11.04.1940
Neðri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (2629)

67. mál, saltfisksveiðar togara

*Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Hæstv. atvmrh. tók svo til orða, að það væri augljóst nú þegar, að togararnir gætu ekki farið á saltfisksveiðar, vegna þess að það hlyti að verða svo geysilegt tap á þeim rekstri, vegna þess að aflinn væri fyrst og fremst lítill og verðiagið lágt. Ég hygg nú, að þetta sé ofmælt hjá hæstv. ráðh. Um þetta er ekki hægt að segja með vissu. Það er hvorttveggja, að aflinn getur glæðzt og verðlagið er reikult. Hitt skal ég játa, að það er almennt litið svo á, að það borgi sig betur að stunda ísfisksveiðar. Og það er einmitt þess vegna, að gera þarf sérstakar ráðstafanir til þess að fá togarana til að fara á saltfisksveiðar. Ég verð að segja það, að mig furðar mjög á orðum hæstv. ráðh., þegar hann sagði, að það væri hvorki rökrétt hugsun né réttlæti í því að gera ráð fyrir, að togararnir mættu eiga tveggja kosta völ: annaðhvort að fara á saltfisksveiðar eða leggja fram fé til þess að bæta úr því atvinnutjóni, sem af því leiddi, að þeir færu ekki á saltfisksveiðar. Mér finnst þvert á móti bæði rök og réttlæti mæla með þessu. Hæstv. ráðh. sagði, að gerðar hefðu verið ráðstafanir til hjálpar útgerðinni, vegna þess að hún var í fjárþröng, og þess vegna næði engri átt að fara nú að leggja svona kvaðir á hana. Ég er honum sammála um það, að nauðsyn bar til þess að létta undir með útgerðinni. Hæstv. ráðh. gleymdi þó að geta þess, sem skiptir þó hvað mestu máli í þessu sambandi, að einmitt á sama þingi sem þetta var gert var samþ. að lækka gengi íslenzku krónunnar, og þar með skerða nokkurn hluta kaupgjalds verkamanna og sjómanna beinlinís til styrktar útgerðinni. Alþ. taldi þetta nauðsyn, og sjómenn og verkamenn hafa sætt sig við þetta. Það er fullkomlega rétt, að útgerðarmenn hafa hér enga lagalega skyldu, en þeir hafa siðferðislegar skyldur við þetta fólk, og það því fremur, sem þetta fólk hefir sýnt skilning á högum útgerðarinnar á hennar verstu tímum, með því að taka á sig afleiðingar gengisbreytingarinnar í fyrra.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál, en ég vænti þess, að hv. þm. geri sér það fullkomlega ljóst, að hér er um svo stórt mál að ræða, að það er varla gerlegt, að þingið hætti svo störfum, að ekki sé eitthvað vitað um aðgerðir í þessu máli. Á þingið að ljúka svo störfum, að stj. verði engin vísbending getin um það, hvernig eigi að mæta því ástandi, sem skapazt hefir í þessu efni? Fari svo, að þessi till. verði felld, þá verð ég að lýsa því yfir, að ég mun fyrir mitt leyti verða þess hvetjandi, að borin verði fram áður en þingi lýkur till. til þál. um heimild fyrir ríkisstj. til einhverra aðgerða í þessu efni. Ég tel, að þingið geti ekki skilið svo við þetta mál, að ekki liggi eitthvað fyrir um vilja þess í þessum efnum.