29.03.1940
Neðri deild: 25. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í D-deild Alþingistíðinda. (2616)

67. mál, saltfisksveiðar togara

Emil Jónsson:

Herra forseti! Mér þykir vænt um, að hæstv. ríkisstj. hefir haft þetta mál til athugunar og kynnt sér það rækilega, eins og líka trúlegt var, þar sem hér er um eitt hið þýðingarmesta mál fyrir afkomu allrar þjóðarinnar að ræða, eins og þetta mál er. En sú niðurstaða, sem hæstv. stj. eða hæstv. atvmrh. virðist hafa komizt að í þessu efni, felur í sér þá sorglegu staðreynd, að hann telur, að þetta, ef ekki alveg útiloki, þá geri lítt fært að hugsa sér möguleika til þess, að togarar geti stundað þessar veiðar.

Það er nú alltaf talið þannig, þegar skýrslur eru gerðar eða áætlun gerð, að niðurstaðan velti mikið á því, hvaða tölur eru teknar, eins og þar stendur.

Og þar sem hæstv. atvmrh. taldi sig hafa nokkurn veginn vissu fyrir því, að tekjuhalli togara við eins mánaðar rekstur myndi verða 40–50 þús. kr. miðað við núverandi verðlag á afurðunum, þá er ég nú satt að segja hálfsmeykur við, að það myndu ekki allir útgerðarmenn skrifa undir þetta með honum.

Ég skal játa, að sá kostnaður, sem útgerðin verður að hafa af sínum rekstri, er ákaflega mikill. Og hann er sérstaklega mikill, ef reiknað er með verði á nauðsynjum til útgerðarinnar eins og verðið mun verða eftir að vertið er lokið. Það er ekki almennt, svo ég nefni eitt dæmi, að reikna kolin nú 160 kr. tonnið. Og ég ætla, að það sé ekki ósanngjarnt að reikna togurunum þau með verði, sem sé verulega lægra en þetta verð.

Togarar, sem hafa stundað ísfisksveiðar og fiskflutning til Englands í 6–7 mánuði, hafa komið alla þessa mánuði heim fullfermdir af kolum, sem þeir hafa keypt í Englandi á eitthvað milli 20–40 kr. tonnið, mismunandi eftir því, á hvaða tíma er. Það hefir farið hækkandi, en milli þessara settu marka ætla ég, að verðið hafi legið. Og þessi skip þurfa ekki að reikna sér farmgjald svo hátt, að útsöluverð hér á staðnum þurfi að vera 160 kr. tonnið.

Mér er sagt af þeim„ sem hafa reiknað þetta fyrir mig, að ef kostnaðurinn sé reiknaður með því að telja hæfilega reiknuð laun, miðað við þessar ástæður, og allt miðað við það verð, sem var við síðustu áramót, þá telji þeir, að mjög muni standast á kostnaður og tekjur útgerðarinnar með svipuðum aflabrögðum og nú eru. Og til þess að hafa ekki eintómar áætlaðar tölur, vil ég nefna eitt dæmi frá útgerðinni, sem ég þekki bezt og hefi verið nokkuð riðinn við. Það er skip, sem hefir hætt ísfisksveiðum og verið gert út heldur en ekki á saltfisksveiðar og ufsaveiðar, sem gefa nákvæmlega sömu atvinnuaukningu, og sízt minni.

Skipið hefir farið nokkrar veiðiferðir. Og það hefir venjulega fyllt sig á viku, og aflinn eftir vikuna hefir verið 20–25 þús. kr. að verðmæti til, þannig að tekjur skipsins á viku má reikna 20–20 þús. kr. Og ég tel ekki, að sú útgerð hafi gefið halla þennan tíma, sem hún hefir verið rekin. Þetta er að vísu kannske nokkuð öðruvísi heldur en þorskveiðar, en þó svipað að því leyti, að það gefur nokkuð sömu raun fyrir fólkið, sem nýtur þessarar atvinnu.

Ef fleiri hefðu haft hug á að stunda þennan atvinnuveg, hefði mátt auka verulega frá því, sem nú er, atvinnu í landinu með þessu. Fyrir utan þessar tölur, sem ég nefndi um tekjur skipsins eftir veiðiför, koma svo verkunarlaunin í landi, því að mér hefir skilizt, að svo hefði verið samið um þennan ufsa, að hann væri keyptur föstu verði og seldur og verkunarlaun á honum væru tryggð þannig, að sala á honum væri nokkuð örugg. Þetta eru raunverulegar tölur, sem teknar eru beint út úr veruleikanum einmitt í því efni, sem um er deilt. Ég ætla, að það liggi ekki fyrir margar tölur heppilegri af sama tagi, af því ég geri ráð fyrir, að aðrir hafi ekki átt við ufsaveiðar til þess að efla atvinnu hjá fólki í landi, sem þarf að fá eitthvað að gera.

Ég er fús á að vísa málinu til n., eða það fái athugun þar, svo aðrir fái að sjá þau gögn frá ríkisstj., sem hæstv. ráðh. talaði um og vel má vera, að standist með þessu háa verði á kolum og salti, sem hann gaf í skyn, að reiknað væri með. En það, sem fyrir mér vakir, er það, að þar sem verðmæti hefir verið aflað á þennan hátt, gefur það ekki tilefni til þess að meta þau eftir þessu háa kolaverði. Hinsvegar ef það sýnir sig, að lokinni athugun á þessu máli, sem ég tel sjálfsagt að fari fram, að það sé ókleift að gera þetta, og úr því verður að fá skorið þegar í stað, því að það er nú þegar komið fram að þeim tíma, sem venjuleg vertíð á að vera hafin eða um það bil að hefjast, og í allra siðasta lagi um næstu mánaðamót, þá verður að bæta úr atvinnuleysinu á annan hátt. Ég vil þess vegna vænta þess, að þeirri athugun, sem n. á að gera, verði hraðað mjög.

Ef það skyldi svo sýna sig, að lokinni þessari athugun, að það væri ókleift ekki aðeins fyrir eigendur skipanna — því að ég tel það ókleift, ef afkoman sýnir sig að verða eins og hæstv. atvmrh. taldi tapið á skipi í einni veiðiför, 50–60 þús. kr. —, sé ég ekki aðra leið til þess að bæta úr atvinnuleysisbölinu en að leggja skatt á þau skip, sem hafa haft ágóða af ísfisksveiðunum og sölu til Englands. Náttúrlega verður að taka tillit til þess við þá skattálagningu, hvaða skip hafa haft mest og í hvaða skuldum þau eru nú. Það er ekki nema maklegt og rétt, að það sé skylt að taka það til greina.

En ef ekki fæst atvinna handa fólkinu með því að láta skipin ganga á saltfisksveiðar, þá sé ég engan annan stað til þess að taka peninga í það að skaffa þessu fólki atvinnu til þess að geta lifað heldur en frá þeim, sem hafa haft hagnað af þessum ísfisksveiðum. Þau skip, sem hafa stundað saltfisksveiðar, hafa orðið til þess að draga fólkið til kaupstaðanna héðan og þaðan að af landinu, til þess að afla sér þar atvinnu. Þegar það svo er skilið eftir í vandræðum og atvinnuleysi, þá verða þeir, sem hafa fengið það til sín og eiga töluverða sök á því að það er þangað komið, fyrst og fremst að reyna að sjá um að bæta úr þessu böli.

Hæstv. atvmrh. minntist einnig á það, að það hefðu farið fram nokkrar sölur á saltfiski og útlitið væri slæmt, m.. a. hefðu Norðmenn selt sinn fisk verulega miklu ódýrari heldur en við hefðum selt hann í fyrra á sama tíma,— sem er óvenjulegt, því að þeirra fiskur hefir venjulega verið í hærra verði. En þá er því til að svara, að ég heyrði ekki betur en einn framkvæmdarstjórinn í S. Í. F. segði, að verð fyrir óverkaðan fisk, sem seldur var til Ítalíu, hefði verið verulega hærra en á sama tíma í fyrra, er myndi nema allt að 50%. Og mætti því einnig vænta þess, að hinn verkaði fiskur færðist eitthvað upp, þegar fram í sækti.

Ég er fús til að ræða við n. þá, sem málinu kann að verða vísað til, og vona, að hún sinni fljótt þessu máli, því að því liggur verulega mikið á.