. fer fram á, að það yrði litt gerlegt, eða a. m. k. myndi það hafa mjög mikinn kostnað í för með sér. Ég tel, að hv. frsm. hafi gert allt of mikið úr þessu, því að það starf, sem ég ætlast til, er aðallega í því fólgið að draga út úr reikningum, skýrslum og skattaframtölum þær tölur, sem ég tel nauðsynlegt að fá í þessu sambandi. Að vísu er það náttúrlega nokkuð verk, en ég tel þó, að ríkisstj. geti látið þær stofnanir, sem eru starfandi, fleiri eða færri, annast þetta án þess að það hafi nokkurn verulegan aukakostnað í för með sér.

En hvað það atriði snertir, að það myndi þurfa löggjöf til að hafa aðgang að ýmsum þeim upplýsingum, sem hér er farið fram á, þá fæ ég ekki séð, að þess þurfi með. Hitt er annað mál, að það yrði náttúrlega að heimila þeim mönnum, er þetta verk ynnu, að fá aðgang að skattaframtölum, en því mætti koma til leiðar með tilstilli yfirskattan. og ríkisskattan. hér í Reykjavík, að draga út úr skattaframtölunum þær upplýsingar, sem hér er farið fram á.

Að því er snertir manntalið, eða 2. lið þessarar till., þá er það náttúrlega rétt, sem hv. frsm. tók fram, að það á að vera hægt án mikillar fyrirhafnar að fá svar við þeim spurningum, er þar koma til greina, þegar almennt manntal fer fram næsta haust, og þær niðurstöður gætu legið fyrir í byrjun næsta Alþ.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. minntist á, að þessi till. myndi hafa svo mikinn kostnað í för með sér, að ríkisstj. væri trúandi til þess einni, og engum öðrum, að framkvæma þetta að svo miklu leyti sem fært þætti samkv. hinni rökst. dagskrá, vil ég svara, að það er næsta lítill munur á því að samþ. áskorun til ríkisstj. eða lýsa því yfir, að þessari till. verði vísað til ríkisstj. í trausti þess, að hún láti framkvæma hana án þess að hún fái áskorun um það.

Að öðru leyti ætla ég ekki að tefja tímann með því að fjölyrða um þetta mál; ég geri ráð fyrir, að rökst. dagskráin verði samþ., og á næsta Alþ. gefst væntanlega tækifæri til að sjá, hve mikill árangur hefir orðið af þeirri meðferð þessa máls, sem allshn. hefir lagt til.