11.04.1940
Neðri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í D-deild Alþingistíðinda. (2624)

67. mál, saltfisksveiðar togara

*Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Það er alveg rétt hjá hæstv. atvmrh., að þegar ég ræddi um þetta mál við hann, þá gerði hann ráð fyrir því, að hann myndi koma með till. um það, að vísa málinu til ríkisstj. til athugunar um, hvort tiltækilegt væri, að togarar færu á saltfisksveiðar. En eftir því, sem ég bezt veit, þá hefir það ekki orðið enn, að því einu undanskildu, að nokkur hluti af togurum Hafnarfjarðar er farinn á saltfisksveiðar. Ég verð því að telja, þar sem um svo stórvægilegt mál er að ræða sem þetta, að það sé í alla staði eðlilegt og æskilegt, að Alþ. láti sinn vilja í ljós um þetta mál með atkvgr. um þessa þáltill. Það hlýtur að vera að því mikill styrkur fyrir ríkisstj., ef hún hverfur að þessu ráði, að hafa samþykkt Alþ. um það.

Ég get verið sammála um það, að það sé ekki æskilegt, að allur togaraflotinn fari frá ísfisksveiðum og á saltfisksveiðar, því að það er spursmál, hvort það er heppilegt. Það hefir komið fram í ræðu hæstv. atvmrh., að þó að samþ. yrði þessi þáltill., þá væri það ekki tilætlunin, að allur togaraflotinn færi á saltfisks veiðar.

Þá sagði hæstv. ráðh„ að það orkaði tvímælis, hvort útgerðarmenn hefðu að sjálfsögðu slíkar skyldur gagnvart fólkinu, sem hefði bundið atvinnu sína við atvinnurekstur þessara manna. En þjóðfélaginu ber ekki síður skylda til þess að gæta þess, að þetta fólk hafi atvinnu. Eins og glögglega kom fram hjá flm. þáltill., fæ ég ekki séð annað en að tvær leiðir séu fyrir hendi í þessu efni. Önnur er, að horfið sé að því að senda togarana á saltfisksveiðar í tíma, beinlínis til þess að auka atvinnuna í landinu. En hin leiðin er að leggja skatt á ísfisksútgerðina, til þess að sjá þessu fólki fyrir atvinnuaukningu. Á þetta var bent af flm. þáltill.

Við fyrri hl. umr., að þessi leið myndi teljast eðlileg í þessu efni. Ég hefði talið eðlilegt í þessu máli, að togaraútgerðarmönnum væri gert frjálst val um tvær leiðir, að fara á saltfisksveiðar eða að öðrum kosti að halda uppi ísfisksveiðum og leggja af mörkum visst skattgjald til atvinnu fyrir fólkið, sem misst hefir þá atvinnu, sem það hefir haft við saltfisksverkun. Þetta hefir verið orðað við útgerðarmenn.

Ég vil ekki, að svo verði við þetta mál skilið af Alþ., að það láti ekki sitt álit í ljós um þetta. Við það má e. t. v. bæta því, að ég ætla, að einmitt nú í dag hafi borizt fregn um það, að kyrrsetja ætti togara í Englandi. Þá væri sjálfsagt að athuga þetta mál, hvort ætti ekki heldur að hverfa að saltfisksveiðum, ef eitthvað verður um afla.